Verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 15:38:40 (556)

1995-10-31 15:38:40# 120. lþ. 22.7 fundur 98. mál: #A verðbréfasjóðir# (EES-reglur) frv., 101. mál: #A Verðbréfaþing Íslands# (EES-reglur) frv., 99. mál: #A lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir# (EES-reglur) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[15:38]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Með leyfi forseta mæli ég fyrir eftirfarandi þremur frumvörpum: Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 11/1993, um Verðbréfaþing Íslands, svo og frv. til laga um breytingu á lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Frumástæða þeirra breytinga á lögum sem lagðar eru til í frv. er að með þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu skuldbatt Ísland sig til að lögtaka meginefni ýmissa tilskipana Evrópusambandsins á sviði fjármálaþjónustu. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur í samvinnu við viðskrn. og bankaeftirlit Seðlabanka Íslands yfirfarið gildandi lög á sviði fjármálaþjónustu í því skyni að ganga úr skugga um að fullnægjandi samræmi sé á milli innlendrar löggjafar og tilskipana Evrópusambandsins. Athuganir ESA hafa leitt í ljós að íslensk löggjöf á þessu sviði er í öllum helstu atriðum í nægilegu samræmi við þær evrópsku tilskipanir sem um þetta efni gilda. Í ljós hafa þó komið einstök atriði sem stofnunin telur nauðsynlegt að breyta til þess að fullkomið samræming sé tryggð þar sem það á við.

Bréfaskipti Eftirlitsstofnunar EFTA og viðskrn. eru birt sem fskj. með frv. til laga um breytingu á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði. Í þessum frv. er einnig að finna breytingar sem þykja nauðsynlegar vegna þróunar hér innan lands, samanber t.d. breytingar sem taka tillit til nýrra laga um hlutafélög og einkahlutfélög.

Herra forseti. Ég vil þá fjalla um þau frv. sem hér eru lögð fram og vil með leyfi forseta fyrst víkja að frv. til laga um breytingu á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.

Í 1. gr. frv. er að finna breytingu sem felur í sér samræmingu við nýleg lög um hlutafélög, nr. 2/1995, og einkahlutafélög, nr. 138/1994. Hér er lagt til að einungis verði heimilt að stofna verðbréfasjóði sem hlutafélag, en sú skipan þykir eðlileg með tilliti til þeirrar starfsemi sem hér um ræðir. Breytingin tekur af öll tvímæli um að ekki er unnt að starfrækja verðbréfasjóði sem einkahlutafélög.

Í 2. gr. frv. er að finna breytingu sem varðar stjórnarmenn verðbréfasjóða og hæfniskröfur til þeirra. Breytingin er gerð í samræmi við ákvæði gildandi laga um hlutafélög, en eðlilegt er talið að samræmi sé í löggjöf sem kveður á um þessi atriði, en svipuð ákvæði er að finna í öðrum frv. sem snerta fjármagnsmarkaðinn og hafa verið lögð fram á hinu háa Alþingi.

Í 3. gr. eru einnig breytingar sem rekja má til nýrra laga um hlutafélög, en þar segir að rekstrarfélag verðbréfasjóða verði eingöngu stofnað sem hlutafélag.

Í 4. gr. er lagt til að daglegur stjórnandi rekstrarfélags skuli uppfylla sömu hæfnisskilyrði og framkvæmdastjórum fjárfestingarfélaga er ætlað að uppfylla samkvæmt fram lögðu frv. til laga um verðbréfaviðskipti. Í því frv. er gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri fjárfestingarfyrirtækis skuli auk almennra skilyrða um hæfni, svo sem full lögráð og óflekkað mannorð, uppfylla lágmarkskröfur um þekkingu á verðbréfaviðskiptum. Nánar er fjallað um þetta í áðurnefndu frv. til laga um verðbréfaviðskipti.

Í 5. gr. frv. er að finna ákvæði sem beinlínis kveður á um ábyrgð vörslufyrirtækja á tjóni sem það kann að valda rekstrarfélagi eða eigendum hlutdeildarskírteina af ásetningi eða gáleysi, sbr. ákvæði 5. gr. Breytingin er tilkomin, eins og segir í athugasemdum um þessa grein, vegna ábendingar Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í 6. gr. frv. er lagt til að kvittun fjárfestingarfyrirtækis teljist fulnægjandi sönnun á eignarhlutdeild í verðbréfasjóðum og almenn skylda til þess að gefa út hlutdeildarskírteini er afnumin. Þetta leiðir til þess að auka má hagræði við umsýslu sjóðanna og þessi háttur er í samræmi við þróun pappírslausra verðbréfaviðskipta. Eftir sem áður geta þeir viðskiptavinir, sem sérstaklega óska eftir því, fengið útgefin hlutdeildarskírteini sér til handa.

Þá er lagt til að stimpilgjald af hlutdeildarskírteinum sé afnumið, en með því er jöfnuð samkeppnisaðstaða innlendra og erlendra verðbréfafyrirtækja. Jafnframt hefur verið bent á að slík gjaldtaka feli oftar en ekki í sér tvísköttun þar sem ýmsar eignir verðbréfasjóða eru stimpilgjaldsskyldar.

Í 7. gr. frv. er að finna breytingar sem leiðir af frv. til nýrra laga um verðbréfaviðskipti, en ákvæðin varða fjárfestingar verðbréfasjóða í skráðum verðbréfum og er með því stefnt að auka öryggi í viðskiptum verðbréfasjóða.

Í 8.--10. gr. frv. er að finna breytingar sem leiðir af athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA og vil ég því vísa til athugasemda í greinargerð frv. um þær breytingar.

Í 11. gr. er lagt til að rekstrarfélögum verði gert skylt að gefa út útboðslýsingar vegna sérhvers verðbréfasjóðs sem þau annast rekstur á, en af hálfu ESA hefur verið lögð rík áhersla á að ákvæði laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, verði samræmd evrópskum tilskipunum að þessu leyti. Eðlilegt þykir að viðskiptavinum sé tryggður aðgangur að upplýsingum um starfsemi verðbréfasjóða þannig að þau geti betur metið þá fjárfestingarkosti sem standa til boða á hverjum tíma. Ekki verður á annað fallist en að framangreind sjónarmið eigi fullan rétt á sér og því er lagt til að breytt verði ákvæðum 37. gr. laga með þeim hætti sem hér er lagt til í 11. gr. frv.

Herra forseti. Þá vil ég víkja að ákvæðum frv. til laga um breytingu á lögum nr. 11/1993, um Verðbréfaþing Íslands.

Í 1.--3. gr. frv. er að finna breytingar sem rekja má til breytinga sem nú þegar hafa verið gerðar á lögum, enda eru í vændum samkvæmt þeim frv. sem lögð eru fram á þessu haustþingi og varða fjármagnsmarkaðinn. Þessar breytingar snerta m.a. hæfi stjórnarmanna og breytingar sem leiða af breyttri hugtakanotkun í frv. til nýrra laga um verðbréfaviðskipti.

Í athugasemdum við einstakar greinar frv. eru ástæður þessara breytinga raktar ítarlega og vil ég, með leyfi forseta, vísa til þeirra athugasemda.

[15:45]

Í 4. gr. frv. er kveðið á um að réttur fyrirtækja til aðildar að skipulegum verðbréfamarkaði séu háðir því skilyrði að hlutaðeigandi fyrirtæki uppfylli þær eiginfjárkröfur sem gerðar eru til þeirra samkvæmt þeim lögum sem um starfsemi þeirra gilda. Þetta ákvæði er í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana, nr. 6/1993, en um nánari útlistun á kröfum til lágmarkseiginfjár þessara stofnana vil ég að öðru leyti vísa til frumvarps sem var til umfjöllunar hér á haustþingi, samanber t.d. ákvæði frv. til laga um verðbréfaviðskipti, svo og ákvæði væntanlegs frv. til laga um breytingu á lögum nr. 43/1993, um verðbréfaviðskiptabanka og sparisjóði. Að öðru leyti skýra ákvæði þessa frv. sig sjálf.

Vil ég að lokum, með leyfi forseta, víkja að þriðja frv., frv. til laga um breytingu á lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Frv. þetta er flutt, sem fyrr segir, samhliða öðrum frumvörpum sem gera nauðsynlegar breytingar á íslenskri löggjöf vegna skuldbindinga Íslendinga samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, svo og vegna athugasemda ESA í kjölfar yfirferðar þeirra á íslenskum lögum sem gilda um fjármálaþjónustu.

Í 1. gr. er að tillögu Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, tekin upp nákvæmari ákvæði varðandi umsókn um starfsleyfi og er m.a. kveðið á um að umsókn skuli ávallt fylgja nákvæm lýsing á hvaða starfsemi sé fyrirhuguð eða stunduð og hvernig innra skipulagi lánastofnunar er háttað.

Í 2. gr. frv. er lagt til að leiðrétt verði tilvísun til dagsetningar á gildistöku laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Í 3. gr. frv. er kveðið á um það lágmark eiginfjárkröfu sem gert er til lánastofnana samkvæmt nýjum tilskipunum ESB um þetta efni. Hér er um að ræða hliðstæðar breytingar og fyrirhugað er að gera varðandi viðskiptabanka og sparisjóði svo að dæmi sé nefnt.

Í 4. gr. eru, eins og fram kemur í athugasemdum, tekin af tvímæli um að endurskoðun og áritun ársreikninga lánastofnana í eigu ríkisins skulu vera með sama hætti og hingað til. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur réttilega bent á að í íslenskri löggjöf vanti ákvæði um starfsemi milli dótturfyrirtækja lánastofnana og er úr þessu bætt í 5. og 6. gr. frv. Sama er að segja um ákvæði 7. gr. frv. sem varðar samstarf bankaeftirlits Seðlabanka Íslands við önnur lögbær yfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu í tilefni af brotum á löggjöf sem gildir um lánastofnanir.

Í 8. gr. frv. er að finna ákvæði sem tryggja á rétt umsækjenda um starfsleyfi, skv. lögum nr. 123/1993, að leita til dómstóla ef synjað er umsókn um starfsleyfi.

Í 9. gr. frv. eru leiðrétt mistök sem áttu sér stað við setningu gildandi laga nr. 123/1993 og varða 3. gr. laga nr. 48/1966, um stofnlánadeild verslunarfyrirtækja. Í 10. gr. frv. eru loks felld á brott ákvæði laga nr. 45/1972, sem ekki er lengur þörf fyrir.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu um frv. þessi og vil ég leggja til að þeim verði vísað að lokinni umræðu til hv. efh.- og viðskn.