Úrbætur í fangelsismálum

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:21:45 (581)

1995-11-01 14:21:45# 120. lþ. 23.4 fundur 52. mál: #A úrbætur í fangelsismálum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:21]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fyrst varðandi fyrirspurn um þær 10 millj. sem ráðgert er að verja til hönnunar fangelsisbyggingar hér í Reykjavík á næsta ári þá geri ég ráð fyrir því að við höfum þær til ráðstöfunar þannig að undirbúningur að þeirri framkvæmd geti hafist með þeim hætti sem hér er lagt til.

Varðandi frv. um fangelsi og fangavist þá get ég ekki svarað því á þessu stigi hvenær hægt er að leggja fram frv. um það efni. En eins og hv. fyrirspyrjandi gat um þá hefur það verið til umfjöllunar um nokkurn tíma og ég vona að það verði unnt að hraða því að ganga endanlega frá tillögum þar að lútandi.

Varðandi fyrirspurn sem hér kom fram um notkun á Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þegar það verður lagt niður sem fangelsi er það að segja að ákvörðun hefur ekki verið tekin þar um enn. Því miður verður nokkur bið á því að unnt verði að leggja fangelsisstarfsemi þar niður en húsið er sögufrægt eins og hér kom fram. Hæstiréttur hóf þar að auki störf sín í þessu húsi. En það verður fljótlega hafist handa við að kanna með hvaða hætti megi nota húsið þegar núverandi hlutverki þess lýkur.

Að því er varðar þau atriði sem fram komu hér í máli hv. fyrirspyrjanda að aðalfangelsi ríkisins eigi að vera í Reykjavík þá er rétt að taka fram að þeirri tillögu var hafnað. Það var ákveðið að aðalfangelsi ríkisins skyldi áfram vera á Litla Hrauni. Fyrir því voru fullkomin hagkvæmnirök. Þar hefur fangelsisrekstur farið fram með góðum árangri um langan tíma. Þar er vingjarnlegt umhverfi gagnvart þessari starfsemi og í síðasta mánuði var opnuð ný bygging á grundvelli þeirrar ákvörðunar að þar verði aðalríkisfangelsið. En það breytir ekki þeirri staðreynd að hér er full þörf á og mjög brýn að koma upp nýju gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík og móttökufangelsi. Það er samkvæmt áætlun fangelsismálanefndar unnið að framgangi þess máls.