Úrbætur í fangelsismálum

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:14:52 (577)

1995-11-01 14:14:52# 120. lþ. 23.4 fundur 52. mál: #A úrbætur í fangelsismálum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:14]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Nú er unnið að endurbótum í fangelsismálum í samræmi við stefnumörkun fangelsismálanefndar frá því í mars 1992 sem staðfest var af ráðuneytinu sem stefnumörkun af þess hálfu og samþykkt af þáv. ríkisstjórn. Meðal brýnustu úrbóta er endurnýjun og smíði nýrra fangelsa. Í þeim efnum er rétt að minna á að í síðasta mánuði var ný fangelsisbygging fyrir afplánunarfanga tekin í notkun á Litla Hrauni. Sú bygging rúmar 55 fanga. En samtímis verður hluti af eldri byggingu tekinn til annarra nota þannig að heildarfangarými í landinu eykst um 35 pláss eða um 30%. Með þessari nýju fangelsisbyggingu minnkar enn fremur álag á fangelsin í Reykjavík þar sem stefað mínu mati nt er að því að draga úr notkun fangelsanna eftir því sem kostur er vegna þess í hvaða ástandi þau eru.

Hvað fyrirhugaða byggingu fangelsis við Tunguháls varðar er það að segja að ráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að því að tryggja sér lóð við Tunguháls með það fyrir augum að byggja þar gæsluvarðhalds- og afplánunarfangelsi. Nú hefur lóðin fengist og ráðgert er að hefja undirbúning og hönnun á slíkri byggingu þegar á næsta ári en samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1996 eru áætlaðar 10 millj. kr. til undirbúnings og hönnunarvinnu á næsta ári. Ráðgert er að það fangelsi mæti gæsluvarðhaldsþörf og að hluta afplánunarþörf fyrir Reykjavík og næsta nágrenni. Fangelsinu er ætlað að koma í stað Hegningarhússins við Skólavörðustíg og fangelsisins í Síðumúla en þar eru nú rými fyrir 32 fanga. Þau fangelsi verða lögð niður þegar nýja fangelsið tekur til starfa. En samkvæmt bráðabirgðaáætlun er gert ráð fyrir að nýja fangelsið muni rúma allt að 50 fanga og að því er stefnt að það verði tilbúið til notkunar árið 2000.