Sjálfræðisaldur barna

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 13:59:06 (570)

1995-11-01 13:59:06# 120. lþ. 23.2 fundur 47. mál: #A sjálfræðisaldur barna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[13:59]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og vonast til að sjá slíkt frv. síðar á þessu þingi eða sem fyrst en ég ítreka að ég er þeirrar skoðunar þótt ég hafi nefnt þennan litla hóp að þetta varði auðvitað alla unglinga í landinu. Í því sambandi vil ég taka fram að ég held að þó að það megi nota uppeldisfræðileg rök fyrir því að það geti verið gott að láta unglinga fá ábyrgð smátt og smátt, þau byrja 15 ára á að verða sakhæf og 16 ára sjálfráða og 18 ára geta þau kosið og 20 ára keypt brennivín o.s.frv., þá virðist þetta valda töluverðum ruglingi á framkvæmd og hugmyndum þeirra um réttarstöðu sína. Það virðist vera ákveðin vanvirðing uppi gagnvart lögunum vegna þess að þau eru ekki alveg í samræmi við þá lifnaðarhætti sem hér tíðkast. Ég held því að það sé mun vænlegra til að ala ungt fólk upp í að bera virðingu fyrir lögum að hér séu skýrari línur dregnar í þessum efnum og ég tel fyllilega tímabært að við gerum eins og flestar þjóðir í kringum okkur og miðum sjálfræði og lögræði við 18 ár.