Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 18:34:55 (485)

1995-10-19 18:34:55# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBH
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Á seinasta kjörtímabili dró til stórtíðinda að því er varðaði úthafsveiðar Íslendinga og þróun í hafrétti. Með þessum orðum á ég við það að Íslendingar leituðu út fyrir eigin lögsögu og hófu að reyna fyrir sér á ný með úthafsveiðum. Í annan stað er ég að vísa til undirbúnings samnings, bindandi milliríkjasamnings á vegum Sameinuðu þjóðanna varðandi deili- og flökkustofna. Í þriðja lagi vísa ég til þeirra samningaviðræðna sem voru farnar af stað og áttu af okkar hálfu að snúast um heildarlausn á deilumálum varðandi veiðiréttindi og fiskverndarmál á norðanverðu Atlantshafi.

Í ljósi þess að hæstv. utanrrh. segir í ræðu sinni að hann líti á það sem nánast ævistarf sitt að beita sér fyrir íslenskum hagsmunum á sviði sjávarútvegsmála lét ég það í ljós í ræðu minni áðan að mér þótti tiltölulega lítið fjallað um þessi stóru mál í ræðu hans. Ég sakna þess að ekki skuli hafa verið lögð meiri áhersla á að skýra grundvallaratriði þeirrar stefnu sem við viljum fylgja fram í þessum málum þótt ég ætlist að sjálfsögðu ekki til þess að gerð sé grein fyrir viðkvæmum yfirstandandi samningum.

Ég tók líka skýrt og skilmerkilega fram að ég gagnrýndi ekki hæstv. ráðherra fyrir að hafa ekki náð nú þegar niðurstöðu í þessum samningum. Þar er vissulega við ramman reip að draga, þ.e. hagsmunatogstreita við olíuríkið Noreg og stórveldið Rússland. Í annan stað er ástæða til þess fyrir okkur að huga að því hvort tíminn vinnur með okkur í þessum málum eða hvort nauðsynlegt er af hálfu okkar út frá hagsmunamati okkar að leggja höfuðáherslu á það að hraða þessum samningum. En ég legg á það áherslu út frá mínum bæjardyrum séð að ég gagnrýni það ekki þótt þessir samningar séu ekki í höfn.

En ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til þess að vara við einu og vara mjög sterklega við því. Ég vara við því að íslensk stjórnvöld kaupi hugsanlega samninga sem byggi á skammtímalausn og tiltölulega litlum hagsmunum því dýra verði að afsala okkur langtímahagsmunum sem við höfðum tryggt okkur, m.a. með aðild að Svalbarðasamningnum, og varða íslenska þjóðarhagsmuni miklu til lengri tíma. Ég viðurkenni að það setti að mér ugg þegar ég heyrði ummæli hæstv. sjútvrh. og reyndar hæstv. utanrrh. sem túlka mátti á þá leið að þeir teldu einboðið að við ættum að fallast á skilyrði Norðmanna fyrir samningum eins og þeir hafa lýst þeim fyrir þá hugsanlegu samningsniðurstöðu sem kann að vera í boði.

Hver eru þessi skilyrði? Það er kunnugt að meðal þessara skilyrða eru í fyrsta lagi að Íslendingar verða að una fyrirmælum samningsaðila um að taka veiðiheimildir sínar í Smugunni, takmarkaðar sem þær kynnu nú að vera, annaðhvort að hluta eða öllu leyti. Svarið við því er einfaldlega að það er ekki á valdi þessara þjóða að úthluta veiðiheimildum í Smugunni vegna þess að það veiðisvæði er opið úthaf og þeir hafa ekki ráðstöfunarrétt á veiðiheimildum í því.

Í annan stað er skilyrði af hálfu þessara þjóða að Íslendingar falli frá rétti sínum, sem ein af aðildarþjóðum Svalbarðssamningsins. Um það fjallaði ég nokkuð í ræðu minni hér áðan en þar er um að ræða meginhagsmunina að því er varðar framtíðaraðild Íslendinga að veiðum eða annarri nýtingu auðlinda á Barentshafssvæðinu.

Í þriðja lagi hefur sú krafa verið sett fram að Íslendingar skuldbindi sig til þess ef þeir ná ekki rétti sínum á grundvelli Svalbarðasamningsins að falla frá áðurboðaðri málshöfðun að því er það varðar að láta á það reyna fyrir Haag-dómstólnum hver raunveruleg réttarstaða sjálftökusvæðisins norska, þ.e. fiskverndarsvæðisins í kringum Svalbarða, er.

Skilyrðin hafa raunverulega verið nefnd fleiri. Ég nefni ekki fleiri hér en ég endurtek: Ég vara mjög sterklega við því að fallast á þessi skilyrði ef hinn kosturinn er sá að fá til skamms tíma og með óvissum hætti veiðiheimildir sem kynnu að verða langt undir því sem veiðireynsla og fleiri rök okkar standa til. Fremur en gera það vil ég í allri vinsemd beina því til hæstv. utanrrh. að hann hafi mjög í huga í þessum samningaviðræðum að gera tvennt: Í fyrsta lagi að hafa frumkvæði að því að kalla saman sérstaka ráðstefnu aðildarríkja Svalbarðasamningsins. Sú ráðstefna hafi það meginviðfangsefni að fjalla um þjóðréttarlega stöðu fiskverndarsvæðisins, réttindi og skyldur samningsaðildarþjóðanna á grundvelli Svalbarðasamningsins, bæði að því er varðar veiðar innan lögsögu og aðra nýtingu náttúruauðlinda. Þessa kröfu ber auðvitað að styðja þeim rökum að þess eru ekki dæmi að ein einasta aðildarþjóð Svalbarðasamningsins hafi fallist á rök Norðmanna fyrir sjálftökurétti þeirra til norsks fiskverndarsvæðis umhverfis Svalbarða. Þvert á móti. Hver þjóðin á fætur annarri hefur mótmælt formlega sjálftökurétti Norðmanna eða sett fyrirvara um þjóðréttarlega stöðu svæðisins.

Í annan stað ber okkur að sjálfsögðu að áskilja okkur rétt til þess ef samningaviðræður eru með þeim hætti að við teljum okkur ekki ná þeim réttindum sem Svalbarðasamningurinn kveður á um fyrir hönd aðildarþjóða að láta á það reyna fyrir dómstólum ef samningaleiðin reynist ófær.

Þetta er sú stefna sem mótuð var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar þótt ekki hafi verið tímabært þá að láta á það reyna vegna þess einfaldlega að tilraunin til þess að koma á alvörusamningaviðræðum um heildarhagsmuni þessara þjóða á Norður-Atlantshafi var ekki það langt fram komin. Þegar ég tala um heildarhagsmuni er ég að sjálfsögðu ekki að tala bara um veiðar í Smugu. Ég er að tala um Barentshafið í heild, ég er að tala um réttindi samkvæmt Svalbarðasamningnum, ég er að tala um síldarhafið og skiptingu á norsk-íslenska síldarstofninum, ég er að tala um veiðar á úthafinu fyrir utan Reykjaneshrygg og ég er að vísa til rækjuveiða úr stofninum sem er milli Íslands og Grænlands.

Í fyrstu samningaviðræðum okkar við Norðmenn var sú stefna boðuð að við Íslendingar vildum hafa öll þessi mál uppi á borði og freista þess að ná samningum sem væru tilraun til þess að ná fram heildarlausn að því er varðar veiðiheimildir, réttindi og fiskverndarstefnu sem tæki til allra þessara mála. Ég er enn þeirrar skoðunar að það sé rétt stefna í grundvallaratriðum. En til þess að ná því fram verða Íslendingar að áskilja sér þann rétt sinn að geta látið á það reyna, sérstaklega að því er varðar Svalbarðasamninginn, hver er réttarstaða þess svæðis og einnig að áskilja sér rétt til málskots ef samningaleið reynist ófær.

[18:45]

Það er ástæða til þess hér og nú að rifja upp í stuttu máli hvert var upphaf þessarar tilraunar Íslendinga að því er varðar úthafsveiðar. Frumkvæðið kom af hálfu viðskiptaaðila og útgerðaraðila hér heima en af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar var brugðist hart við til þess að veita þeim stuðning á alþjóðlegum vettvangi. Þó ber þess að geta og rifja það upp, af því að það er söguleg staðreynd, að um það bil sem þessar veiðar hófust, þá hafði hæstv. sjútvrh., sem einnig var sjútvrh. í fyrrv. ríkisstjórn, í undirbúningi að setja reglugerð sem hefði svipt íslenska ríkisborgara réttinum til þessara veiða. Það var komið í veg fyrir að það yrði gert með þeim rökum að það styddist ekki við lagastoð vegna þess að íslensk stjórnvöld höfðu ekki þann rétt nema það væri gert á grundvelli laga eða milliríkjasamnings um það, sem ekki var fyrir hendi.

Í samningaviðræðum við Norðmenn verður það að segjast eins og er að af hálfu utanrrn. var haldið fast á þessum hagsmunum og á fyrsta samninganefndarfundinum þar sem voru bæði utanrrh. og sjútvrh. sem og fulltrúar hagsmunaaðila, kom það í hlut utanrrh. að tala þessu máli, en sjútvrh. kaus að sitja hljóður við þær umræður, sem ég harma mjög vegna þess að það var túlkað af hálfu norskra stjórnvalda og af hálfu norskra fjölmiðla sem veikleiki að því er varðar hina íslensku samningsstöðu og vísbending um óeiningu í röðum Íslendinga.

Að því er varðar samninginn um flökkustofna og deilistofna þá er eitt atriði sem skiptir mjög miklu máli til þess að styrkja samningsstöðu okkar. Þessi samningur byggir á hugmyndum um svæðastjórn og vekur þess vegna spurningu um aðgang annarra ríkja en strandríkja að svæðastjórnun og hvaða mælikvarða eigi að leggja því til grundvallar: nálægð við fiskimið, mikilvægi sjávarútvegs í hagkerfi viðkomandi lands. Þar tókst okkur, þrátt fyrir harðvítuga andspyrnu Norðmanna, að ná inn hinu svokallaða íslenska ákvæði, sem kveður á um að taka beri tillit til réttinda og þarfa strandríkja sem byggja efnahag sinn á fiskveiðum eða hafa mikilla hagsmuna að gæta. Það var mikilvægur áfangasigur að ná þessu ákvæði inn.

Það sem á skortir er þetta: Það hefði fyrir löngu átt að vera búið að ná samningum við Grænlendinga um það að koma á svæðisstjórn að því er varðar skipulag á veiðum utan íslensku og grænlensku lögsögunnar á Reykjaneshrygg, ná samkomulagi um kvótabindingu á karfastofnunum þar til þess að styrkja stöðu Íslands og Grænlands annars vegar á þessu svæði og hins vegar að geta notað það í samningum að því er varðar svæðisstjórnina á Barentshafi. Þetta segi ég vegna þess að ég átti frumkvæðið að því í tíð fyrri ríkisstjórnar að við mótmæltum því alveg sérstaklega að tvíhliða nefnd Norðmanna og Rússa yrði viðurkennd innan ramma nýja samningsins sem þessi svæðisstjórn til frambúðar á Barentshafi. Það styrkti þau rök að samkvæmt samningnum ber strandríkjum sem hafa mikla ábyrgð, eiga mikinn rétt, að leita samninga við aðrar þjóðir og aðrar þjóðir eiga skilgreindan rétt jafnvel á aðild að svæðisstjórnum ef þær fullnægja settum skilyrðum. Það var þess vegna mjög mikilvægt að við hefðum gert þetta, að því er varðar Reykjaneshrygginn, strax. Það hefði styrkt samningsstöðu okkar í þeim samningum sem nú standa fyrir dyrum. Ég verð að segja það að ég harma það, það var mjög miður að sjútvrn. íslenska skyldi ekki hafa lagt mikla áherslu á það þá þegar að ná þessum samningum við Grænlendinga í ljósi þess að þessar tvær grannþjóðir hafa þarna mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Það var einnig mjög miður þegar sá atburður gerðist að bandalagsþjóð okkar, Kanada, varð til þess, án samráðs við Íslendinga, að rjúka til ein þjóða og viðurkenna að fullu og öllu og skilyrðislaust einhliða lögsögu Noregs yfir fiskverndarsvæðinu í kringum Svalbarða og gerast þannig fyrsta þjóðin og eina þjóðin sem afsalaði sér rétti sínum samkvæmt Svalbarðasamningnum, til þess að kaupa þannig stuðning Norðmanna varðandi deilur þeirra Kanadamanna við Evrópubandalagið um veiðar utan þeirra eigin lögsögu. Það var ódrengileg aðgerð af þeirra hálfu. Henni var mótmælt af hálfu utanrrh. og af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar. En því miður var það svo að bæði þáv. sjútvrh. og núv., og reyndar hæstv. núv. utanrrh., tóku á þeim tíma að fullkomlega þarflausu eindregna afstöðu með Kanadamönnum í þessu máli og veiktu þannig samningsstöðu okkar Íslendinga að óþörfu.

Þriðja málið sem varðar þessa úthafsveiðistefnu er að sjálfsögðu veiðarnar á Flæmingjahattinum þar sem samtök íslenskra útvegsmanna hafa gagnrýnt sjútvrn. mjög harðlega fyrir að hafa verið óundirbúið og óviðbúið, sent einn embættismann án atbeina annarra á lykilfund þar sem teknar voru örlagaríkar ákvarðanir í því efni. Þetta er mynd af þeim heildarhagsmunum sem við höfum að gæta og það er ástæða til að spyrja: Er það óbreytt stefna núv. ríkisstjórnar að freista þess að ná þessum samningum á heildargrundvelli?

Í annan stað spyr ég: Treystir hæstv. utanrrh. sér til þess að lýsa því yfir að hann muni undir engum kringumstæðum afsala Íslendingum þeim rétti sem Svalbarðasamningurinn kveður á um, bæði til fiskveiðiréttinda og annarrar auðlindanýtingar, og mun hann áskilja sér rétt til þess, ef ekki nást viðunandi samningar af hálfu Norðmanna um að viðurkenna þann rétt okkar samkvæmt samningnum, bæði að leita eftir samstöðu við aðrar samningsþjóðir, sem hafa mótmælt sjálftökurétti Norðmanna eða ekki viðurkennt hann með því að efna til formlegrar ráðstefnu um það mál, eða áskilja sér rétt að halda því til streitu að láta á þetta reyna fyrir dómstólum ef samningaleiðinni er lokað af Norðmanna hálfu? Þetta eru að mínu mati þýðingarmestu og stærstu þættirnir í þessu máli.

Það er ástæða til þess að minna á það að Smuguveiðarnar hafa á tveimur árum fært okkur björg í bú sem svarar rúmlega 6 milljörðum kr. Þær hafa aukið verðmæti íslensks útflutnings, eru stór þáttur af þeim hagvexti sem þó varð eftir langt samdráttarskeið, grundvöllur fyrir aukinni atvinnu, auknu vinnsluvirði o.s.frv. Það eru ekki litlir hagsmunir út af fyrir sig. Samt sem áður er það svo að ef við berum saman annars vegar þau tilboð sem nefnd hafa verið um veiðar í Smugunni í samanburði við þá heildarhagsmuni sem ég var hér að lýsa, þá er niðurstaða mín alveg tvímælalaust sú að það sé grundvallaratriði að ef tiltölulega lítið er í boði eða til skamms tíma þá ber að líta fyrst og fremst á þá heildarhagsmuni sem við höfum að verja og þau réttindi sem við höfum tryggt okkur með aðild að Svalbarðasamningnum og úthafssamningi S.þ. Við megum ekki láta það henda okkur aftur, vegna þess að það hefur gerst áður, þegar við mætum útþenslustefnu Norðmanna á Norður-Atlantshafi, að láta skammtímahagsmuni verða til þess að við viðurkennum varanlega hagsmuni þeirra, sem þeir hafa tekið sér sjálfir án stoðar í þjóðarrétti, sem þeir hafa gert með fiskverndarsvæðinu í kringum Svalbarða og sem þeir gerðu þegar þeir köstuðu eign sinni á Jan Mayen, sem við höfum viðurkennt, þurftum ekki að viðurkenna, áttum ekki að viðurkenna, en gerðum í samningum vegna þess að við vorum óundirbúnir, höfðum ekki heildarsýn og skammtímahagsmunir voru látnir ráða.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Það væri vissulega ærið tilefni til að ræða nánar við hæstv. utanrrh. um Evrópustefnu núv. ríkisstjórnar. Það verður hins vegar að bíta í það súra epli að tíminn til þess í þessari umræðu er einfaldlega ekki fyrir hendi, enda má segja að það sem kemur fram í skýrslu ráðherrans gefi ekkert tilefni til mikilla umræðna út af fyrir sig vegna þess að þar er einfaldlega lýst biðstöðu, ekki stefnu.