Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 16:14:02 (473)

1995-10-19 16:14:02# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála afskaplega mörgum góðum mönnum um þessi mál, bæði ungum sjálfstæðismönnum og öðrum og m.a. hv. síðasta ræðumanni. En framleiðsluaukning í sauðfjárrækt stefnir ekki gegn mínum vilja heldur það gagnstæða. Og ég tek sérstaklega undir það sem að Haukur Halldórsson sagði á nýloknu búnaðarþingi. Hann sagði þar að það væri ekki framleitt of mikið af kindakjöti á Íslandi. En í stað þess að viðhafa umsetningu á þessari vöru þurfum við að hefja sölustarf. Og ég stórefa að við eigum annars staðar meiri möguleika til sóknar í okkar framleiðslugreinum heldur en einmitt þessari framleiðslu. Ég skal rökstyðja það síðar þegar þessi mál verða rædd og ég er sannfærður um það að þar eigum við góða samleið, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson.