Veiðar og rannsóknir á túnfiski

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:11:12 (602)

1995-11-01 15:11:12# 120. lþ. 23.9 fundur 81. mál: #A veiðar og rannsóknir á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:11]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. hvort megi með skipulegum hætti kanna þann möguleika hvort veiðar á túnfiski í hafinu við Ísland gætu verið arðbærar. Veiðar á túnfiski eru að ég hygg nokkuð fjarstæðukenndar í augum margra Íslendinga, enda aldrei verið kannað með neinum hætti hvort þær væru mögulegar.

Með aukinni þekkingu Íslendinga á veiðiaðferðum annarra þjóða og útþrá landans til þess að starfa úti í hinum stóra heimi hafa komið upplýsingar til okkar sem benda til þess að túnfiskveiðar séu mögulegar á Íslandi. Þær fréttir að Japanir séu farnir að veiða túnfisk djúpt suður í hafi hafa einnig ýtt undir þær hugmyndir að þarna sé jafnvel nýtanlegur fiskstofn fyrir Íslendinga. Að mati íslensks framkvæmdastjóra og útgerðarfyrirtækis á Fílabeinsströndinni sem gerir út á túnfisk, þá eiga Íslendingar að geta veitt túnfisk á línu, en til þess þurfum við sérbyggð skip. Íslenskur skipstjóri hjá FAO telur að auðvelt eigi að vera fyrir Íslendinga að tileinka sér vinnubrögð við línuveiðar á túnfiski. Sömu sögu segja Íslendingar sem fóru til túnfiskveiða undan ströndum Ekvador á síðasta ári.

Sú spurning hlýtur einnig að vakna hjá okkur að ef Japanir geta veitt túnfisk við Ísland, því getum við það ekki? Heimsafli túnfisks var árið 1992 um 3 millj. tonna og eru tegundirnar ,,ship jack`` og ,,yellowfin`` stærsti hluti veiðarinnar eða 2,5 millj. tonna. Sú túnfisktegund sem veiðist suður af Íslandi heitir ,,bluefin`` eða thunnus thynnus á latínu sem útleggst bláuggi á íslensku. Bláuggi er eina túnfisktegundin sem lifir í tiltölulega köldum sjó eða 12--14 gráða heitum og er hann jafnframt langverðmætastur.

Veiðar á túnfiski eru nokkuð sérhæfðar og getur því þurft sérhæfð skip sem ekki finnast á Íslandi. Bláugga verður að veiða á línu og er línulengdin allt að 100 sjómílur og lagt á tromlu með miklum hraða. Vinnsla og meðferð túnfisks er einnig vandasöm og þarf lausfrysti sem ná allt að 50 gráðu frosti á celsíus. Ekki er hægt að búast við því að íslenskir útgerðarmenn geti farið í tilraunaveiðar á þessari fisktegund án fyrirliggjandi rannsókna og upplýsingaöflunar. Mat fróðra manna um möguleika okkar á túnfiskveiðum er jákvætt, markaðsmöguleikar eru miklir, álit fiskifræðinga er að stofninn sé í hafinu við Ísland og aðrar þjóðir, eins og komið hefur fram Japanir, eru farnir að veiða túnfisk hér við land. Ég tel því að við verðum að kanna okkar möguleika á þessu sviði. Að fara út í samvinnu við aðrar þjóðir eins og Japani gæti verið vænlegur kostur. Að mínu mati gæti hér verið um nýtanlega auðlind að ræða sem réttlætir útgjöld til rannsókna.

Einnig er ástæða fyrir okkur Íslendinga að auka grunnrannsóknir okkar í hafinu utan við fiskveiðilögsöguna almennt. Það er ekki verra að við finnum fiskimiðin utan landhelginnar sjálfir í stað þess að láta aðrar þjóðir gera það samanber karfamiðin suðvestur af Reykjanesi. Ég get einnig ímyndað mér að slík vinnubrögð treystu stöðu okkar í hafréttarmálum um nýtingu aðlinda utan lögsögunnar.

Virðulegi forseti. Af þessum ástæðum hef ég borið fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh.:

1. Hefur af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins eða Hafrannsóknastofnunar farið fram könnun á því hvort túnfiskur sé í nýtanlegu magni innan fiskveiðilögsögu Íslands eða í hafinu suður og suðvestur af landinu?

2. Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir styrkveitingum til að kanna veiðimöguleika túnfisks innan og utan landhelginnar?

3. Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir því að sent verði rannsóknaskip til að kanna hugsanleg veiðisvæði túnfisks?

4. Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir styrkveitingum til sérútbúinna skipa til tilraunaveiða og vinnslu á túnfiski?

16:2 [sækja PostScript eða prenta (einungis innan húss)]