Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 16:05:05 (559)

1995-10-31 16:05:05# 120. lþ. 22.12 fundur 89. mál: #A notkun steinsteypu til slitlagsgerðar# þál., Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[16:05]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um notkun steinsteypu til slitlagsgerðar. Þetta er í þriðja sinn sem ég mæli fyrir þessu máli og ég bind, herra forseti, vonir við að hv. samgn. sem þessu máli verður vísað til taki nú á sig rögg og afgreiði málið. Það eru nánast fyrirliggjandi öll gögn sem þarf til að afgreiða málið og ég mælist einnig til þess að til verði kvaddir aðilar sem framleiða steypuefni, svo sem eins og Sementsverksmiðjan, steypustöðvar og þeir aðrir sem búa til fyllingarefni í steinsteypu.

Ásamt mér flytja þetta mál hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Kristín Halldórsdóttir, Svavar Gestsson, Magnús Stefánsson, Árni R. Árnason og Guðmundur Árni Stefánsson. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að beita sér fyrir aukinni noktun steinsteypu til slitlagsgerðar þar sem álagsumferð er meiri en 5 þúsund bílar á dag, jafnframt til brúargerðar og á vegi við þéttbýli þar sem umferð er 5 þúsund bílar á sólarhring og meira. Vegagerð ríkisins hafi að markmiði við nýlagningu og endurnýjun slitlags að nota steinsteypu þar sem umferðarþungi og álag er mikið.``

Í greinargerð segir m.a.: ,,Mjög ítarlegar og markvissar rannsóknir hafa verið unnar á síðustu tveimur áratugum á notkun steinsteypu til vega- og gatnagerðar. Fyrir liggur að mun hagkvæmara er að nota steypu þar sem umferð er þung og álag af völdum veðurfars og þungaflutninga er mikið. Í þessari greinargerð er vísað til meðfylgjandi gagna um rannsóknir sem unnar hafa verið og kynntar af Íslendingum. Notkun íslenskra efna til vegagerðar er kappsmál þar sem saman fara atvinnuskapandi og gjaldeyrissparandi þættir auk meiri gæða`` --- sem er ekki hvað síst það sem menn þurfa að athuga.

,,Kostir frá umhverfissjónarmiði eru ótvíræðir. Í stað olíuefna sem gufa upp og menga jarðveg og andrúmsloft eða er komið fyrir í náttúrunni þegar gamalt olíuslitlag er fjarlægt, kemur umhverfisvænt efni alíslenskt, sem er steinsteypa.

Eftirfarandi atriði mæla sérstaklega með steinsteypu til gatna- og vegagerðar:

,,Um er að ræða meiri endingu og minna viðhald, ekki síst vegna slits af völdum nagladekkja. Það er minni erlendur kostnaður en kostnaður er háður olíuverði sem á hinn bóginn er um það bil 11% í stofnkostnaði malbiks. Það eru fleiri störf hérlendis við efnisvinnslu, í sementsverksmiðju og steypustöðvum. Um er að ræða sannanlega minni eldsneytisnotkun, einkum vegna harðara yfirborðs steypu og minna vatns í hjólförum. Það er minni efnamengun vegna slitryks og að jafnaði grynnri hjólför og þar af leiðandi minna um slys. Það er minni kostnaður við lýsingu þar sem steypa er ljós en malbik dökkt.

Ég hef aðeins, herra forseti, stiklað á stóru í greinargerðinni, en leyfi mér hins vegar að vitna til orða fyrrv. umhvrh., nú hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem sagði eftirfarandi í umræðu á 118. þingi um þetta mál, með leyfi forseta:

,,Frá sjónarmiði umhverfisins þá er alveg ljóst að hún [þ.e.tillagan] hefur margháttaðan ávinning í för með sér. Þannig liggur fyrir að ef slitlag er gert úr steinsteypu, þá leiðir það til minni notkunar á eldsneyti úr jarðefnum og það eitt og sér felur í sér ávinning fyrir umhverfið. Það er líka alveg ljóst að það er minni efnamengun vegna slitryks og í þriðja lagi liggur það líka fyrir að þau efni sem eru í steinsteypunni eru ekki jafnmengandi og ýmis þau olíuefni sem er að finna í asfaltinu. Bæði þegar asfaltið er lagt og eins þegar það er síðan fjarlægt. Þessir þrír kostir mæla því sterklega með samþykkt þessarar tillögu. Síðan er það auðvitað líka mjög mikilvægt að með því að flytja sig úr asfalti yfir í steinsteypu þá eru menn að flytja sig úr erlendum efnum yfir í innlend efni. Þetta mun auka innlenda framleiðslu, þetta mun skapa störf hér á Íslandi ...``

Svo mörg voru þau orð sem hæstv. fyrrv. umhvrh. hafði um þessa tillögu að segja þegar síðast var mælt fyrir henni.

Ég vil enn fremur með leyfi forseta vitna í orð annars hv. þm., Guðjóns Guðmundssonar, sem gerði að umræðuefni tortryggni í garð steinsteypu þótt Akurnesingar hafi t.d. haft af henni afburða góð reynslu á undanförnum 35 árum. Það sem Guðjón Guðmundsson sagði, með leyfi forseta var þetta: ,,Annars virðist vera ótrúleg tortryggni og tregða ríkjandi í garð steinsteypunnar hjá yfirstjórn vegamála. Má þar nefna t.d. fyrirhugað slitlag á gólf Vestfjarðaganga en verktaki bauðst til að steypa gólfið á svipuðu verði eða jafnvel lægra en það kostaði að malbika það. Nú eru liðnir nokkrir mánuðir síðan tilboðin voru opnuð en enn hefur ekki fengist svar við því hvort gólfið verður steypt eða malbikað.``

Þetta sagði hv. þm. Guðjón Guðmundsson þegar síðast var mælt fyrr þessari tillögu. Ég get upplýst það nú að Vegagerðin hefur ákveðið að taka malbik sem sannanlega er meira mengandi efni og samkvæmt því sem áður sagði, sennilega dýrara heldur en það sem hér er um rætt.

Ég lýsi því hér yfir, herra forseti, að ég mun berjast fyrir þessu máli sem ég lifandi get þótt ég þurfi að flytja það á hverju þingi það sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Hér er um mál að ræða eins og t.d. annað mál sem sá sem hér stendur þurfti að berjast fyrir í tvö ár, þ.e. að koma dreifilínum í jarðstreng. Með hörkunni hafðist það að ná 100 millj. til þess verkefnis á ári. Hvað gerir það? Það náðist samkomulag um þetta og ég féll frá því að ganga endanlega frá tillögunni, en henni var vísað til hæstv. ríkisstjórnar. Nú kemur í ljós að tjón er sennilega á fimmta hundrað millj. sem varð eingöngu í síðasta óveðri. Mönnum má vera ljóst að hér er um að ræða um málefni sem skapar öryggi, t.d. í sveitum landsins, auk þess sem öruggt rafmagn tryggir betri aðstæður, en það skiptir t.d. sköpum á slysstað. Ég álít að það gildi nánast sama tregðulögmálið varðandi raflínurnar þótt það hafi komið glögglega í ljós að það er orðið verulega ódýrara að leggja strengi í jörðu fyrir dreiflínur heldur en vera með þær á staurum.

Það sama hefur verið uppi á teningnum varðandi steinsteypuna. Ég veit að þetta er tregðulögmál sem þarf að komast yfir.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð miklu fleiri. En ég legg til að nú að lokinni umræðu verði málinu vísað til hv. samgn. þar sem ég trúi og treysti á að þetta mál fái endi á þessum vetri.