Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 18:55:08 (486)

1995-10-19 18:55:08# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma að og ekki vannst tími til í fyrri ræðu minni við þessa umræðu nú þegar við ræðum í upphafi þings um utanríkismálin.

Ég vil fyrst nefna að það er afar eðlilegt að mál sem varða fiskveiðiréttindi og varða norðurslóðir séu fyrirferðarmikil hér við þessa umræðu. Því veldur bæði hagsmunir okkar á þessu sviði og það sem er að gerast og hefur verið að gerast í samskiptum okkar við grannþjóðir á Norður-Atlantshafi. Ég get tekið undir ýmis þau varnaðarorð sem hafa fallið í þessari vandasömu stöðu sem við stöndum í gagnvart nágrönnum okkar í þeim samningaviðræðum sem fram hafa farið eða samningaþreifingum sem fram hafa farið um nokkurt skeið til að leita lausna á þeirri leiðu og viðkvæmu deilu sem við höfum átt í, sérstaklega við Norðmenn.

Ég held að það sé full ástæða til að reyna að horfa langt fram á veginn þegar verið er að meta það hvernig eigi að standa að hugsanlegum samningum og lausn þessara deilna. Við höfum þar vissulega víti til að varast, eins og hv. þm. Jón Hannibalsson kom að hér í sínu máli, að því er varðar þau skref sem stigin voru gagnvart Jan Mayen á sínum tíma og einnig varðandi Jan Mayen-samkomulagið á sínum tíma, að því er varðar fiskveiðiréttindi m.a., sem og að því er varðar Svalbarðann. Vegna þess að hv. þm. kom í sínu máli að útþenslustefnu Norðmanna, sem hann mat að væri yfirveguð og markviss og hefði verið um langt skeið, þá fannst mér hann gleyma einu atriði sem ég vil nefna, þar sem er samningurinn frá 1920 í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem færði Norðmönnum í rauninni fótfestuna (JBH: Ég ræddi það fyrr í ræðu minni.) eftir fyrra stríðið. Ég tók einmitt ekki eftir því í fyrri ræðu hv. þm. að hann hefði komið sérstaklega að þessu. En á grundvelli þess eru síðan sett lög í Noregi 1925 þar sem Svalbarði er lýstur hluti norska ríkisins samkvæmt þeirri löggjöf. Mér finnst að fyrrv. ríkisstjórn, þó að hún hafi stigið það eðlilega skref að sækja um að Ísland gerðist aðili að Svalbarðasamningnum, þá hafi menn ekki þar um neitt að hælast vegna þess að hæstv. fyrrv. utanrrh., nú þingmaður, Jón Hannibalsson, kom fyrst auga á þetta mál eftir að ýtt hafði verið við stjórnvöldum af útgerðaraðilum sem hófu veiðar í ágústmánuði 1993, ef ég man rétt, í Smugunni. Það er fyrst í framhaldi af því sem íslensk stjórnvöld fara að átta sig á þeirri staðreynd að Ísland var eitt Norðurlanda ekki aðili að Svalbarðasamningnum.

Ég vissi þetta ekki fyrr en seint í júnímánuði þetta sumar þegar ég fór í fyrsta sinn og reyndar eina, til Svalbarða og komst að þessu. Ég hafði þá ætlað mér að taka málið upp strax og þing kæmi saman, en það gerðust þeir atburðir þá um sumarið sem leiddu til þess að málið var sett á dagskrá og við í framhaldi af því stigum það eðlilega skref að tryggja okkur þau réttindi sem aðild að Svalbarðasamningnum setur okkur.

Ég held að það sé eitt atriði í þessum samningaþreifingum sem þarf að horfa alveg sérstaklega á og það er sú stóra spurning hvort menn eigi að fara að opna með einhverjum hætti meira heldur en gerst hefur fyrir veiðar útlendinga innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ég held að reynslan ætti í raun að sýna okkur að það skiptir gífurlega miklu máli að við höldum þar réttinum sem fyllstum í okkar eigin höndum. Það gildir að sjálfsögðu allt annað um flökkustofna, stofna sem fara á milli auðlindalögsögu ríkja, heldur en þá stofna sem við búum einir að og nýtum í okkar eigin lögsögu. Og ég held að menn þurfi að horfa vel á málin áður en þeir fara að gera þá stofna að einhvers konar skiptimynt í sambandi við að skipta á veiðiheimildum milli ríkja.

[19:00]

Einn vandinn sem þessu tengist, virðulegur forseti, er hversu erfitt það er að færa til baka réttindi sem menn hafa náð og að bregðast nógu skjótt við ef sýnilega er hætta á ferðinni vegna ofveiði. Þá er það býsna flókið ef menn eru njörvaðir í alþjóðlegt samstarf að grípa með skjótum hætti til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar kunna að vera. Í rauninni er staðan varðandi sjávarauðlindirnar mjög víða, og einnig á norðurslóðum, með þeim hætti að menn þurfa að gæta sín við hvert fótmál. Hinn of stóri floti sem er víðast hvar, veiðigetan langt umfram það sem hægt er að hleypa hömlulaust fram og sú mikla fjárfesting sem er þar að baki, skapar gífurlegan þrýsting á að nýta auðlindina og menn eru ekki varúðarmegin í þessum efnum. Ef litið er á myndina yfir heiminn þá blasir við að menn eru á brún hengiflugs í þessum efnum. Þrátt fyrir margfalda fjárfestingu í veiðiflota og tilkostnaði við veiðar þá er frekar að heimsaflinn sé að dragast saman heldur en hitt. Við hér á norðurslóðum búum við afar viðkvæmt samhengi í þessum efnum, miklar sveiflur sem tengjast veðurfari og ytri aðstæðum og þurfum að sjálfsögðu, þar sem um sjálfa undirstöðu okkar Íslendinga efnahagslega er að ræða, að gæta okkar alveg sérstaklega vel.

Virðulegur forseti. Hér hefur borið á góma hernaðarbandalagið NATO og menn eru að lýsa undrun yfir því að Alþb. skuli halda við sína stefnu í þeim málum. Stefnu sem það hefur fylgt frá því að þetta hernaðarbandalag var stofnað. Ja, það er nú einkennilegt, virðulegur forseti, ef það eru tíðindi að við skulum andmæla því að vera flæktir í slíkt hernaðarbandalag, að menn skuli undrast það að við andæfum gegn því þegar óvinur þessa bandalags er týndur. Þegar óvinur þessa hernaðarbandalags er týndur og hefur ekki fundist enn, nema það er verið að reyna að vekja hann upp með einum og öðrum hætti með því að vísa á Rússa, ótryggt ástand þar sem og víðar og þá þurfa menn að hafa í höndunum þetta tæki, þetta gamla hernaðarbandalag. En hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, sem talaði hér við umræðuna, vék einmitt að þeirri kreppu sem hernaðarbandalagið NATO er í við þessar aðstæður þegar óvinurinn er týndur. Það eru fleiri og fleiri ríki að óska eftir því að skríða undir pilsfaldinn, þar á meðal undir ógnarhótunina sem NATO heldur samkvæmt sínum samþykktum, að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Það eru fleiri, fleiri ríki og hvernig á að flokka þau?

Þörfin á því að taka öryggismál Evrópu öðrum tökum en að fara eftir gamla kaldastríðssporinu með því að viðhalda hernaðarbandalaginu NATO hefur aldrei verið brýnni. Hættan á því að í Evrópu komi á ný upp tjald, nýtt járntjald á milli ríkja, þar sem Rússland, á því breytingaskeiði sem það býr við, óttast um að vera króað af, að vera króað af, og lýsir ugg sínum vegna hættunnar af einangrun, hættunnar af því að verið sé að byggja upp og draga nágrannaríkin inn í þetta hernaðarbandalag. Ég held að menn ættu aðeins að setja sig inn í þessar aðstæður áður en þeir halda áfram hyllingarsöngnum um hernaðarbandalagið NATO og þá stefnu að draga þar fleiri og fleiri nágrannaríki til austurs inn í það, án þess að vilja ljá máls á því að hleypa Rússunum inn, jafnvel þótt þeir mundu óska. Án þess að ljá máls á því.

Það liggur í rauninni fyrir, a.m.k. heyrist það frá mjög mörgum aðilum, að það komi ekki til greina af hálfu Atlantshafsbandalagsins að taka Eystrasaltsríkin í reynd inn fyrir. Þau bíða. Óskirnar eru þar. En það er mikið hik á því. Og þetta atriði, sem ég ætla ekki að ræða frekar, sýnir þann vanda sem þarna er við að fást, að ætla að skipta Evrópu upp með þessum hætti á nýjan leik. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr um afstöðu Alþb. Ég vænti þess að hann þekki okkar afstöðu. Hann þekkir hana frá því að hann stóð dyggan vörð um okkar afstöðu. Það er ekki langt síðan. Og ég vona að við fáum liðsinni frá hv. þm. þegar farið verður að ræða við hann af nýjum formanni Alþb. um samstarf, fái ötulan stuðning við þetta baráttumál Alþb., sem var ítrekað á nýafstöðnum landsfundi.

Virðulegur forseti. Mannréttindamál eru sem betur fer ofarlega á dagskrá í alþjóðlegri umræðu. Þar er það hins vegar svo að þar gætir mikilla þversagna í meðferð þeirra mála og umræðunni um þau efni. Ég vil leyfa mér hér, virðulegur forseti, að koma að kannski einni stærstu þverstæðunni eins og hún blasir við í umræðunni hér á Íslandi. Það er afstaðan til mannréttindamála í þriðja heiminum, sem við köllum svo og þá alveg sérstaklega í Kína. Við Íslendingar viljum gjarnan taka stórt upp í okkur þegar mannréttindamál eru annars vegar og það er auðvitað rétt og skylt af okkur sem smáþjóð að styðja við þau gildi sem varða almenn mannréttindi með ráðum og dáð. En það vill hins vegar bera við að þegar spurningin er um það að láta eitthvað á þetta reyna þá eru það aðrir hagsmunir sem koma inn í þá mynd. Þar er skemmst að minnast þess sem gerst hefur í samskiptunum við Kína undanfarin ár. Það er alveg ljóst að það er óvíða í veröldinni og ég tala nú ekki um miðað við fólksfjölda, þar sem almenn mannréttindi eru jafngróflega fótum troðin á þann mælikvarða sem við Vesturlandabúar almennt leggjum á það, eins og í Kína þar sem býr um fjórðungur mannkyns. Þrátt fyrir þetta hafa menn lagt á það ofurkapp, af hálfu opinberra aðila á Íslandi, að treysta böndin við Kína, þannig að það er ekkert land sem notið hefur slíkrar athygli og ástríðufullra samskipta af hálfu íslenskra stjórnvalda á undanförnum missirum heldur en einmitt samskipti við Kína. Ég held að þetta sé orðið þannig að það er orðið beinlínis vandræðalegt fyrir móttökuaðilann að taka við hverri sendinefndinni á fætur annarri frá þessu fámenna ríki Íslandi, sem er alltaf að banka upp á.

Þetta byrjaði, virðulegur forseti, með hæstv. fyrrv. utanrrh., Jóni Hannibalssyni, sem ég held að hafi riðið á vaðið af opinberum aðilum. Hann stofnaði með skjótum hætti til sendiráðs í Peking og heimsótti auðvitað Kína sjálfur af því tilefni og fékk hinar bestu viðtökur, að ég held. Síðan hefur hvert stórveldið á fætur öðru, forsrh. landsins, forseti Íslands, utanrrh. landsins, verið þar í opinberum heimsóknum, og það verður ekki séð að það gangi hnífurinn á milli. Fyrir utan einstaka þingmenn. Ég minni á hv. þm. Árna Johnsen, sem flutti slíkan dýrðaróð hér í þingmáli, skjalfestu, um alla dýrðina austur þar. Eina sem hann gleymdi að nefna var að öll þessi dýrð í efnahagslegu tilliti var undir alsjáandi auga Flokksins, með stórum staf.

Ég er að nefna þetta hér, virðulegur forseti, af þeim sökum að mér finnst að menn þurfi að gæta ákveðinnar samkvæmni í orðum og athöfnum og mér finnst að menn hafi farið rækilega yfir strikið í þessum efnum. Ég er ekki að blanda þessu saman við Ráðstefnuna um málefni kvenna í Peking. Það er að sjálfsögðu allt annað mál, kemur þessu ekkert við og ekkert óeðlilegt við að hún væri haldin og nánast vandræðalegt hvernig einstakir fulltrúar þar voru að tala um að þeir yrðu einmitt í leiðinni að koma á framfæri einhverjum sérstökum mótmælum. Það er bara allt annað mál heldur en samskipti lýðveldisins Íslands við Alþýðulýðveldið Kína, eins og ég held að það sé enn þá kallað.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegur forseti.