Löndun undirmálsfisks

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:31:55 (610)

1995-11-01 15:31:55# 120. lþ. 23.11 fundur 112. mál: #A löndun undirmálsfisks# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:31]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fylgja úr hlaði fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. og duga hvorki fleiri né færri en fjórir fyrirspyrjendur. En þeir eru auk þess sem hér stendur, Ísólfur Gylfi Pálmason, Magnús Stefánsson og Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Fyrirspurnin er svohljóðandi: ,,Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir endurskoðun á reglum um löndum undirmálsfisks þannig að heimilt verði að landa undirmálsafla án þess að hann teljist hluti af aflamarki eða úthlutuðum veiðiheimildum?`` Ég leyfi mér jafnframt með þessari fyrirspurn að láta fylgja hvatningu, jafnvel áskorun til hæstv. sjútvrh., um að bregðast vel við fyrirspurninni eftir efni hennar. Fyrir því má færa mörg rök. Ég vil nefna þrenn rök hér.

Í fyrsta lagi er það almælt meðal sjómanna að miklu sé hent af undirmálsfiski sem skilar sér þar af leiðandi ekki á land. Svo útbreiddur er þessi rómur meðal sjómanna að ljóst má vera að hér er um verulega mikið magn að ræða. Og það er rangt að henda verðmætum.

Í öðru lagi er það sem er hugsanlega orsök þess sem var fyrst nefnt og má kalla kerfisnauð. Þar er um að ræða það sem ég vil kalla annan af veikustu hlekkjum núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis og má kalla kerfisnauð, þ.e. sjómenn með takmarkaðar aflaheimildir eru neyddir til þess að varpa undirmálsfiski í sjóinn vegna þess að þeir þurfa m.a. að flytja sem mest verðmæti í land. Þar sem minni fiskur gefur minni verðmæti en stærri fiskur skila þeir minni fisknum í sjóinn og flytja einungis þann stærri í land.

Menn hafa velt fyrir sér ýmsum tölum og heyrst hafa tölur um 50--60 þús. tonn sem lentu í sjónum aftur. Gefum okkur að einungis 15 þús. af þessu magni næðist á land og þá gæti verið um að ræða 2 milljarða verðmæti sem aukningu í þjóðarbúið sem skapar fleiri störf, öryggi fyrir sjómenn og umfram allt meira fé til styrktar velferðarkerfi okkar.

Ég nefni í þriðja lagi að hluti af stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar á stærðum fiskstofna byggist á lönduðum afla. Þegar veiddur fiskur skilar sér ekki allur á land hlýtur það að hafa bein áhrif á mælingar Hafrannsóknastofnunar sem m.a. kann að leiða til þess að það magn sem fiskifræðingar mæla með að verði veitt hverju sinni kann að vera skekkt vegna þess að grunnupplýsingar vantar.

Þó ekki væri nema af þessum þremur ástæðum hlýtur að vera rökrétt að bregðast við og bregðast við fljótt að hætti þeirra sem hér ræddu um hvalveiðimál og því spyr ég um leið og ég hvet hæstv. sjútvrh. hvort að hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir endurskoðun á reglum um þessi mál.