Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:59:42 (527)

1995-10-30 16:59:42# 120. lþ. 19.2 fundur 120. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (greiðslumark sauðfjárafurða) frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:59]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Flm. eru landbúnaðarnefndarmenn og samkomulag um málið liggur fyrir í nefndinni.

1. gr. hljóðar svo: Í stað ,,1. nóvember 1995`` í A-lið ákvæðis til bráðabirgða með lögunum, sbr. 2. gr. laga nr. 99/1995 kemur: 1. desember 1995.

2. gr. hljóðar svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í grg. segir, með leyfi forseta: ,,Með frv. þessu er lagt til að heimild landbrh. til að fresta ákvörðun um heildargreiðslumark sauðfjárafurða fyrir verðlagsárið 1996--97 verði framlengd til 1. des. 1995, en samkvæmt lögum nr. 99/1995, sem samþykkt voru á vorþinginu, náði þessi frestunarheimild til 1. nóv. Samkomulag hefur orðið í landbúnaðarnefnd um að flytja frv. að höfðu samráði við ráðherra. Frestunin er talin óhjákvæmileg þar sem enn hefur ekki verið afgreitt frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum, 96. mál (þskj. 100). Það frv. var lagt fram í því skyni að lögfesta nauðsynlegar breytingar vegna ákvæða í samningi um sauðfjárframleiðslu milli landbrh., fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Bændasamtaka Íslands frá 1. okt. sl. og er það nú til umræðu í landbúnaðarnefnd.``

Ég vil segja hér, hæstv. forseti, að síðasta vetur höfðu Bændasamtökin beðið um frest á þessu máli til 1. mars en landbúnaðarnefndarmenn töldu mikilvægt að þessi ákvörðun lægi fyrir miklu fyrr út af bústofninum sem þurfti að skera niður og lögðu því áherslu á að bæði ríkisstjórnin og Bændasamtökin flýttu sér í málinu og næðu samkomulagi um nýjan samning og þess vegna varð 1. nóv. fyrir valinu. Nú liggur það fyrir, eins og ég hef hér rakið, að málið er til meðferðar í landbn.

Hitt er enginn vafi í mínum huga að auðvitað eru aðilar farnir að vinna eftir þessum samningi um uppkaup og fleira. Ég hef fullan skilning á því að Alþingi þurfi góðan tíma til að fara yfir búvörusamninginn og lagatextann. Þó vona ég samt sem áður að við getum á sem skemmstum tíma afgreitt þetta mál og kannski fyrr en dagsetning segir til um, en það verður tíminn að leiða í ljós.

Ég hef þá ekki fleiri orð um þetta, hæstv. forseti.