Flutningur höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:49:43 (594)

1995-11-01 14:49:43# 120. lþ. 23.7 fundur 114. mál: #A flutningur höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:49]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin. Það má ljóst vera að flutningur stórrar og mikilvægrar stofnunar á borð við Landhelgisgæsluna gerist ekki á einni nóttu. Það tekur langan tíma að sjálfsögðu og þarf aðdraganda að slíku máli. En tillögur áðurgreindrar nefndar voru ákveðin vísbending. Hér hafa nokkrir hv. þm. nefnt rök frekar gegn því að af slíkum flutningi geti orðið, m.a. rætt um hafnargjöld, um viðhald á Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, læknaþjónusta væri bundin við Borgarspítalann og áfram má telja. Auðvitað skipta þessi atriði máli en eru ekki aðalatriði málsins. Hvort greidd eru hafnargjöld eða ekki, um það snýst þetta mál ekki. Það er vitað hvað flugmálin snertir að öruggasti flugvöllur landsins er Keflavíkurflugvöllur, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Með fullri virðingu fyrir þeim stórkostlegu læknum sem hafa unnið með Landhelgisgæslunni, þá eru líka læknar á Suðurnesjum.

Með öðrum orðum, þetta er ekki meginatriði málsins. Meginatriði málsins er, eins og fram kom hjá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur, hagkvæmni stofnunarinnar. Það er hagkvæmni stofnunarinnar sem er meginatriðið, um það gaf þessi umrædda nefnd ákveðna vísbendingu og benti m.a. á Reykjanes sem heppilegan hugsanlegan valkost. Svör hér leiða huga minn líka að því hver sé tilgangur með nefndarskipan. Sú nefnd sem ég gat um áðan og forsrh. skipaði á sínum tíma, skilar nokkuð skýrum tillögum til hæstv. ráðherra þá að vinna frekar úr, en þegar síðan svör hæstv. ráðherra eru nokkuð á skjön við tillögur þessarar nefndar þá spyr maður um tilgang með nefndarskipan af þessum toga.

Ráðherra lýsti því yfir að það væri ekki í bráð á döfinni að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar. Ég lýsi vonbrigðum með það en vona að bráð þýði ekki mjög lengi.