Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 14:22:11 (541)

1995-10-31 14:22:11# 120. lþ. 22.3 fundur 74. mál: #A almenn hegningarlög# (alþjóðasamningur um bann við pyndingum) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[14:22]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Þar eru ráðgerðar breytingar á 6. gr. laganna sem taldar eru nauðsynlegar svo að unnt sé að fullgilda alþjóðasamning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, samþykktum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. des. 1984.

Samningur þessi er meðal mikilvægustu mannréttindasamninga sem gerðir hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna, en sá eini þeirra sem Ísland hefur ekki gerst aðili að. Hér er um að ræða samning sem verndar ein mikilvægustu réttindi manns að þurfa ekki að þola pyndingar eða aðrar grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Jafnframt eru þar settar reglur um hvernig ríkið skuli framfylgja banni við slíkri háttsemi og uppræta hana. Þess má geta að Ísland er þegar aðili að ýmsum alþjóðasamningum sem geyma ákvæði um bann við pyndingum. Í þessu sambandi má einkum nefna 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem þessi réttindi eru talin meðal ófrávíkjanlegra réttinda.

Einnig er Íslandi aðili að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og loks er rétt að benda sérstaklega á að með breytingum sem gerðar voru á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar á 119. löggjafarþingi með lögum nr. 97/1995, var bætt inn nýju ákvæði, 68. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir í 1. mgr. að engan megi beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð refsingu. Þess ber að minnast að við endurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar var ekki síst höfð hliðsjón af áðurnefndum alþjóðalögum, alþjóðlegum samningsskuldbindingum Íslands um mannréttindi.

Öll nágrannalönd okkar, þar með talin Norðurlöndin, hafa fullgilt samninginn sem hér er til umræðu. Í ljósi þess að 11 ár eru liðin síðan hann var gerður hefur íslenskum stjórnvöldum borist fyrirspurn frá Sameinuðu þjóðunum um hvers vegna Ísland hafi ekki enn fullgilt hann. Hefur nú loks verið ráðist í að gera tillögu um lagabreytingar sem eru nauðsynlegar til þess að unnt sé að fullgilda samninginn af Íslands hálfu.

Ákvæði í öðrum alþjóðasamningum um bann við pyndingum hafa ekki kallað á sérstakar lagabreytingar hér á landi utan Evrópusamningsins um bann við pyndingum, en vegna hans voru sett sérstök lög, nr. 15/1990, og varða störf nefndar sem starfar samkvæmt samningnum. Eftir að hafa kannað efni þessa samnings hefur niðurstaðan orðið sú að þær lagabreytingar sem fullgilding hans kallar á lúti einvörðungu að reglum um refsilögsögu íslenska ríkisins. Breytingar sem ráðgerðar eru í frv. þessu á 6. gr. almennra hegningarlaga hafa það að markmiðið að færa út refsilögsögu íslenska ríkisins í samræmi við skuldbreytingu þess efnis í 5. gr. samningsins. Í 5. gr. samningsins eru talin þau tilvik þar sem aðildarríki að samningnum skal gera ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að fella undir lögsögu sína pyndingarbrot. Markmið ákvæðisins er að gera refsilöggjöf aðildarríkja mjög rúma til þess að hægt verði að koma lögum yfir þá sem fremja pyndingarbrot án tillits til brotastærðar eða til þess að hverjum brotið beinist.

Eins og 6. gr. almennu hegningarlaganna hljóðar nú er ekki hægt að saksækja hér á landi mann sem hefur framið pyndingarbrot ef hann er útlendingur og hefur framið brotið utan íslensks yfirráðasvæðis. Í c-lið 1. mgr. 5. gr. og í 2. mgr. 5. gr. eru hins vegar þær skyldur lagðar á aðildarríki að þau víkki út refsilögsögu sína þannig að hún nái til þessara tilvika. Breytingar á 6. gr. almennra hegningarlaga sem eru ráðgerðar í þessu frv. hafa einmitt þetta markmið. Lagt er til að við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður, 9. tölul., þar sem refsilögsaga íslenska ríkisins er látin ná til háttsemi sem greinir í samningnum gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Rýmkun íslenskrar refsilögsögu með þessum hætti er sambærileg við ákvæði sem áður hefur verið bætt við 6. gr. almennra hegningarlaga í tilefni af fullgildingu einstakra alþjóðasamninga.

Verði frv. þetta að lögum verður því mikilvæga markmiði náð að hamla gegn því að menn sem framið hafa pyndingarbrot geti komist undan refsingu og fundið griðastað hér á landi vegna reglna sem takmarka refsilögsögu. Loks er ráðgert í frv. að mál samkvæmt þessum tölulið verði aðeins höfðað eftir fyrirskipun dómsmrh. Er þetta í samræmi við aðra töluliði 6. gr. þar sem refsilögsaga íslenska ríkisins er rýmkuð vegna skuldbindinga þess efnis í alþjóðasamningum. Víðtæk refsilögsaga eins og hér er lögð til er í reynd alger undantekning frá þeirri meginreglu að almennt sé ekki hægt að höfða mál gegn útlendingi hér á landi sem hefur framið brot utan íslenskrar refsilögsögu. Er nauðsynlegt að sérstaklega verði vandað til ákvörðunar um saksókn í beitingu á þeirri rúmu refsilögsögu sem ráðgerð er í frv. þessu.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.