Endurskoðun á verksviði sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 13:34:55 (562)

1995-11-01 13:34:55# 120. lþ. 23.1 fundur 8. mál: #A endurskoðun á verksviði sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[13:34]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Segja má að með nýjum lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði hafi embætti sýslumanna úti um landið fengið nýtt og afmarkað hlutverk. Samkvæmt lögum fara sýslumenn nú hver í sínu umdæmi með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Þar á meðal fara þeir með lögreglustjórn, tollstjórn og innheimtu opinberra gjalda að því leyti sem hún er ekki falin öðrum eins og segir í 10. gr. laganna.

Landinu er nú skipt í 26 stjórnsýsluembætti auk Reykjavíkurumdæmis. Í lögunum er enn fremur kveðið á um að ekki megi fækka stjórnsýsluumdæmum eða taka upp ný nema með lögum frá Alþingi.

Því er ekki að leyna að umræða um stöðu sýslumannsembætta hefur verið allmikil á undanförnum árum. Þetta er mestan part eðlilegt vegna þess að hin nýju lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði þýddu umtalsverða breytingu á stöðu sýslumannsembættanna og því er ekki óeðlilegt að ýmsar spurningar hafi vaknað.

Þó nokkrar tillögur hafa litið dagsins ljós þar sem kveðið er á um að fækka skuli sýslumannsembættum í landinu. Þessar tillögur hafa ekki náð fram að ganga fyrst og fremst vegna þess að mínu mati að þær hafa ekki verið nægilega vel undirbúnar og hafa ekki tekið mið af þeim raunveruleika sem við blasir víðast hvar úti á landsbyggðinni. Þess vegna tel ég að það hafi verið mjög skynsamlegt þegar núv. hæstv. dómsmrh. setti niður nefnd undir forustu Þorleifs Pálssonar, sýslumanns í Kópavogi, til að gera tillögur um hugsanleg ný verkefni sýslumannsembættanna og breytta og styrkari stöðu þessara embætta.

Það er mín skoðun að skipun þessarar nefndar hafi verið forsenda þess að hægt væri að taka skynsamlega á frekari uppstokkun sýslumannsembættanna og það sem ég tel vera mikilvægast, eflingu þeirrar starfsemi sem þar fer fram núna úti um landið.

Að sjálfsögðu er eðlilegast að reyna að færa verkefni frá miðstjórnarvaldinu í Reykjavík og út á landsbyggðina. Þá sýnist augljóst að sýslumannsembættin séu eðlilegur farvegur til slíks þar sem þessi embætti eru til staðar. Þau byggja á ríkri hefð og þjálfaðri stjórnsýslu. Enginn vafi er á því að breyting á stjórnsýsluumdæmum er ákaflega viðkvæm, ekki bara fyrir þá íbúa sem nýta sér þessa þjónustu heldur vegna þess að í eðli sínu er mjög þýðingarmikið að tiltekin festa sé í stjórnsýslunni í landinu. Ég tek þannig undir orð hv. varaformanns fjárln., Sturlu Böðvarssonar, sem fjallaði einmitt um þessi mál við 1. umr. fjárlaga nú fyrr í haust.

Það er auðvitað tiltölulega auðvelt verk að leggja til einhvers konar kák í uppstokkun sýslumannsembættanna þar sem drepið er niður fæti fjarri stjórnsýslunni. Í hugum þeirra sem nýta sér þessa þjónustu nú er þetta hins vegar mjög alvarlegt mál, ekki síst þegar ekkert er gert til að kynna íbúunum hvað eigi að koma í staðinn. Heildstæð uppstokkun stjórnsýslunnar úti um landið og ekki síður á höfuðborgarsvæðinu þar sem haft er til hliðsjónar að reyna að auka skilvirkni og varanlegan sparnað jafnt fyrir þegnana og ríkissjóð er af hinu góða. En þá verður að gæta þess að þannig sé staðið að málum að skyndiákvarðanir dagsins í dag skaði ekki möguleika á því að taka heildstætt á málum síðar meir. Þess vegna er nauðsynlegt að við alla endurskoðun á þessu sviði sé haft samráð við heimamenn.

Mjög margir hafa bundið miklar vonir við niðurstöður þeirrar nefndar sem ég nefndi hér áðan. Nefndin mun hafa skilað áliti sínu í maí sl. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. dómsmrh. tveggja spurninga:

1. Hver var niðurstaða nefndar er ráðherra skipaði til að endurskoða verksvið sýslumannsembættanna í landinu?

2. Má vænta endurskoðunar á starfssviði og hlutverki sýslumannsembættanna í kjölfar þess nefndarálits?