Sjálfræðisaldur barna

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 13:52:41 (568)

1995-11-01 13:52:41# 120. lþ. 23.2 fundur 47. mál: #A sjálfræðisaldur barna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[13:52]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Sjálfræðisaldur barna hefur verið töluvert til umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu, oftast í tengslum við það að erfiðlega reynist að fá unglinga á aldrinum 16--18 ára í fíkniefnameðferð nema með þvingunaraðgerðum þrátt fyrir vilja og óskir foreldra þó að vissulega megi færa fram frekari rök fyrir hækkun sjálfræðisaldurs sem ná til allra einstaklinga á þessum aldri. Ef grannt er skoðað kemur í ljós að sjálfræðisaldur á Íslandi hefur ekki breyst síðan árið 1281 þegar Jónsbók var lögtekin hér þrátt fyrir gífurlegar þjóðfélagsbreytingar og þá staðreynd að í nágrannalöndunum er skipan mála með allt öðrum hætti. Samkvæmt fyrstu lögræðislögunum sem sett voru hér á landi árið 1917 var 16 ára sjálfræðisaldrinum ekki breytt og samkvæmt núgildandi lögræðislögum frá árinu 1984 er enn miðað við 16 ár. Til samanburðar má geta þess að eftir lok miðalda var sjálfræðisaldur annars staðar Norðurlöndunum hækkaður úr 12 árum í 25 og á seinni hluta 19. aldar var hann lækkaður í 21 ár.

Á árunum 1968--1976 var sjálfræðisaldurinn á Norðurlöndum og í Englandi lækkaður úr 21 ári í 18 ár og þannig mun það vera í langflestum nágrannalöndum okkar að sjálfræðisaldurinn er 18 ár.

Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1989, sem við fullgiltum árið 1992, og er nú kynntur með myndarlegu átaki í sjónvarpinu segir í 1. gr.: ,,Börn eru allt fólk í heiminum yngra en 18 ára.`` En samkvæmt íslenskum lögum eru börn börn til 16 ára aldurs og ungmenni fram til 18 ára þegar þau verða lögráða og fá kosningarétt og fleira en eins og við vitum fá þau síðan ekki heimild til þess að kaupa áfengi fyrr en 20 ára. Þó að ungt fólk telji e.t.v. að þau missi réttindi við það að sjálfræðisaldurinn verði hækkaður má einnig líta á það sem aukið réttaröryggi að forsjárskyldur foreldrar séu framlengdar. Ég er sannfærð um að það eru mun fleiri rök sem mæla með hækkun sjálfræðisaldurs en á móti.

Þjóðfélagsbreytingar síðustu áratuga hafa m.a. leitt til þess að skólaganga ungs fólks er orðin mun almennari og atvinnuleysi 16--18 ára unglinga sem annarra hefur aukist sem veldur því að unglingar eru efnahagslega háðari foreldrum sínum en fyrr. Hækkun forræðisaldurs yrði því viðurkenning á þeim þjóðfélagsbreytingum sem hafa orðið. Um leið yrði staða foreldra gagnvart 16--18 ára unglingum mun skýrari. Ábyrgð hins opinbera gagnvart börnum og foreldrum væri einnig skýrari og einnig bæði varðandi þjónustu við unglinga og ekki síður í bótakerfinu en þá má búast við að krafan um barnabætur til 18 ára aldurs kæmi fljótt upp þó það hljóti að vera sjálfstæð pólitísk ákvörðun hvernig með það mál verður farið.

Ég vil af þessu tilefni beina fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. á þskj. 47:

,,Fyrirhugar ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp um hækkun sjálfræðisaldurs barna í 18 ár. Ef svo er, þá hvenær?``

Það væri einnig fróðlegt að vita hvað hæstv. dómsmrh. telur helst mæla með og á móti slíkum breytingum.