Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:43:11 (523)

1995-10-30 16:43:11# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:43]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Virðulegi forseti. Þar sem ég var fjarverandi við afgreiðslu málsins í heilbr.- og trn. vil ég lýsa því yfir að ég er samþykk því nefndaráliti sem hér liggur fyrir og þeirri breytingu sem þar er kynnt. Ég tel að hún sé til bóta.

Mér finnst samt nauðsynlegt að rifja lítillega upp forsögu málsins og minna á að sl. vor var búið að ná um það samkomulagi í þinginu að afgreiða málið með þeim hætti sem það var síðan lagt fram nú í haust. En ég ítreka að mér finnst sú breyting sem hér er lögð til vera til bóta.

Ég vil líka rifja upp hver voru meginmarkmiðin með setningu lyfjalaganna 1994. Þau voru að stuðla að auknu frelsi í lyfsölu, betri lyfjadreifingu og meiri samkeppni sem gæti leitt til lækkunar á lyfjaverði. Þetta finnst mér nauðsynlegt að skerpa og ég a.m.k. get sagt það fyrir mig að mér finnst þessi meginmarkmið vera mjög mikilvæg. Í ljósi umræðna sem hafa farið fram varðandi 20. gr. lyfjalaganna, sem fjallar m.a. um að stuðst skuli við íbúafjölda að baki lyfjabúða og fjarlægð frá næstu lyfjabúð, vil ég, til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni, beina spurningu til hæstv. heilbr.- og trmrh.: Eru einhver áform um að setja reglur um íbúafjölda að baki lyfjabúðar og fjarlægð milli lyfjabúða hér á höfuðborgarsvæðinu? Það er skilningur minn og annarra nefndarmanna sem voru í heilbr.- og trn. þegar lyfjalögin voru samþykkt að það hafi ekki verið ætlunin heldur hafi fyrst og fremst verið ætlunin að þetta sneri að landsbyggðinni.