Mannanöfn

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 13:45:21 (530)

1995-10-31 13:45:21# 120. lþ. 22.2 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[13:45]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum með þessu frv. var það lagt fram á þingi sl. vetur og varð ekki útrætt og er nú endurflutt efnislega óbreytt. Þegar hæstv. dómsmrh. mælti fyrir frv. urðu um það nokkrar umræður á þinginu og m.a. hafði ég athugasemdir fram að færa og ætla að ítreka nokkrar þeirra við þessa umræðu þar sem mikil mannaskipti hafa orðið á Alþingi síðan málið var rætt í febrúar sl.

Setning laga um mannanöfn er vandmeðfarið verkefni. Skoðanir manna á reglum um nafngiftir eru mjög ólíkar. Deilur um mannanafnalög og útfærslu þeirra, þ.e. hvaða nöfn skulu leyfð og hver ekki, skjóta oft upp kollinum enda er nafnið hluti af persónu hvers einstaklings og mikilvægur þáttur sjálfsímyndar hans. Afkáraleg nöfn verða þeim sem þau bera í sumum tilfellum til ama og eins veldur það oft leiðindum þegar bannað er að skíra nöfnum sem ekki eru á mannanafnaskrá Hagstofunnar þótt þau hafi verið notuð í viðkomandi fjölskyldu í áratugi og jafnvel aldir.

Við skoðun á mannanafnaskrá sem gefin var út 1991 í framhaldi af samþykkt laga um mannanöfn í mars sama ár og hefur að geyma þau eiginnöfn sem heimil teljast samkvæmt lögunum, kemur t.d. í ljós að nafnið Kalman finnst þar ekki. En þetta fallega nafn hafa menn borið í Borgarfirði í nokkrar aldir og reyndar er getið um það í Landnámu. Ég er það íhaldssamur að mér finnst fráleitt að svo gamalgróið íslenskt nafn skuli ekki vera á mannanafnaskrá að því að mér er sagt vegna þess að það er skrifað með einu n-i en ekki tveimur. En í sömu mannanafnaskrá eru leyfð nöfnin Kjartan og Natan sem sýnast vera af sama stofni.

Í formála um mannanafnaskrá segir að skráin sé til viðmiðunar við nafngjafir en á engan hátt tæmandi enda er gert ráð fyrir því í lögunum að hún verði endurskoðuð eftir þörfum og gefin út á ný eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Samt er það nú svo að mannanafnaskrá sem að skrifstofa Alþingis útvegaði mér í síðustu viku er orðin rúmlega fjögurra ára gömul svo að ekki virðist nú hafa verið farið eftir þessu ákvæði laganna.

Í þessari mannanafnaskrá þar sem hið gamalgróna nafn Kalman finnst ekki má hins vegar finna nöfn eins og Bertel og Betúel, Edgar og Evert, Húbert og Ívan, Sebastían, Sesar og Tandri. Þar eru einnig stúlknanöfnin Agða og Amanda, Angela og Anja, Bódel og Elna, Elenóra og Helma, Inger og Irpa, Íva og Júdit, Kirstín og Lýdía, Malen og Ninja, Sabína, Tanja og Tatjana. (Gripið fram í.) Og svo er það ósamræmið. Á sama tíma og mannanafnaskrá leyfir nafnið Júdith, skrifað með h-i, er mér kunnugt um stúlku sem fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir u.þ.b. tveimur árum. Hún heitir Martha, skrifað með h-i. Henni var gert að breyta nafni sínu í Marta, hún varð að sleppa h-inu úr nafninu, annars væri það ekki íslenskt. Hvernig á að útskýra það fyrir þessari ungu stúlku að ekki megi skrifa nafnið hennar eins og gert hefur verið síðan hún var skírð, þ.e. með h-i, þegar kannski í næsta húsi býr önnur stúlka sem heitir Júdith, skrifað með h-i. Að maður minnist nú ekki á hin rammíslensku nöfn Amanda, Ninja og Tatjana. Annaðhvort hafa lögin sem samþykkt voru árið 1991 ekki verið nógu vel úr garði gerð eða þá að framkvæmd þeirra og túlkun hefur verið með öðrum hætti en gert var ráð fyrir. Alla vega sá hæstv. dómsmrh. ástæðu til að skipa nefnd til að semja nýtt lagafrv. í ágúst 1993 og það frv. sem við ræðum hér er afrakstur af vinnu þeirrar nefndar.

Í athugasemdum við þetta lagafrv. er greint frá helstu markmiðum nefndarinnar sem samdi frv. og er þar efst á blaði að auka frelsi í nafngiftum frá því sem nú er einkum með því heimila aðlöguð erlend nöfn, jafnvel þótt þau styðjist ekki við hefð í íslensku máli. Árangurinn má svo sjá á bls. 11 í þessu plaggi þar sem talin eru upp nöfn sem verða heimil ef þetta frv. verður að lögum. Þar má finna m.a. stúlknanöfnin Amel og Anetta, Aretta og Aþanasía, Benney og Bergetta, Bína og Blín, Dön og Edna, Emelíta, Giddý og Hallý. Og ekki eru drengjanöfnin sem þar eru talin upp síðri. Þar má finna Alf og Bert og Davor og Evan, Gerald og Húgó, Manúel og Mekkínó, Orvar og Preben, Eddý og Mooney, að ógleymdum þeim snilldarlegu nöfnum Skjarpur og Skunnar. Það er að vísu tekið fram í athugasemdum með frv. að ríkjandi smekkur valdi því að litlar sem engar líkur séu á því að stafarunur eins og Skunnar verði teknar upp sem eiginnöfn. En eftir sem áður gerir þetta frv. ráð fyrir því að það verði leyft. En í athugasemdum með frv. segir að orðalag 5. gr. feli ekki í sér nein þrengjandi ákvæði um nafnstofna. Þetta hafi í för mér sér að ýmsar merkingarlausar stafarunur verði heimilir nafnstofnar.

Það er skoðun mín að sum þeirra nafna sem hér hafa verið nefnd og eru talin upp í grg. með frv. og reyndar flest þeirra eigi ekki erindi á nýfædda Íslendinga. Sum þeirra finnst mér brjóta í bága við síðustu mgr. 5. gr. en þar segir að eiginnafn eigi ekki að vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Í athugasemdum við frv. er getið um það að Íslendingar eru eina þjóðin á Norðurlöndum og þótt miklu víðar væri leitað sem hefur tekist að varðveita þann ævaforna sið að menn séu kenndir til föður eða móður og þessi forni kenninafnasiður marki Íslendingum mikla sérstöðu og sé nátengdur tilfinningu þeirra fyrir sögu þeirra, menningu og sjálfstæði. Þetta er auðvitað hárrétt og full ástæða til að leggja á það áherslu. En mér finnst hins vegar skjóta skökku við þessa áherslu á sögu okkar, menningu og sjálfstæði að opna fyrir þá skriðu af erlendum nöfnum sem leyfð verða með samþykkt þessa frv. á sama tíma og gamalgróin íslensk nöfn verða að víkja. Þess vegna tel ég að þetta frv. þurfi endurbóta við og vona að hv. menntmn. taki það til ítarlegrar skoðunar.

Ég vil taka það skýrt fram að þrátt fyrir þá varkárni sem ég vil að ríki gagnvart erlendum nöfnum er ég þó sammála því ákvæði 11. gr. að maður sem fær íslenskan ríkisborgararétt með lögum megi halda fullu nafni sínu óbreyttu og sama gildi um börn manns sem fær íslenskt ríkisfang með lögum og öðlast ríkisfang með honum. Þetta eru sjálfsögð mannréttindi og löngu tímabær.

Í ályktun kirkjuþings frá 1986 segir, með leyfi forseta:

,,Mannanöfn hafa breyst mikið. Eldri nöfn jafnvel horfið og ný komið í staðinn. Sum hinna nýju nafna orka mjög tvímælis, eru jafnvel afkáraleg og geta orðið þeim sem að þau bera til ama. Nafnið er hluti af persónu hvers einstaklings, persónu- og tilfinningatengsl hvers manns við nafn sitt eru náin og sterk. Því ber að vanda mjög til nafngjafa``.

Herra forseti. Þessi ályktun kirkjuþings á jafn vel við í dag og fyrir níu árum. Það ber að vanda mjög vel til nafngjafa, þess vegna skiptir miklu máli að vel takist til við þessa lagasetningu.