Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:26:09 (512)

1995-10-30 16:26:09# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:26]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sama hátt og ég lýsti ánægju minni rétt áðan hlýt ég að lýsa vonbrigðum mínum núna því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir svarar því til að ekki sé um það að ræða að gera breytingar frá þeirri meginstefnu sem er að finna í frv. Hins vegar hafi menn verið að ræða það, til að mynda að tengja saman fjárhagslega og faglega ábyrgð á rekstri lyfjabúða. Hvað þýðir það í raun? Það þýðir m.a. að hugmyndir eru uppi um að loka á rekstur lyfjaverslunar til að mynda í stórmörkuðum. Það er verið að setja ákveðnar skorður við því. Hérna er um stórmál að ræða. Ég vil fá þetta mál miklu skýrar og kalla eftir viðbrögðum hv. þm. Guðna Ágústssonar. Er skilningur hans sá hinn sami? Erum við í eltingarleik með orð eða eru menn í raun að tala um að gera ekki breytingar heldur eingöngu að fresta þessu og taka þetta óbreytt upp 15. mars eða eigum við von á því í desembermánuði eða janúarmánuði að nýtt frv. komi frá hæstv. heilbrrh.? Það verður að liggja fyrir skýrt og klárt hvað er átt við með þessu og á orðum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur var ekki annað að skilja en að menn ætluðu eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson biður hér um að fara í gegnum þetta frv. efnislega frá a til ö og hugsanlega gera á því breytingar. En það verður að liggja algerlega kýrskýrt fyrir hvað átt er við. Það hlýtur að vera eðlileg krafa og ég bið hv. formann heilbrn. að gera þingheimi ljóst hvernig umræður fóru fram í þessa veru. Hvað þýðir að ekki verði gerðar breytingar á meginstefnu? Þýðir það að það megi róta í þessu fram og til baka eða hvað er við átt?

Hvað varðar samkomulag á milli þingflokka fjallar auðvitað það samkomulag um það eitt að bregða ekki fæti fyrir gang málsins, það að Alþfl. hafi hlaupið frá efnislegri afstöðu sinni til málsins er auðvitað fjarri öllu lagi. Ég veit ekki og hef ekki kannað það gaumgæfilega hvernig hver einstakur þingmaður Alþfl. mun greiða atkvæði. En hér er eingöngu um það samkomulag að ræða að bregða ekki fæti fyrir framgang málsins. Hvað varðar efnislega afstöðu til einstakra þátta þess gegnir auðvitað allt öðru máli.