Endurskoðun á verksviði sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 13:49:36 (567)

1995-11-01 13:49:36# 120. lþ. 23.1 fundur 8. mál: #A endurskoðun á verksviði sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[13:49]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ítreka að ég tel það vera skynsamlega stefnu almennt að færa ýmis verkefni sem lúta að afgreiðslum og úrskurðum út til undirstofnana og frá ráðuneytum. Það gefur ráðuneytunum betra svigrúm til stefnumótunar og á að geta leitt til öruggari og betri þjónustu við íbúa landsins sem þurfa að sækja til yfirvalda um slíkar ákvarðanir. Sýslumannsembættin eru mjög kjörinn vettvangur til þess að færa mörg af þessum verkefnum til.

Ég tel að það rýri ekki á nokkurn hátt framkvæmd þeirra hugmynda sem koma fram í nefndarálitinu að fela hverju ráðuneyti um sig að koma þeim í framkvæmd. Eðlilega verða ráðuneytin að bera ábyrgð á málaflokkum sínum og hafa forustu um breytingar sem eru hugsanlegar en þingið hefur alveg sömu möguleika á að fylgja þessum hugmyndum eftir og ekki síðri möguleika þó að hvert ráðuneyti beri ábyrgð á sínum málaflokki.

Varðandi samruna embætta er það rétt sem hér kom fram að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að tvö minni embætti verði sameinuð öðrum, ekki vegna þess að rekstur þeirra hafi verið slæmur heldur vegna þess að það liggur fyrir að það má spara í yfirstjórn með því að sameina sýslumannsembætti. Við verðum líka að hafa í huga að það kemur fram í þessu nefndaráliti að það getur verið forsenda fyrir tilflutningi sumra verkefna að það séu öflug embætti sem fáist við verkefnin. Ég nefni til að mynda úrskurði í forsjármálum sem eru afar viðkvæm mál. Það skiptir máli að embætti hafi nægjanlega sérþekkingu á þessum sviðum til þess að geta fjallað um þau efni þannig að það er alls ekki svo að það sé ósamrýmanlegt heldur þvert á móti fer það saman að hagræða skipulaginu og gera embættin sterkari um leið og við færum aukin verkefni til þeirra.