Löndun undirmálsfisks

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:41:12 (613)

1995-11-01 15:41:12# 120. lþ. 23.11 fundur 112. mál: #A löndun undirmálsfisks# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:41]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir spurningarnar og svörin vil ég segja að ég tel að það hafi verið mistök á sínum tíma að breyta þessum reglum eins og gert var og hæstv. ráðherra rakti. Ég held að reynslan hafi sýnt það og sannað á árinu að þessi breyting á reglugerðinni hefur ekki leitt til þess sem menn höfðu auðvitað vænst, þ.e. að umgengni um lífríki hafsins batnaði. Ég held að það gagnstæða hafi því miður orðið ofan á.

Enginn vafi er á því að þetta frákast á fiski er eitt af mestu og alvarlegustu vandamálunum í íslenskum sjávarútvegi og sögur sjómanna um þetta sanna að þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál. Tvíhöfða nefndin á sínum tíma benti á að það væri mjög alvarlegur annmarki á aflamarkskerfinu sjálfu að það hvetti til þess að fiski væri kastað. Ég hvet þess vegna mjög til þess að horfið sé frá reglunni eins og hún er í dag, þ.e. að undirmálsfiskur sé talinn að fullu inn í kvóta. Það er alveg ljóst mál og reynslan hefur sýnt fram á á þessu ári að þetta leiðir bara til þess að freistingin til þess að kasta fiski verður enn þá meiri en hún var fyrir.