Aðgerðir til að draga úr launamun karla og kvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:47:13 (617)

1995-11-01 15:47:13# 120. lþ. 23.12 fundur 64. mál: #A aðgerðir til að draga úr launamun karla og kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:47]

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Launamisrétti kynjanna hefur löngum verið kvennabaráttukonum þyrnir í augum og er ofarlega í lista yfir þá þætti sem helst standa í vegi fyrir efnahagslegu sjálfstæði kvenna. Skýrslan um könnun á launamyndun og kynbundnum launamun sem kom út í febrúar sl. varpaði mjög sterku ljósi á það mál og olli því að það komst mjög eftirminnilega á dagskrá í kosningabaráttunni. Því fögnuðu að sjálfsögðu allar kvennabaráttukonur og bundu nokkrar vonir við það að öll sú umræða skilaði einhverjum ávinningi sem um munaði. Því var það að sumar okkar vissu ekki alveg hvort þær ættu að fagna eða fussa við þegar þær fréttir bárust að við lausn kjaradeilna fyrr á árinu hefði verið ákveðið að ríkið veitti af rausn sinni fé sem nýtast skyldi til aðgerða til þess að draga úr launamun kynjanna. Vitaskuld er fagnaðarefni og mjög mikilvægt að fá það viðurkennt að þarna sé vandamál sem beri að viðurkenna og taka á en vandamálið er svo stórt að einhvern veginn verkaði þessi upphæð, 3 millj. kr., á mann eins og hálfgerður brandari.

Ég minni á það að kvennalistakonur hafa lagt fram tillögur um aðgerðir og m.a. þá aðgerð að í næstu kjarasamningum verði lögð til hliðar ákveðin upphæð, t.d. 1 milljarður, sem yrði varið til að bæta lægstu laun hjá stéttum þar sem konur eru yfir 75% starfsmanna og þar sem sýnt er að um vanmat sé að ræða. Þetta yrði að gerast á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Það er náttúrlega augljóst að slík aðgerð hefur vart verið höfð í huga þegar þessi upphæð, 3 millj. kr., var ákveðin til aðgerða.

Hitt er svo annað mál að oft er mjór mikils vísir og ef vel er með þetta fé farið getur það sannarlega gagnast við einhverjar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að ráðast gegn þessu óréttlæti. Ekkert hefur frést opinberlega um það hvernig þessu fé hefur verið varið eða hvernig áætlað er að verja því og ég fékk ekki svör við fyrirspurnum þegar þetta kom fram í frv. til fjáraukalaga. Þess vegna greip ég til þess að leggja fram fyrirspurn á þskj. 64 til hæstv. félmrh. um það hvernig þeim 3 millj. kr. væri varið sem veittar voru í tengslum við kjarasamninga ASÍ og VSÍ fyrr á þessu ári vegna aðgerða til að draga úr launamun milli karla og kvenna.