Mannanöfn

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 14:06:50 (534)

1995-10-31 14:06:50# 120. lþ. 22.2 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[14:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að uppi í dómsmrn. sé færiband þar sem menn starfa við það að framleiða frumvörp sem hæstv. ráðherra les ekki jafn vel og hann ætti að gera. Ég verð a.m.k. að segja það, herra forseti, að hæstv. dómsmrh., sem er annálaður íslenskumaður, hefði aldrei, ef hann hefði lesið þetta frv. í þaula, látið fara frá sér orðskrípi eins og nafnberi. Hér stendur sem sagt nafnberinn Össur Skarphéðinsson og vill eiga orðastað við nafnberann hæstv. ráðherra, Þorstein Pálsson.

Þetta frv. sem hér liggur fyrir er skref í rétta átt. Mig langar aðeins að dvelja við nafnrétt manna af erlendum uppruna. Sá kafli sem fjallar um nöfn erlendra manna sem koma hingað og taka hér upp búsetu er mjög rýmkaður. 11. gr. er góð, en hún er óskýr um einn hóp Íslendinga af erlendum uppruna, þ.e. börn sem hingað eru ættleidd frá öðrum löndum. Mér er ekki ljóst hvort 11. gr. veitir nýjum foreldrum rétt til þess að láta börnin sem þau ættleiða heita upprunalegu nafni sínu.

Nú er það svo að það er lögð talsvert rík áhersla á það þegar menn ættleiða börn að reyna að undirstrika tengslin við upprunaland barnsins. Menn eru t.d. hvattir til þess að kaupa hluti úr heimalandinu og hafa við barnið og spjalla við það um uppruna þess. Það er tvennt sem gamla landið gefur þessum börnum og tvennu vilja margir að börnin haldi sem lengst, það er lífið sjálft og það er nafnið. Ég, til að mynda, svo ég feti í spor annarra hér og fari að segja reynslusögur, vildi láta dóttur mína bera áfram það nafn sem henni var gefið af góðum konum suður í Bogota, láta hana heita millinafninu Marsela. Það var ekki hægt. Ég fann að vísu íslenska nafnið Marsilía sem þar að auki er vestfirskt að uppruna eins og sá nafnberi sem hér stendur.

En mér finnst það ekki koma nægilega skýrt fram, herra forseti, hvort 11. gr., þ.e. 1. og 2. mgr. hennar, veitir okkur foreldrum kjörbarna réttinn til þess að leyfa þeim að halda sínu upprunalega nafni.

Hæstv. dómsmrh. sagði efnislega í sinni ræðu að réttur foreldra til þess að ráða nafni barnsins hlyti að vera afskaplega ríkur gagnvart löggjafanum og ég spyr hæstv. dómsmrh.: Hefði ég þennan rétt að þessu frv. samþykktu?