Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 15:42:39 (468)

1995-10-19 15:42:39# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fróðlegt að heyra málsvörn hæstv. landbrh. Hún er einföld. Hún er sú: Alþfl. ber ábyrgð á þessu öllu saman. Og rökin eru þau að hv. þáv. þm. Ingólfur, sem stundum var kenndur við Hellu, náði því fram á viðreisnarárunum fyrir rúmlega 30 árum að koma á útflutningsbótakerfi sem Alþfl. hefur barist fyrir með oddi og egg í ljósi offramleiðsluvandans síðar að koma af og getur stært sig af því að í því tilboði sem gert var árið 1991, þá af hálfu þáv. utanrrh. í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þá tókst að koma útflutningsbótakerfinu af. Það var afrek út af fyrir sig og skal viðurkennast, því að hvernig værum við stödd ef þetta kerfi væri enn við lýði?

Þessi dæmi af hæstv. ráðherra eru nefnilega til vitnis um það sem ég átti ólokið að segja. Hvenær kemur að því að hv. þm. Framsfl., Sjálfstfl. og reyndar Alþb. fari að viðurkenna ábyrgð sína á þeim óförum sem þeir hafa leitt yfir íslenska bændastétt? Hvenær ætla þeir að viðurkenna það, þessir menn sem bera ábyrgð á löggjöfinni, að við greiddum t.d. atkvæði gegn búvörulöggjöfinni 1985? Það þekkja allir sem verið hafa hér í þingsölum síðan hvernig við höfum í hvert einasta skipti tekist á við þessi mál. Við höfum þó náð þeim árangri að útgjöldin hafa lækkað, við höfum komið útflutningsbótakerfinu fyrir kattarnef. Með aðildinni að GATT standa vonir til þess að þegar fram líða stundir. Þá erum við auðvitað að reka þetta kerfi á flótta. Undanhaldið er hafið. Þeir eru meira að segja farnir að viðurkenna það sem þeir sögðu ekki bændum fyrir kosningar að það ætti að afnema kvótakerfið eða afnema opinbera verðstýringu. Nei, þeir sögðu það ekki fyrir kosningar. Við sögðum það og nú segja þeir allt rétt sem við sögðum fyrir kosningar, en treysta sér ekki til þess að framkvæma það.

En hvenær kemur að því að þeir ætla að segja heiðarlega við íslenska bændur sem rétt er: Þið berið ábyrgð á því að þið hafið blekkt þá áratugum saman. Þið berið ábyrgð á því að hafa leitt þá í fátæktargildru. Þið berið ábyrgð á því að kjör þeirra eru orðin svo léleg að þeir eru varla færir um að framfleyta fjölskyldum sínum. Þið berið ábyrgð á því að afleiðingarnar gagnvart neytendum eru eins og þær eru. Þið berið ábyrgð á því að hafa sólundað fé almennings á Ísland í botnlausa hít án nokkurs árangurs fyrir nokkurn mann.