Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:37:16 (518)

1995-10-30 16:37:16# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:37]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins að upplýsa hv. þm. Árna M. Mathiesen um að það hefur komið fram að þær reglugerðir sem ósettar eru og hvíla á grunni umræddra lyfjalaga varða alla aðra kafla í lyfjalögunum en þá sem fresta á. Þannig að það að þær reglugerðir skuli ekki vera fram komnar eru engin rök fyrir frestun þeirra tveggja kafla sem hæstv. ráðherra gerir tillögu um frestun á.

Það er hins vegar ekki meginatriði í mínum augum heldur hitt að ég tel að nú sé heilbr.- og trn. búin að taka þá ákvörðun að lögin verði framkvæmd eins og síðasta ríkisstjórn gekk frá þeim. Ég þakka þeim nefndarmönnum Sjálfstfl. sem hafa tekið af öll tvímæli um það. Lögin verða framkvæmd eins og síðasta ríkisstjórn gekk frá þeim, það er mergurinn málsins, það er alveg kýrskýrt. Hvað er þá það eina sem stendur eftir? Það eina sem stendur eftir er bara sauðþráinn. Það er bara sauðþráinn að vilja fá fram frestinn frestsins vegna án þess að hafa nokkur önnur rök fyrir því en þráann þegar ljóst er að engar breytingar verða gerðar.

Það er ekkert óvenjulegt, virðulegi forseti, að Framsfl. haldi sig mjög fast við sauðþráann. Ég hef svo sem engar athugasemdir að gera við það að leyfa ráðherra að fá svolítinn frest ef það kynni að vera að hún bjargaði andlitinu með því. Ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessari málamiðlun, mér dettur það ekki í hug, því það er klappað og klárt að lögin verða framkvæmd eins og fyrrv. ríkisstjórn gekk frá þeim. Undir það verður heilbrrh. að beygja sig þrátt fyrir sauðþráann.