Skaðabótalög

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:03:50 (572)

1995-11-01 14:03:50# 120. lþ. 23.3 fundur 51. mál: #A skaðabótalög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:03]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Með skaðabótalögum sem samþykkt voru 1993 er það meginregla að bætur fyrir varanlega örorku skuli ákveðnar eftir því sem ætla má að tjón hvers einstaks tjónþola sé. Örorkustig á að miðast við raunverulega skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Bætur fara einnig eftir fyrri tekjum tjónþola sem í hlut á.

Að því er tekjur varðar er haldið í þá meginreglu sem gilt hefur að sníða skal bætur eftir tjóni hvers einstaklings. Þessi regla felur það í sér að bætur verða mismunandi eftir tekjum hvers og eins, hvort sem um er að ræða karl eða konu. Bætur læknis ráðast af tekjum hans án tillits til kyns. Sama máli gildir um tekjur bóndans og hjúkrunarfræðingsins, Sóknarkonunnar og verkamannsins, flugfreyjunnar og flugstjórans. Til frekari skýringar er þess að geta að árslaun skal miða við heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Þó skal meta árslaun sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Þetta getur t.d. átt við um þann sem var atvinnulaus þegar slys varð eða á næstliðnu ári.

Þegar hins vegar er litið til þess hvernig fari um bætur til barna og annarra tjónþola sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, þá ákvarðast þær bætur samkvæmt skaðabótalögunum á grundvelli miskastigs sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska. Auk barna, en þau eru stór hluti tjónþola, á þetta einkum við um heimavinnandi konur eða karla. Þessar bætur eru nú staðlaðar og gildir sama regla fyrir bæði kyn. Skiptir þá engu hvort tjónþoli er karl eða kona. Við þessar aðstæður koma hugsanlegar fyrri tekjur ekki við sögu. Tjón sem urðu fyrir gildistöku skaðabótalaganna eru hins vegar bætt á grundvelli eldri reglna, þar sem bætur til þessa hóps voru almennt ákvarðaðar eftir tekjuhorfum hvors kyns fyrir sig.

Reynsla af skaðabótalögunum er enn takmörkuð og um sum ákvæði þeirra hefur verið deilt. Ég vek athygli á því að hv. allshn. hafði skaðabótalögin til sérstakrar meðferðar fyrr á þessu ári, fyrst á vetrarþinginu og aftur á vorþinginu. Á vorþinginu ákvað nefndin með sérstöku bréfi að fela þeim Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni og Gunnlaugi Claessen hæstaréttardómara, sem höfðu að tilhlutan dómsmrn. á árinu 1994 gert athugun á ákvæðum skaðabótalaganna, að taka á ný sérstaklega til athugunar þann margföldunarstuðul sem lögin byggja á. Þeim var einnig falið að yfirfara önnur ákvæði laganna og leggja mat á hvort breyta þurfi einhverjum þeirra og þá hvernig. Var þeim falið að semja frv. til laga um breytingar á skaðabótalögunum ef niðurstöður af athugunum þeirra gefa tilefni til þess ásamt athugasemdum. Nefndin óskaði þess að slíkt frv. yrði afhent í tæka tíð til að leggja megi það fram á Alþingi nú í haust og þess var loks óskað að drög að frumvarpi yrði kynnt nefndinni sérstaklega áður.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er gert ráð fyrir að lögfræðingarnir tveir skili skýrslu sinni nú fyrri hluta þessa mánaðar. Það ræðst svo auðvitað af þeirra niðurstöðum hvaða hugmyndir koma fram um breytingar á lögunum, en umboð þeirra til endurmats á lögunum var býsna víðtækt og ég tel að það hafi verið nauðsynlegt að fara í slíkt endurmat. Hér er um að ræða mjög mikla grundvallarbreytingu á íslenskum rétti þegar skaðabótaréttur er lögfestur í fyrsta sinn og því þurfum við að fylgjast mjög vel með þróuninni í þessum efnum og laga lögin að fenginni reynslu og í ljósi nýrra viðhorfa. En ég endurtek að þess er að vænta að niðurstöður sérfræðinganna tveggja um endurskoðun á lögunum liggi fyrir í þessum mánuð og væntanlega fyrri hluta þessa mánaðar.