Mannanöfn

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 14:09:59 (535)

1995-10-31 14:09:59# 120. lþ. 22.2 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[14:09]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að hv. 15. þm. Reykv. skuli kveinka sér undan því að bera nafn og vera nafnberi þar af leiðandi. Allir vita að hann hefur gengið fram með reisn sem pólitískur krossberi árum saman og aldrei kveinkað sér undan því. Það kemur mér því sannarlega á óvart að hann skuli bera upp þessa umkvörtun í þessari umræðu.

En varðandi fyrirspurn hv. þm. um túlkun á 11. gr. frv. þá lít ég svo á að hún veiti kjörforeldrum ættleiddra barna erlendis frá rétt til þess að skíra þau upprunalegum nöfnum sínum.

Varðandi þá spurningu sem hv. 5. þm. Reykn. bar fram og laut einnig að 11. gr. og hvort hún kynni að hafa áhrif í þá veru að ættarnöfn mundu færast í aukana vegna þess að hér er verið að gefa útlendingum kost á að viðhalda þeim, þá lít ég svo á og það kemur reyndar fram í athugasemdum með frv., að á því geti verið viss hætta ef menn horfa á málið frá því sjónarhorni. Það er auðvitað svo og sú athugasemd á líka við um þær athugasemdir sem hér komu fram af hálfu hv. 4. þm. Vesturl., að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef við ætlum að taka ákvarðanir um það að auka frjálsræði í nafngiftum þá kostar það einhverjar fórnir frá þeim takmörkunum sem fyrir voru og menn verða að horfa á efni frv. í því ljósi og ég hygg að hv. 5. þm. Reykn. verði að skoða málið út frá því sjónarmiði.

Varðandi fyrirspurn hv. 19. þm. Reykv., um það hvort athugun hafi farið fram á því tæknilega hvort tölvur geti rýmt þá breytingu að fólki verði heimilað að kenna sig bæði til móður og föður í einu, þá get ég ekki svarað þeirri spurningu. Mér er ekki ljóst hvort sú könnun hefur leitt til einhverrar niðurstöðu. En án þess að ætla að taka afstöðu til álitaefnisins þá finnst mér hins vegar liggja í augum uppi að menn geta ekki látið tæknilegar ástæður eins og þessa koma í veg fyrir að Alþingi taki ákvarðanir í þessu efni og taki afstöðu til álitaefnisins og þá er ég ekki að gera upp eða kveða upp um mína afstöðu í því álitaefni á þessu stigi málsins, en aðeins að segja það að mér finnst að það geti ekki gengið að eitthvert rými í tölvum verði látið ráða því hvernig við á löggjafarsamkomunni komum okkur saman um að haga mannanafnalöggjöfinni.

Herra forseti. Ég vil svo þakka fyrir þær umræður sem hérna hafa farið fram. Þær hafa auðvitað gefið til kynna það sem öllum var ljóst, að um þessi efni eru skiptar skoðanir. Menn hafa mjög sterkar tilfinningar í þessu efni. Hér takast á grundvallarmannréttindi og vilji manna til þess að halda í íslenskar hefðir. Það eru kannski þau meginátök sem birtast þegar gera þarf breytingar af þessu tagi. Hitt hygg ég að sé alveg augljóst að það verður ekki undan því vikist að auka frjálsræði í þessu efni. Gildandi löggjöf er of þröng, setur mönnum of þröngar skorður, bæði frá því sjónarmiði að það hefur verið girt fyrir hefð sem hefur verið að myndast í íslenskum fjölskyldum áratugum og jafnvel öldum saman og eins út frá sjónarmiðum erlendra borgara sem fá íslenskt ríkisfang og út frá hreinum mannréttindasjónarmiðum.

Ég vænti þess að frv. fái ítarlega skoðun og umfjöllun í hv. nefnd.