Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:35:36 (494)

1995-10-19 19:35:36# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikilvægt að hæstv. utanrrh. skuli opna hug sinn með þeim hætti sem hann gerir hér sem utanrrh. Það er mjög mikilvægt fyrir þjóðina að átta sig á því að hann er alveg opinn fyrir því að að þeim skilyrðum fullnægðum sem hann var að mæla hér fyrir væri komin upp alveg ný staða. Ég vil aðeins ítreka það sem kom fram í ræðu minni fyrr í dag, að ég tel að breytingar á fiskveiðistefnunni, að því marki sem hæstv. ráðherra lét liggja að, sem þyrftu að verða, skipta að mínu mati litlu og engu í raun um það að við eigum ekki að stíga skrefið, ekki að hugsa til þess, að stíga skrefið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það eru allt aðrir þættir sem vega þungt í þessu máli og skipta sköpum fyrir framtíð íslenskrar þjóðar.

Ég minnist þess hins vegar, virðulegur forseti, að hæstv. fyrrv. utanrrh., sem ég leyfi mér að titla hæstv., en í dag hv. þm., er hér meðal vor, Jón Hannibalsson (Gripið fram í: Jón Baldvin.) enn þá, já, enn þá. Jón Hannibalsson er hér enn þá. Ég nefni hið upprunalega og rétta nafn mannsins og fer ekkert dult með það, virðulegur forseti. En hann mælti hérna í viðtalsþætti fyrir kosningar á síðasta kjörtímabili að það kynni að vera skemmra á milli Framsfl. og Alþfl. heldur en margur hyggur og mér sýnist satt að segja að hv. þm. hafi fengið nokkurn stuðning við það sjónarmið hér í þessari umræðu.