Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 15:47:31 (470)

1995-10-19 15:47:31# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nema skylduverk að reka þetta undanhald. Hæstv. landbrh. sagði: Það hefði þurft að bregðast við miklu fyrr. Það var ekki gert af forvera hans, landbrh. Sjálfstfl. Síðan segir hann: Við erum að búa til nýtt kerfi. Í raun og veru felst í þessum fáu orðum sú viðurkenning sem ég var að mælast til að frá honum kæmi. Með öðrum orðum, kerfið sem við bjuggum til, flokkurinn hans, samstarfsflokkurinn hans, og meira að segja sumir aðrir í stjórnarandstöðunni hafa gersamlega brugðist. Loksins. Það er komin viðurkenning á því. Við viljum búa til nýtt kerfi. Það er rétt sem talsmenn Alþfl. hafa sagt. Kvótakerfið er ónýtt og hefur skaðað bændur og neytendur. Það er rétt að stefna að því að afnema það. Það er rétt sem kratarnir hafa sagt, að verðskýring hins opinbera hefur brugðist og við skulum stefna að því að afnema það.

Það er rétt að það á ekki að hvetja til offramleiðslu með því að framleiðslutengja beingreiðslurnar. Það er með öðrum orðum allt rétt í kjarna málsins sem við höfum sagt á undanförnum árum í gagnrýni á þetta kerfi. En þá kemur afsökunin. Það er bara ekki strax. Það er bara ekki hægt að gera þetta, ekki 1996, það verður að vera 1997 og 1998. Það er rangt, hæstv. ráðherra. Það er rangt eins og ég færði sönnur á með rökum mínum hérna áðan að í því millibilsástandi munuð þið klúðra því að unnt sé að ná settum markmiðum. Hin sorglega niðurstaða er að þið viðurkennið í öðru orðinu að ykkur hafi mistekist og að þið berið stóra ábyrgð gagnvart bændum og neytendum á þessu kolúrelta kerfi. En þið eigið eftir að stíga skrefið til fulls og viðurkenna að það þarf að taka á því með róttækari ráðstöfunum. Og það er hægt að gera árið 1996 eftir þeim leiðum sem ég var að lýsa.