Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:44:32 (498)

1995-10-19 19:44:32# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. vill taka mig í kennslustund í utanríkismálum og það er ekkert nema gott um það. Ég les nú einstaka sinnum Alþýðublaðið og hef fyrir því og hef ekkert nema gott um það að segja sem hann er að skrifa og sýnir málum áhuga. En hann verður að eiga það við sjálfan sig ef hann vill helst reyna að gera lítið úr því sem aðrir segja og er ekkert við því að gera. Það er nú svo, hvort sem um er að ræða málefni í Írak eða málefni Kúrda, að við Íslendingar vinnum að þessum málum í félagi annarra þjóða. Við vinnum að þeim með samstarfsþjóðum okkar innan NATO og Norðurlandanna og þessi mál koma oft til umræðu og við Norðurlöndin höfum haldið hópinn í þessum málum og það er ekkert nýtt og ég sé enga ástæðu til þess að breyta þeirri stefnu. Þessi stefna var líka með þessum hætti í tíð fyrrv. utanrrh. Ég ætla ekki að fara að halda því fram að Íslendingar geti verið þeir frelsarar í þessum efnum, þótt fegnir vildu, að við fáum einir og sér snúið þessum málum við. Við verðum að sjálfsögðu að beita áhrifum okkar í samvinnu við þessar þjóðir og breyta um afstöðu í samvinnu við þær. Ég tel mig hafa alveg jafnmikinn skilning á þörfum þessa fólks. Þessi mál hafa verið rædd mjög ítarlega meðal þessara þjóða og þar er fylgst náið með en ég vil hins vegar taka það fram að málefni Íraks eru fyrst og fremst í höndum öryggisráðsins. Það er öryggisráðið sem endurskoðar stefnuna og viðskiptabannið, að ég held á tveggja mánaða fresti. Og við fylgjumst með því og beitum áhrifum okkar í samvinnu við bandalagsþjóðir okkar.