Hvalveiðar

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:06:02 (600)

1995-11-01 15:06:02# 120. lþ. 23.8 fundur 22. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:06]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svar hans og fagna því að hann stefnir að því að flytja þáltill. um hvalveiðar. Það kom reyndar ekki fram hvenær sú tillaga er væntanleg og þar sem ég sé að þetta mál er ekki á málaskrá ráðuneytisins sem fylgdi stefnuræðu hæstv. forsrh., þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hennar sé ekki að vænta á þessu þingi. Ég tel að það sé búið að undirbúa þetta mál mjög vel með nefndarstarfi fulltrúa allra þingflokka á síðasta ári og það var auðvitað mjög mikilvægt fyrir framgang þessa máls að þar skyldi nást fullkomin samstaða með fulltrúum allra floka.

Það er enginn vafi á því að meðal þjóðarinnar er mjög almennur vilji til þess að hvalveiðar verði hafnar að nýju. Það hefur komið skýrt fram í ályktunum fjölda félaga og hagsmunasamtaka og einnig í skoðanakönnunum sem hafa sýnt yfir 80% fylgi þjóðarinnar við að hvalveiðar hefjist að nýju og þessi auðlind verði nýtt á skynsamlegan hátt. Þarna eru enda miklir hagsmunir í húfi. Síðustu árin sem hvalveiðar voru stundaðar af fullum krafti var útflutningsverðmæti hvalaafurða á annan milljarð á ári miðað við núverandi verðlag og veiðar og vinnsla hvals sköpuðu hundruðum manna vinnu. En það er auðvitað rétt hjá hæstv. sjútvrh. að markaðir verða að vera til staðar fyrir afurðirnar.

Andstæðingar hvalveiða hafa farið mikinn gegn þessum veiðum og það er hart fyrir smáþjóð eins og okkur Íslendinga sem ekki hefur bolmagn til að kynna sinn málstað eins og þyrfti meðal þjóða heims, að þurfa að beygja sig fyrir ómerkilegum áróðri svokallaðra umhverfisverndarsamtaka sem sum hver a.m.k. hafa notað hreinar lygar um hvalveiðar okkar og annarra þjóða til að plata fé út úr fólki víða um heim. Og þó að það virðist kannski stundum eina leiðin að gefast upp fyrir þessum áróðri, þá er það líka stórhættulegt, ekki síst fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi í jafnríkum mæli og við Íslendingar. Því það er ekki bara að takmarkalaus fjölgun hvala raski lífkeðjunni í hafinu í kringum okkur, heldur geta þessi öfgasamtök krafist þess næst að við hættum fiskveiðum okkar til að taka ekki fæðuna frá hvölunum. Því miður bendir margt til að slík aðgerð sé í undirbúningi eins og skýrt kom fram á fróðlegri ráðstefnu Fiskifélags Íslands um þessi mál sl. vetur. Þess vegna getum við ekki lengur látið reka í þessu máli. Við verðum að spyrna við fæti ef ekki á illa að fara. Við getum ekki og megum ekki láta öfgamenn og lýðskrumara eyðileggja afkomu okkar. Þess vegna verðum við að hefja hvalveiðar að nýju, það þolir enga bið.