Úrbætur í fangelsismálum

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:19:44 (580)

1995-11-01 14:19:44# 120. lþ. 23.4 fundur 52. mál: #A úrbætur í fangelsismálum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:19]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. ágæt svör hans. Ég vil engu að síður draga fram þær tillögur sem koma fram hjá nefnd um fangelsismál og vitna hér í skýrslu fangelsismálanefndar til dómsmrh. um stöðu fangelsismála í dag. Tillögur um brýnar úrbætur og stefnumörkun til framtíðar, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Nefndin leggur til verulegar breytingar á húsakostum og starfsemi fangelsa. Þeim verði komið í mannsæmandi og lögmætt form. Fangelsum verði fækkað frá því sem nú er að vera sex í fjögur. Nýtt fangelsi verði byggt á höfuðborgarsvæðinu. Hagkvæmnisástæður mæla með þeirri staðsetningu. Fangaplássum verði fjölgað úr 117 í 139 og fangelsum skipt í deildir.``

Ég vil undirstrika einmitt þessa nauðsyn að fangelsi sé byggt hér í Reykjavík. Það er af þeim augljósu ástæðum að fangelsi í Reykjavík er nær dómstólum, lögreglu, lögmönnum, sérfræðingum í heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu sem tilheyrir slíku fangelsi. Það er líka ljóst að heildarþörf fanga er hvergi mætt með þeirri þó ágætu úrbót sem hefur orðið á Litla Hrauni. Sérstaklega þarf að horfa til skammtímavistunar og gæsluvarðhaldsþarfar sem eðlilegt er að verði hér á höfuðborgarsvæðinu.