Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:49:10 (500)

1995-10-19 19:49:10# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú svo að heimsmálin eru nokkuð flókin. Og þótt þau kunni að vera einföld í augum ritstjóra Alþýðublaðsins þá er það ekki svo. Ég get lýst því yfir að ég tel ekki tímabært að aflétta viðskiptabanni á Írak af ýmsum ástæðum. Ég tel það ekki tímabært. (Gripið fram í.) Ég held að það hafi mátt skiljast af mínum orðum. Ég tel það ekki þjóna þeim hagsmunum sem við erum að berjast fyrir. Ég hef því miður ekki patentlausnir á málefnum Kúrda þó ég styðji þeirra málstað. Ég heyri það að sumir hér inni vildu ganga svo langt að Ísland segi sig úr NATO vegna þess að Tyrkir hafa ekki ávallt komið vel fram við Kúrda og yfirleitt hafi þeir komið illa fram við þá. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það þjóni málstaðnum að koma þannig fram. Ég teldi það afar mikilvægt að því er varðar málefni Kúrda að koma Saddam Hussein frá. (HJök: Ætlar þú að gera það?) Ég heyri það að ritstjóri Alþýðublaðsins telur sig geta það ef hann komist í stól utanríkisráðherra. (ÖS: Hann hefur trú á þér.) Hann hefur trú á mér, já. Það má vera. En það er eins með málefni Júgóslavíu. Þau eru afar flókin og engin patentlausn í því máli. En við Íslendingar höfum þó stutt aðgerðir NATO því sambandi og fylgt þeim að málum og haft þar viss áhrif þó að það skuli viðurkennt að við höfum ekki alltaf þar afgerandi áhrif. En við höfum gert það. Það hefur ekki verið einróma stuðningur við það hér á landi. En ég er hins vegar sannfærður um það að afskipti NATO af málefnum Júgóslavíu er eina leiðin til að leiða það mál til farsælla lykta.