Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 14:30:56 (543)

1995-10-31 14:30:56# 120. lþ. 22.3 fundur 74. mál: #A almenn hegningarlög# (alþjóðasamningur um bann við pyndingum) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[14:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég styð það mál sem hæstv. dómsmrh. leggur fram eins og reyndar flest mál sem hæstv. ráðherra kemur að. Þetta mál varðar, eins og hv. síðasti þingmaður sagði, mannréttindi. Pyndingar eru brot á mannréttindum og með þessum breytingum sem hæstv. dómsmrh. leggur til á hegningarlögunum er verið að reyna að setja undir ákveðinn leka í íslenskum lögum.

En mannréttindi varða fleira heldur en bara pyndingar. Það eru fleiri breytingar sem þarf að gera á hegningarlögunum til þess að virða mannréttindi og mig langar að nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra um tiltekið atriði.

Fyrir tveimur eða þremur þingum var samþykkt tillaga sem miðar að því að afnema misrétti gagnvart samkynhneigðum. Það eru brotin á þeim mannréttindi eins og menn vita og þeir njóta ekki nægilegrar lagaverndar. Í kjölfar ályktunar Alþingis var sett nefnd á laggir sem skilaði skýrslu með ákveðnum breytingum. Í þessari skýrslu komst meiri hluti nefndarinnar, sem samanstóð af fulltrúum ríkisstjórnarinnar að mestu leyti, að þeirri niðurstöðu að íslensk hegningarlöggjöf veitir samkynhneigðum ekki sérstaka vernd gegn aðkasti og misrétti eins og hegningarlöggjöf t.d. í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að breyta ákvæði 233. gr. í hegningarlögunum til þess að tryggja að ákvæðið næði til samkynhneigðar og tryggja þar með samkynhneigðum sama rétt og slíkir njóta á hinum Norðurlöndunum.

Það var líka niðurstaða nefndarinnar að leggja til að kannað yrði hvort ekki væri rétt að setja í hegningarlögin ákvæði sem kvæðu á um bann við því að neita minnihlutahópum, þar á meðal samkynhneigðum, um kaup á vöru eða þjónustu sem er boðin almenningi í atvinnuskyni. Þessi skýrsla var lögð fyrir þáv. ríkisstjórn og það var samþykkt af ríkisstjórninni að ráðast í þær breytingar sem meiri hlutinn lagði til. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.: Mun hann á næstunni eða á þessu þingi leggja fram frv. sem miðar að því að tryggja samkynhneigðum þau mannréttindi sem skýrsla ríkisstjórnarinnar segir að nauðsynlegt sé?