Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 11:01:16 (626)

1995-11-02 11:01:16# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[11:01]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er komið til umræðu eitt af stóru málum þessa vetrar. Það var til umfjöllunar á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga enda fékkst menntmn. þá við annað afar stórt mál sem var breyting á grunnskólalögunum. Hér er framhaldsskólafrv. komið og til þess að fá yfirsýn yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í skólamálum vantar auðvitað frv. um háskólastigið og hvað meiningin er að gera þar og hvernig þetta tengist nú allt saman. Það er afar mikilvægt að horfa á allt skólakerfi okkar í heild þegar verið er að móta stefnu til framtíðar.

Hæstv. forseti. Það er ljóst að íslenska framhaldsskólastigið á við töluverðan vanda að stríða. Sá vandi felst í því að þessi hluti skólakerfisins hefur vaxið alveg gríðarlega á tiltölulega skömmum tíma eða u.þ.b. 25 árum. Það hefur orðið geysileg fjölgun nemenda án þess að námið hafi tekið samsvarandi breytingum. Þess vegna horfum við upp á að það nám sem boðið er upp á í framhaldsskólum landsins er of einhæft og of takmarkað og því býðst stórum hluta nemenda ekki upp á nám við hæfi. Ég lít svo á að það frv. sem hér er komið fram sé ákveðin tilraun til að taka á þessum vanda en ég hef samt ýmsar efasemdir um að sú leið sem hér er farin muni duga. Ég mun koma að því síðar í máli mínu.

Ég vil taka það fram strax að mér sýnist að þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. frá því í fyrra séu allar til bóta. Samt sem áður er sú spurning eftir hvort ekki hefði verið hægt að breyta skólakerfinu í þá veru að auka námsframboð og bæta starfsmenntun án þess að breyta núgildandi lögum. Því hafa samtök kennara m.a. haldið fram og í því felst auðvitað ákveðin gagnrýni á ýmislegt sem verið er að leggja til í þessu frv.

Ég ætla þá að víkja að einstökum atriðum þessa frv., eða þeim stóru línum sem mér finnst skipta máli í þessu frv. Frv. felur í sér ákveðna kerfisbreytingu þó að mestu leyti sé verið að festa í sessi þær tilraunir sem menn hafa verið að gera í skólakerfinu. Það er í raun og veru gengið út frá hugmyndinni um framhaldsskóla sem býður upp á allmargar brautir þó þær séu flokkaðar hér niður í nokkrar meginlínur, þ.e. starfsnámsbrautir, bóknámsbrautir, listnám og svo almenna braut, almenna námsbraut eins og fram kemur í 16. gr. þannig að hugmyndin byggir auðvitað á því sem fyrir er. Sú stóra spurning, sem vaknar í mínum huga varðandi þetta frv., er sú hvort með þessum breytingum sé verið að taka af skólunum möguleikann til sjálfstæðrar þróunar, möguleikann til þess að reyna ýmsar nýjar leiðir og hvort verið sé að steypa alla framhaldsskóla landsins í sama far. Það er skoðun mín að skólarnir eigi að vera mismunandi og að þeir eigi að hafa sjálfstæði til þess að þróa sig áfram. Þetta tengist auðvitað þeim breytingum sem er verið að gera á sjálfu kerfinu, á yfirstjórninni og því valdi sem menntamálaráðherra fær varðandi setningu reglugerða, varðandi skipan í skólanefndir og fleira slíkt.

Eins og þetta kerfi lítur út er menntmrh. þar efstur á toppnum. Síðan er skólanefnd yfir hverjum skóla og það er hægt að sameinast um skólanefndir ef sveitarstjórnir kjósa það, ef menn sjá sér hag í því að hafa eina skólanefnd yfir fleiri skólum. Innan skólanna eru kennarafundir og nemendaráð. Síðan kemur þetta mikla kerfi yfir starfsnámsbrautir. Þar er fyrst 18 manna samstarfsnefnd um starfsnám. Síðan er fagnefnd yfir hverju sviði. Þetta er orðið býsna mikið kerfi, starfsgreinaráð, kallast þetta í frv. Nú er ég ekki að segja að þetta sé ónauðsynlegt og að mörgu leyti er mjög æskilegt að kalla sem flesta til samráðs þegar nám er skipulagt en þetta virkar sem ansi mikið stjórnkerfi við fyrstu sýn, sérstaklega yfir starfsnámsbrautunum. Auðvitað þarf hv. menntmn. að skoða vel hvort þetta kerfi sé æskilegt.

Ég vek athygli á einu stóru atriði og spyr hæstv. menntmrh. út í það. Það er þessi hugmynd um aðalnámskrá. Nú er það svo að nám í framhaldsskólum er frjálst val nemenda þó að það sé reyndar svo í okkar samfélagi að nemendur eru undir miklum þrýstingi um að fara í framhaldsnám og því miður er það nú orðið þannig að það þykir enginn maður með mönnum nema hann hafi stúdentspróf. Ég held að það þurfi mjög mikið til að breyta þeirri hugmynd í samfélaginu. Ég hef efasamdir um að það takist að beina námsmönnum inn á nýjar brautir með því að koma upp fleiri og öflugri starfsnámsbrautum, frá bóknáminu og inn í þær greinar, sem er hugsanlega lokið á skemmri tíma. Í ýmsum skólum hefur verið reynt að bjóða upp á skemmri brautir. Að vísu var sá galli á þeim að þeim lauk ekki með neinum formlegu prófi en staðreyndin er sú að allur meginþorri nemenda, sem tekst að komast í gegnum erfiðustu hjalla bóknámsins, keppir að því að ljúka stúdentsprófi. Ég held að þetta sé orðin ákaflega sterk hugmynd í skólakerfi okkar að fólk bara verði að ljúka stúdentsprófi þó að það gefi fólki engin formleg réttindi önnur en þau að halda svo áfram á háskólastig.

Mér finnst erfitt að átta mig á aðalnámskránni í þessu frv. og þessari hugmyndafræði sem hér er á ferð, þ.e. hversu nákvæm á hún að vera? Á hún að fyrst og fremst að vera rammi utan um skólastarfið, lýsing á því hvers konar nám eigi að veita, hvaða kröfur eigi að gera, eða nær hún til þess að skilgreina nákvæmlega hvað beri að kenna og jafnvel hvaða bækur eigi að nota? Skólarnir hafa hingað til haft mikið frelsi í þeim efnum, það kemur reyndar fram í 2. gr. að það setur hver skóli sína skólanámskrá. En í mínum huga eru skilin þarna á milli mjög óljós. Hver semur þessa aðalnámskrá, hvernig verður hún samin, hvernig er það mál hugsað? Ég vildi gjarnan fá skýringu á því hjá hæstv. menntmrh.

Enn eitt stórt atriði sem ég vil koma hér að og finnst mjög vert að ræða er varðandi fornámið. Ég hef miklar efasemdir um að það sé hlutverk framhaldsskólans að gera nemendur hæfa til þess að hefja nám í háskóla. Mín skilgreining er sú að það eigi að útskrifa nemendur úr grunnskólanum þannig að þeir séu hæfir til þess að hefja nám í framhaldsskóla. Það er bent á það sem mótrök að það sé svo slæmt félagslega að sitja eftir í grunnskóla. Það sé betra að fara yfir í annan skóla en ég spyr: Hvernig virkar það félagslega að vera í fornámsskóla? Hvernig virkar það félagslega að koma inn í framhaldsskóla og ráða þar ekki neitt við neitt eins og því miður eru allt of mörg dæmi um í framhaldsskólunum? Mér finnst þetta vera mál sem virkilega þurfi að velta fyrir sér. Auðvitað á að styðja nemendur og að styrkja til þess að þeir geti haldið áfram námi sem tryggir framtíð þeirra en hvers hlutverk er það? Mundi það ekki treysta og styrkja grunnskóla að verða að sjá til þess að útskrifa sína nemendur með þeim hætti eftir því sem kostur er að þeir geti í raun hafið framhaldsskólanám? Eða á þetta heima í grunnskólunum sem aukanám þar eða á það heima í framhaldsskólunum? Mér finnst þetta vera mál sem er verulega þess virði að velta fyrir sér.

Þá kem ég að því að í þeim breytingum sem hér eiga sér stað, þ.e. sem tengjast kerfisbreytingum --- ég fer nú kannski fram og aftur í þessu --- sem eru skólanefndirnar. Við komum aftur þar að máli sem var mikið rætt varðandi grunnskólalögin, skipan skólanefndanna. Þar á sér stað veruleg breyting. Fulltrúar kennara og nemenda fara út úr skólanefndunum sem kjörnir skipaðir fulltrúar en í staðinn koma tveir, sem eru skipaðir þar samkvæmt tilnefningu sveitarstjórna --- í staðinn fyrir að það voru þrír í núgildandi lögum ---og þrír án tilnefningar ,,og skulu þeir að jafnaði búsettir í sveitarfélagi sem á aðild að skólanum`` segir hér í frv., með leyfi forseta.

Ég set stórt spurningarmerki við þetta þó að það sé auðvitað alltaf spurning hvaða áhrif starfsmenn eigi að hafa í stjórnun þeirra stofnana sem þeir vinna við. Ég veit að Skólameistarafélagið hefur gert athugasemd við þetta skipulag. Þeim finnst óeðlilegt að undirmenn þeirra gerist yfirmenn þeirra í skólanefndum. Mér finnst það mikilvæga í þessu máli að skólanefndirnar þurfa að geta unnið mjög faglega. Það þarf að eiga sér stað faglegt starf þegar verið er að taka mikilvægar ákvarðanir og mér finnst þetta vera atriði sem þarf að athuga mjög vel. Það er alveg ljóst að með þessum breytingum er verið að draga verulega úr áhrifum kennara og starfsfólks á mótun skólastefnunnar og við það set ég spurningarmerki.

[11:15]

Þá ætla ég líka að nefna það stóra atriði sem ég gerði hvað stærstar og mestar athugasemdir við í fyrra og það er hið samræmda stúdentspróf. Þar hefur að vísu verið gerð breyting. Í frv. í fyrra var gert ráð fyrir að Rannsóknastofnun uppeldismála sæi um að semja prófin. Nú hefur það verið tekið út úr frv. eins og kemur fram í greinargerð, virðulegi forseti. Þar segir: ,,Er talið eðlilegt að fleiri geti komið að þessu máli en ein opinber stofnun.``

Fyrir það fyrsta hef ég mjög miklar efasemdir um það hvort réttlætanlegt sé og rétt stefna að því að taka upp samræmt stúdentspróf. Mér finnst það einmitt beinast að þessu atriði, að það er verið að steypa öllum skólunum í einn ákveðinn farveg. Það eru ýmsar leiðir til þess að meta kennslu og árangur hennar og eins og málum háttar nú, er kennurum gert með sinni kennslu að uppfylla ákveðin skilyrði. Þeir eiga að kenna vissa hluti og gera það auðvitað og hafa til þess mismunandi kennsluaðferðir og mismunandi námsefni. Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt að taka upp þetta form þó ég skilji þá hugsun að menn vilji tryggja að ákveðnar kröfur séu uppfylltar. Það er auðvitað sú hugsun sem liggur hér á bak við, en mér finnst þetta tengjast því að það sé of mikið verið að steypa skólana í sama mótið.

Tíma mínum er að ljúka en ég þarf rétt að nefna örfá atriði. Í þessu plaggi sem var dreift til okkar þingmanna áðan er minnst á framhaldsdeildir við grunnskóla. Hér í frv. er komið inn á ýmsa möguleika til að stofna einkaskóla og til ýmiss konar samvinnu við atvinnulífið sem mér finnst allt af hinu góða. Ég fagna því að lögin skuli nú leyfa það áform sem ég ætla einhvern tíma að koma í framkvæmd að stofna kvennamenntaskóla eins og þeir vonandi gerast bestir. Ekkert kemur í veg fyrir það hér en ég vil bara minnast á það atriði að ég hef miklar efasemdir gagnvart því að stofna framhaldsdeildir við grunnskóla. Og vil gjarna spyrja hæstv. menntmrh. um hans stefnu og hugmyndir í þeim efnum. Mín röksemd er fyrst og fremst sú að ég held að því miður sé oft verið að gera nemendum mikinn óleik vegna þess að þeir kennarar, sem hægt er að bjóða upp á í grunnskólum á stöðum þar sem nokkuð langt er í framhaldsskóla, hafa einfaldlega ekki þá menntun sem til þarf.

Þá vil ég líka vekja sérstaka athygli á þeirri greiningu sem kemur fram í þessu plaggi sem dreift var um val nemenda á námsbrautum. Það val, eins og kemur fram á bls. 5, er afar athyglisvert og sýnir hvernig kynin velja sér enn þá nám eftir mjög hefðbundnum leiðum og hefðbundinni hugsun. Þar er 9. liður einmitt mjög sláandi dæmi, iðn- og tæknibrautir. Það kemur ekki fram hvort þetta eru tölur frá því í haust, frá síðasta ári, eða hvað þarna er á ferðinni. En hér kemur fram að 2.444 piltar hafa valið sér iðn- og tæknibrautir, en aðeins 337 stúlkur. Þetta vekur þá spurningu: Upp á hvað er boðið? Hvernig stendur á þessu? (Menntmrh.: Það er miðað við október 1993.) Október 1993? (Menntmrh.: Það kemur fram í upphafi skjalsins.) Já, ég var bara rétt að fletta, október 1993 kemur fram hjá hæstv. menntmrh. og ég þakka fyrir þær upplýsingar.

Þá kemur þar með að því sem verður að vera minn lokapunktur hér og það er varðandi starfsnámið. Hvað eru menn að tala um, hvernig á að hátta því, hvernig á að fjármagna það? Vegna þess að einn aðalvandi okkar skólakerfis hefur verið sá að það hefur ekki fengist fjármagn til þess að byggja upp starfsnám. Og ég vil hvetja nefndina til þess í sínu starfi að horfa nú mjög vítt á starfsnámshugtakið. Mér hefur fundist í þessari umræðu að menn séu mikið að horfa á hefðbundið iðnnám, en það eru einfaldlega stórir geirar okkar samfélags sem búa við það að þeirra starfsfólk fær ekki neina fagmenntun. Ég nefni þar t.d. verslunarstörf. Eftir því sem mér er best kunnugt, þá eru verslunarstörf, það að afgreiða í verslun, sérstakt fagnám í Þýskalandi. Ferðaskrifstofubransinn allur, þetta er sérstakt mál, og Flugleiðir hafa t.d. gripið til þess ráðs að halda sjálfir námskeið fyrir sitt fólk. Þarna eru stórar greinar þar sem þarf að koma upp starfsnámi og eflaust kemur fleira til. Það er því mjög mikilvægt að horfa yfir allan vinnumarkaðinn, horfa á þörfina fyrir starfsnámið og binda sig hvorki í hugsun né skipulagi við þetta hefðbundna iðnnám sem hefur verið boðið upp á í Evrópu í margar aldir.

Hæstv. forseti. Minn tími er búinn í bili og eins og fram hefur komið í máli mínu, þá hef ég ýmsar spurningar og efasemdir varðandi þetta frv. og ýmislegt sem þarf að skýrast og mun væntanlega skýrast í starfi nefndarinnar. Ég set spurningarmerki við þá miðstýringu og það mikla vald menntmrh. sem mér finnst koma fram í frv. Ég set spurningarmerki við þá hugsun, hvort menn eru ekki að ganga of langt í því að steypa skólana í sama mót, senda þá alla áfram í sama farveg, því að þeir hafa verið allt of mikið á sömu brautunum í þessu hefðbundna bóknámi. Þess vegna þarf að vanda hér mjög til verka, en ég fagna því að við skulum standa hér og ræða framhaldsskólann og framtíð hans og ég áskil mér rétt, herra forseti, til þess að taka síðar til máls í umræðunni ef tækifæri og ástæða gefst.