Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:15:21 (507)

1995-10-30 16:15:21# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:15]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á sem talsmaður hv. heilbr.- og trn. hefur orðið samkomulag í nefndinni hvað varðar málsmeðferð þessa frv. Eins og hann gat réttilega um eru nefndarmenn í hv. heilbr.- og trn. sammála um að sá frestur, sem hér er gerð tillaga um, verði ekki nýttur til þess að gera efnislegar breytingar á þeim lagatexta sem fyrir liggur og átti að taka gildi á miðvikudaginn, ekki á morgun heldur hinn, heldur eingöngu að þarna yrði gefinn aukinn umþóttunartími fyrir þá hagsmunaaðila sem hlut eiga að máli. Þetta er auðvitað býsna mikilvægt í þessu máli öllu saman, virðulegi forseti, en auðvitað verður ekki komist hjá því að gera mjög alvarlegar athugasemdir við það í hinu háa Alþingi með hvaða hætti er staðið að verki. Ég árétta að við erum að ræða um tvo kafla lyfjalaga, VII. og XIV. kafla, sem að óbreyttu ættu að taka gildi að morgni hins 1. nóv. nk., að morgni miðvikudags. Síðdegis á mánudegi, 30. okt., fjallar hv. Alþingi um málið í 2. umr. og tekur það væntanlega til 3. umr. síðar í dag og það mun síðan verða verkefni forseta Íslands að gefa út þessi lög á morgun, innan við sólarhring áður en þessir tveir tilgreindu kaflar áttu að hafa lagagildi og allir þeir aðilar sem um ræðir áttu að undirgangast þessa nýju lagasetningu.

Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem er óhjákvæmilegt annað en gera mjög alvarlegar athugasemdir við og ég vil ekki standa svona að verki. Þess vegna mun ég greiða atkvæði gegn þessu frv. og það geri ég í fyrsta lagi vegna þess sem ég gat um hér áðan og í öðru lagi vegna þess að ég er efnislega ósammála því að menn ætli að lengja frestinn enn frekar.

Eins og kom fram við 1. umr. tel ég nauðsynlegt að rifja upp hvernig það bar til á sínum tíma að þessir tveir tilgreindu kaflar, VII. og XIV. kafli gildandi lyfjalaga, fengu gildistíma síðar en aðrir þættir þáverandi frv. Það var vegna þess að gert var samkomulag milli þáverandi ríkisstjórnarflokka og þáverandi stjórnarandstöðu að standa þannig að verki. Með nýrri ríkisstjórn er hins vegar gengið á svig við það samkomulag og hæstv. heilbrrh. lagði málið fram og væntanlega með fulltingi núverandi stjórnarflokka.

Við 1. umr. um frv. kom fram að ekki voru allir hv. stjórnarþingmenn jafnángæðir með þetta vinnulag og einn þeirra, hv. þm. Árni M. Mathiesen, gerði athugasemdir við það og taldi þetta óráð. Ég segi því að það er nauðsynlegt, ekki síst í ljósi þess að hæstv. heilbrrh. er ekki viðstaddur umræðuna --- mér er hins vegar kunnugt um að lögmæt forföll hamla því að hún geti verið með okkur í dag --- en ég tel hins vegar nauðsynlegt að formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., geri það alveg skýrt við umræðuna hér og nú, hvort hann er því sammála sem kemur fram í þessu nefndaráliti að fjögurra mánaða fresturinn verði ekki nýttur til þess að gera endaskipti á efnisatriðum þessara tilgreindu kafla heldur sé eingöngu um að ræða að þeim verði frestað óbreyttum fram til 1. mars nk. Það er algerlega nauðsynlegt að hv. þingheimur fái um það skýr svör hvort flokkur hæstv. heilbrrh. er þessu sammála. Ég tek hins vegar eftir því og vek á því sérstaka athygli að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er fulltrúi Framsfl. í heilbr.- og trn. og skrifar undir þetta nefndarálit þar sem tekið er skýrt fram að ekki er gert ráð fyrir því að gera á þessum köflum efnisbreytingar á þeim fresti sem um ræðir. Hins vegar tel ég óhjákvæmilegt að fulltrúi framkvæmdarvaldsins --- í fjarveru hæstv. heilbrrh. liggur það nær formanni flokksins, hæstv. utanrrh., --- skýri mjög vel í þessum umræðum hvað um er að ræða og hver skilningur flokks hæstv. heilbrrh. er í þessum efnum.

Eins og ég gat um hef ég ástæðu til þess að hafa efasemdir um að þetta samkomulag haldi frekar en hið fyrra. Ég minni enn og aftur á að þegar lögin voru samþykkt á vordögum 1994 var það í samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu að þessi frestur var gefinn til miðvikudags. Nú er enn og aftur verið að breyta frestinum. Má vænta þess að það samkomulag haldi eða er eitthvað annað í pípunum? Ég hef mínar efasemdir. Ég sé engin efni til þess að standa að frestuninni eins og gerð er tillaga um. Ég mun hins vegar virða það samkomulag milli þingflokka að teygja ekki á umræðunni en efnisleg afstaða mín er fullkomlega óbreytt og því mun ég greiða atkvæði gegn þessu frv.