Veiðar og rannsóknir á smokkfiski

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:26:08 (608)

1995-11-01 15:26:08# 120. lþ. 23.10 fundur 82. mál: #A veiðar og rannsóknir á smokkfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:26]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir áliti Hafrannsóknastofnunar um þá fsp. sem hér er borin fram. Í svari Hafrannsóknastofnunar segir svo:

,,Fram að miðjum sjöunda áratug gekk beitusmokkur að landinu og inn á firði vestan lands að jafnaði þriðja hvert ár í veiðanlegu magni. Eftir hafísárin 1965--1971 og breytilegt rennsli Atlantssjávar á Íslandsmið sl. aldarfjórðung hefur aðeins orðið vart við veiðanlegar göngur haustið 1979 og 1984. Sama var upp á teningnum við Noregsstrendur þar sem beitusmokkurinn var árlegur gestur að mjög hefur dregið úr göngum hans þangað.

Síðast varð vart við beitusmokk í verulegu magni 1984 hér við land og fóru þá fram veiðitilraunir með flotvörpu sem ekki gengu alveg upp en gáfu þó vissar vonir um að hægt væri að veiða smokkfisk í vörpu enda er það víða gert. Síðan hefur ekki gefist tilefni til frekari tilrauna í þessa veru fyrr en nú í haust. Í október sl. voru gerðar tilraunir til að veiða smokkfisk á karfamiðum suðvestur af landinu þar sem smokkur hafði ánetjast í troll skipa. Tilraunirnar voru gerðar að frumkvæði Granda hf. og með tilstyrk Hampiðjunnar um borð í frystitogaranum Örfirisey í samvinnu við sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar, Hampiðjunnar og Icecon í Reykjavík. Hér var um að ræða beitusmokk og svonefndan kolusmokk.

Tilraunaveiðarnar fóru fram á kantinum út af Grindavíkurdjúpi allt austur í Hornafjarðadjúp, mest á kantinum þar sem er 350--400 faðma dýpi. Alls staðar varð vart við smokkfisk á slóðinni en einna mest út af Öræfa- og Mýragrunni. Í tilraunaleiðangrinum í október var notað sérútbúið troll en aflinn var aldrei meiri en sem svarar 10--15 kg á togtíma. Nær helmingur aflans var ánetjaður efst í belg. Gerðar voru tilraunir með mismunandi toghraða en ýmislegt benti til þess að mun meira væri af smokkfiski en takmarkaður afli gaf til kynna.

Það var samdóma álit þeirra sem um borð voru í tilraunaveiðiskipinu að veiðarfæri þau sem notuð voru hafi ekki gefið rétta mynd af magni þess smokkfisks sem þarna var. Ekki verður því fullyrt út frá þessari tilraun hvort um veiðanlegt magn var að ræða. Telja verður þetta byrjunarskref og æskilegt að afla þeirrar þekkingar um gerð flottrolls til smokkfiskveiða og reyna frekar og þá hugsanlega víðar og á öðrum tímum árs.

Á djúpslóð sunnan við landið hafa borist fregnir af skipum við karfaveiðar með flottroll sem fengið hafa mikið af kolusmokkfiski í netin. Þetta gerðist 60 sjómílur suður af Surtsey í maí. Svipaðar tegundir hafa fundist ánetjaðar í úthafinu suðvestur af Reykjaneshrygg utan 200 mílna. Ljóst er því að þessi smokkfiskur er víða í úthafinu suður af landinu. Þetta kemur einnig vel heim og saman við mikla gengd tannhvala sem orðið hefur vart á djúpslóð sunnan og suðvestan við landið en þar er oft um hvali að ræða sem að verulegu leyti lifa á smokkfiski. Má því líklegt telja að stofnar smokkfiska djúpt innan og utan íslensku lögsögunnar séu stórir og full ástæða til að kanna það nánar.``

Ég vil af minni hálfu taka undir þá niðurstöðu sem hér kemur fram af hálfu Hafrannsóknastofnunar að það er brýnt að gera hér á frekari kannanir og það verður leitast við að stuðla að því að svo geti orðið.