Lokunartími veitingahúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:36:07 (588)

1995-11-01 14:36:07# 120. lþ. 23.6 fundur 54. mál: #A lokunartími veitingahúsa# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:36]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. ágæt svör og fagna því að starf að þessu máli er í föstum farvegi með þeirri nefndarskipan sem hæstv. ráðherra gat um. Að sjálfsögðu er fsp. lögð fram í ljósi þess ástands sem öllum er kunnugt að er í miðborg Reykjavíkur. Þar spyrja borgararnir um öryggi sitt og um þær aðstæður sem þeir hafa til eðlilegra skemmtana. Fjöldi reykvískra heimila og heimila á öllu höfuðborgarsvæðinu horfir til þess með miklum áhyggjum að í miðbænum þrífst margt það sem verst er og við viljum helst frá okkur halda. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að breyting á opnunartíma veitingahúsa er ekki eina ráðið og fagna því ef hæstv. ráðherra vill beita sér, eftir því sem önnur úrræði eru á hans færi, að láta þau einnig koma til umfjöllunar, hvort heldur er hjá þeirri nefnd sem ráðherrann gat um eða með öðrum hætti.

Ég vil sérstaklega taka upp annan þátt sem ekki snýr endilega að öryggi eða uppeldi barna heldur þann þáttinn sem við öll þekkjum, að þetta ástand í miðborg Reykjavíkur er höfuðborg landsins til vansa að mörgu leyti. Það er okkur sjálfum til vansa en það er líka til vansa þegar gesti ber að gerði, erlenda ferðamenn eða aðra sem eiga erindi til landsins. Ég held að það sé því brýn þörf á að þetta mál sé skoðað og ef opnunartími veitingahúsa getur þar lagt eitthvað gott til með einhverjum breytingum þá er sjálfsagt að skoða það ásamt öðrum úrræðum.