Löndun undirmálsfisks

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:39:50 (612)

1995-11-01 15:39:50# 120. lþ. 23.11 fundur 112. mál: #A löndun undirmálsfisks# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:39]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum að í svari ráðherra að ekki skuli vera skýrari stefnumörkun í þessu mikilvæga máli sem varðar brottkast. Ég vek athygli á tillögu þjóðvakamanna varðandi undirmálsfisk sem við lögðum fram í kosningabaráttunni og einnig eftir kosningar, þ.e. að undirmálsfiskur, sem kemur að landi utan kvóta, sé seldur á mörkuðum og andvirðið renni til málefna sjávarútvegsins svo sem slysavarna sjómanna eða hafrannsókna. Útgerðarmenn og sjómenn fengju einungis endurgreiddan kostnað við að koma fiskinum í land. Þessi hugmynd er einföld og tæki á þessu vandamáli brottkasts að hluta því að núverandi fyrirkomulag er ekki nógu gott. Vonandi verður endurskoðunin eins og ráðherra lýsti og að tekið verði alvarlega á þessu vandamáli. Ég vænti þess að samstaða geti orðið um þá hugmynd sem ég gerði grein fyrir því að starfandi menn í greininni hafa fjölmargir tekið undir þessa útfærslu.