Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:30:51 (514)

1995-10-30 16:30:51# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:30]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Skjótt skipast veður í lofti í umræðunni á hv. Alþingi. Fyrir tæpum mánuði síðan var það prófsteinn á afstöðu mína til frjálsrar verslunar hvort ég samþykkti að gildistöku lyfjafrv. yrði frestað um átta mánuði. Þetta kom fram í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, hv. form. heilbrn. Nú hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson hins vegar náð samkomulagi í nefnd sinni um að fresta skuli gildistöku tveggja kafla lyfjalaganna um fjóran og hálfan mánuð, til 15. mars.

Ég ætla ekki að hafa svo stór orð að þessi málalok séu dæmi um afstöðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til frjálsrar verslunar. Ég þykist vita að afstaða hans sé óbreytt og að afstaða hans í þessu máli mótist af því að hann vilji með þessu tryggja að lyfjalögin muni ná fram að ganga óbreytt. Það er hins vegar gaman að velta því fyrir sér að 15. mars er frægur dagur í mannkynssögunni og ef mér skeikar ekki minni þá er það dagur sá er Júlíus Sesar var myrtur. Hvort það hefur eitthvert forspárgildi um framgang þessa máls veit ég ekki en við getum velt því fyrir okkur þegar við höfum gengið frá atkvæðagreiðslunni.

Ég hef hins vegar gert athugasemdir við vinnubrögðin í málinu og þær athugasemdir standa. Ég tel að hæstv. núv. heilbrrh. og reyndar líka hæstv. fyrrv. heilbrrh. beri báðir ábyrgð á því að ekki liggja fyrir reglugerðir til að hægt sé að byrja að starfa eftir þessum lögum 1. nóv. eins og til stóð.

Þar sem þetta samkomulag hefur náðst og mér finnst það skipta mestu máli að lyfjalögin nái fram að ganga að fullu mun ég styðja samkomulagið sem hæstv. formaður heilbrn. hefur náð. En ég geri það í þeirri fullvissu að hæstv. ráðherra muni ekki leggja til breytingar á meginstefnu frv. fram að því að þau nái fram að ganga og að þær reglugerðir, sem settar verða, verði í anda laganna. Það verði ekki reynt að sniðganga anda laganna á einn eða neinn hátt og það verði ekki farið að beita mannfjöldatakmörkunum eða einhverjum vegalengdakvarða þegar ákveðið verður hvar megi setja lyfjabúðir niður. Ég greiði jafnframt atkvæði með þessari málamiðlun í þeirri trú að ekki verði hróflað við þeim þáttum er snerta fjárhagslega og faglega ábyrgð á rekstri apótekanna þannig að ekki verði reynt að hindra á þann hátt að apótek geti verið rekin á þeim stöðum þar sem það er heppilegast og aðgengilegast fyrir almenning að nálgast þau lyf sem hann þarf á að halda.

Ég fagna því hins vegar að það hefur náðst um þetta samkomulag og treysti því að það muni standa af allra hálfu.