Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:41:46 (522)

1995-10-30 16:41:46# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:41]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það þurfi ekki að útskýra það fyrir hv. þingheimi að verið er að fresta þessum tilteknu köflum laganna en ekki að breyta þeim. Um það hefur umræðan einmitt snúist að það er verið að fresta þeim og það eigi ekki að breyta þeim og samkomulagið gengur út á það að ekki eigi að breyta þeim og það eigi að fara að anda laganna. Andi þessara laga hvað varðar fjarlægðartakmarkanir og mannfjöldann snýr að dreifbýlinu, hann snýr ekki að þéttbýlinu, það höfum við einmitt verið að taka fram í umræðunni, hv. þm. Sjálfstfl. og reyndar hv. þm. Alþfl. líka. Ég ætla rétt að vona að ég hafi skilið það rétt að hæstv. heilbrrh. meini það þegar hann segir í blaðaviðtali að það eigi ekki að gera neinar grundvallarbreytingar á þessum lagabálki þangað til hann tekur gildi. Það er einmitt það sem þetta snýst um og þess vegna skil ég ekki að hv. þm. Siv Friðleifsdóttur finnist umræðan vera eitthvað skrýtin, ég næ því bara alls ekki.