Lokunartími veitingahúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:34:00 (587)

1995-11-01 14:34:00# 120. lþ. 23.6 fundur 54. mál: #A lokunartími veitingahúsa# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:34]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í septembermánuði sl. skipaði ég sérstaka nefnd sem falið var að gera tillögur um endurskoðun á gildandi lögum um skilyrði fyrir veitingu leyfis til áfengisveitinga og um rekstur skemmtistaða og þar á meðal opnunartíma þeirra. Nefndinni var einnig falið að gera tillögur um eftirlit með áfengi í veitingahúsum og gjaldtöku í því sambandi.

Í nefndina voru skipaðir, auk fulltrúa dómsmrn., fulltrúar frá samgrn., fjmrn., Sambandi ísl. sveitarfélaga, Sambandi veitinga- og gistihúsa og frá Félagi starfsfólks í veitingahúsum.

Ég tel eðlilegt að skoða þessi mál í heild sinni og taka afstöðu til einstakra þátta þegar þessu nefndarstarfi lýkur og tel ekki rétt að taka opnunartímann einan sér út og gera breytingar þar á fyrr en heildarskoðun á málefnum varðandi rekstur vínveitingahúsa er lokið. Ég á von á því að nefndin muni hraða störfum sínum og þá verður tekin afstaða til álitaefnisins. En ég tek eftir því að fsp. er á þann veg orðuð að það mætti ætla að unnt væri að stemma stigu við ófremdarástandi í miðborg Reykjavíkur með því að breyta lokunartíma vínveitingahúsa. Ugglaust er það nú svo að lokunartími getur haft einhver áhrif í því efni, en ég efast um að breyting af því tagi ein og sér geti stemmt stigu við ófremdarástandi.