Veiðar og rannsóknir á túnfiski

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:20:29 (606)

1995-11-01 15:20:29# 120. lþ. 23.9 fundur 81. mál: #A veiðar og rannsóknir á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:20]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir greinargóð svör og skjót viðbrögð. Ég lýsi yfir sérstakri ánægju minni með það að hann og Hafrannsóknastofnun skuli þegar hafa haft samband við Japani og gert ráðstafanir til að komast inn í alþjóðasamtök sem geta lýst okkur leiðina í leit okkar. Kannski mun betur heldur en ef við værum einir um hana.

Ég veit það eins og hæstv. ráðherra sagði að það vantar peninga til flestra hluta í dag en þegar kemur að því að reyna að finna leiðir til að efla atvinnulíf og skapa auðæfi sem munu nýtast þjóðarbúinu um ókomna framtíð þá hljótum við að leggjast allir á eitt til að finna þá. Þetta er ekki alltaf spurning um að peningar séu ekki til heldur hvernig þeir eru nýttir. En ég heiti mínu liðsinni til að finna þá og vonast til að við eigum eftir að sjá það í fjárlagaumræðunni.