Skaðabótalög

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:08:29 (573)

1995-11-01 14:08:29# 120. lþ. 23.3 fundur 51. mál: #A skaðabótalög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SP
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:08]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. dómsmrh. benti á er allshn. að láta skoða ákveðna þætti hinna nýju skaðabótalaga og ég á von á því að sú nefnd skili áliti mjög fljótlega, jafnvel alveg á næstu dögum. Hv. fyrirspyrjandi á einmitt sæti í allshn. þannig að þar gefst gott tækifæri til að skoða efni fyrirspurnarinnar. En auðvitað verður að hafa í huga þá grundvallarreglu skaðabótaréttar um að tjónþoli eigi að vera jafnt settur eftir tjón og hann var fyrir tjón, þ.e. að raunverulegt fjártjón sé bætt.

Hins vegar er hægt að skilja fyrirspurn hv. þm. þegar litið er til allra þeirra þátta í löggjöf sem tryggja eiga jafnrétti. Við getum nefnt sem dæmi 3. gr. jafnréttislaga sem bannar mismun á grundvelli kynferðis og sú regla hefur verið í gildi í íslenskum lögum allt frá því að fyrstu jafnréttislögin komu til sögunnar 1976. Breyting var gerð á íslensku stjórnarskránni þar sem lögfest var ákvæði um bann við mismunun á grundvelli kynferðis. Þá hefur Ísland líka fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og það er ágætt fyrir okkur að hafa þessi atriði í huga og minna á þau.