Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 11:38:48 (628)

1995-11-02 11:38:48# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[11:38]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um framhaldsskóla. Árið 1974 voru sett á þessum sama stað lög um grunnskóla. Þá stóðu barna- og gagnfræðaskólinn á tímamótum og almennt var talið að breytinga væri þörf. Með lögum um grunnskóla frá 1974 töldu flestir að nú væri lausn fundin fyrir grunnskólann og með setningu laganna gerðist það að nánast flestir grunnskólar landsins voru steyptir í sama mótið.

Um það bil 20 árum síðar komumst við að þeirri niðurstöðu að hugmyndin gekk ekki upp. Smám saman hafði verið að molna undan hugmyndinni, fjara undan henni innan skóla þar sem einstakir skólar reyndu að brjóta sig út úr því miðstýrða viðhorfi sem á þá hafði verið lagt. Á síðasta þingi voru svo samþykkt ný lög um grunnskóla og þar með staðfest lagalega að breytinga hafði verið þörf.

Ég nefni þetta í upphafi máls míns til að vekja athygli á og vara við því að heilt skólastig og þar af leiðandi margir nemendur verði steyptir í sama mótið. Það hlýtur að teljast mjög alvarlegt ef heilt skólastig hefur mistekist þegar í ljós kemur að sú allsherjarlausn og hin miðstýrða lausn hafði ekki gefið góða raun. Þess vegna fagnaði ég því sérstaklega og yfirlýsingu hæstv. menntmrh. hér og því sem segir í greinargerð með frv. á bls. 19 að stefnt skuli að því að auka sjálfstæði skólanna um ákvarðanatöku í eigin málefnum. Það er í rauninni kjarni málsins að frumkvæði komi frá skólum og í samstarfi við þá aðila sem skólarnir vinna með, þ.e. atvinnulífið.

Við höfum í áratugi talað um að efla beri starfsmenntun. Sem skólamaður minnist ég þess ekki að hafa heyrt stjórnmálamenn, fulltrúa atvinnulífsins, vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar fjalla um það á hátíðum og tyllidögum án þess að geta þess að efla beri starfsmennt. Í mínum huga er þetta orðið nánast orðaleppur vegna þess að merkingin hefur í rauninni verið afskaplega máttlaus, þar hafa verkin talað. Hvað eiga menn við þegar þeir tala um að efla beri starfsmennt? Verkin tala því að hvað inntak snertir er staða framhaldsskólans óbreytt og hefur verið óbreytt í áratugi. Þar hefur átt sér stað kerfisleg breyting, mjög jákvæð með fjölbrautakerfinu og áfangaskólum sem felur í sér stórkostlega möguleika. Hins vegar hvað inntak snertir er breytingin nánast engin.

Afleiðingin er m.a. sú að sá mikli fjöldi nemenda um og yfir 90% af árgangi úr grunnskóla, sem inn fer í framhaldsskóla, stefnir á stúdentspróf. 70% þeirra stefna á stúdentspróf sem er skilgreint undirbúningur fyrir háskólanám. En það er annað sem er öllu alvarlegra. 35--40% nemenda, sem hefja nám í framhaldsskóla, gefast upp, finna sig ekki í náminu og hrökklast úr skólanum, sannfærðir um eigin getuleysi og eigin kunnáttuleysi.

Ég vil líka benda á það að meiri hluti þeirra, sem komast í gegnum nálaraugað og ná blessuðu stúdentsprófinu, fer ekki í háskólanám heldur út á hinn almenna vinnumarkað. En eins og vitað er er stúdentsprófið ekki beinlínis starfsnám.

Ég held að það sé mjög vel við hæfi að rifja upp ágæta sögu sem ég heyrði í sumar þegar hingað komu nokkrir bandarískir auðmenn sem höfðu sérstakt dálæti á Íslandi og vildu skoða Ísland sem valkost til fjárfestinga. Segja má að þeir hafi komið hingað í lítinn matadorleik. Þeir riðu hér víða um héruð, heimsóttu fyrirtæki og stofnanir til þess að skoða hvaða möguleikar væru og hversu fýsilegur kostur Ísland væri til fjárfestinga. Síðan settust þeir niður til þess að meta þær upplýsingar sem á þá höfðu verið bornar hérlendis. Niðurstaða þeirra varð m.a. sú að hér væri margt stórskrýtið og mikið að. Þeir bentu á að annars vegar höfðu menn bæði úr opinbera geiranum og einkageiraum haldið að þeim dýrum fallegum bæklingum með hvatningu til erlendra fjárfesta um að fjárfesta hér í stóriðju. Þeir spurðu hins vegar: Hvernig er svo menntakerfi Íslendinga? Þar fannst þeim vera dálítið mikill munur á annars vegar því sem felst í stóriðjudraumum okkar Íslendinga, sem vitaskuld eru um margt nauðsynlegir, að fá hér erlenda fjárfestingu, en svo hins vegar, hvernig er menntakerfið? Þar komust þeir að þeirri niðurstöðu sem við höfðum svo sem vitað lengi að megináherslan liggur á stúdentspróf og háskólanám. Það er og hefur verið grunntónninn og hinir erlendu gestir spyrja eðlilega í framhaldi af því: Ætlum við öllu þessu háskólafólki, þeim nemendum sem menntakerfið beinir inn í háskólanám, að vinna í stóriðjunni?

[11:45]

Kjarni málsins er einmitt sá að hér vantar hina svokölluðu millimenntun, hún er nánast ekki til í framhaldsskólakerfi okkar. Menn þurfa því ekki að verða hissa á því að þeir nemendur, sem koma inn í framhaldsskóla, stefni að stúdentsprófi því möguleikar til annars náms eru svo afskaplega litlir. Það er þetta gamla hefðbundna iðnnám, örfáir sérskólar og síðan þar með upptalið. Hvert eiga þessir nemendur að fara? Möguleikarnir eru ekki fyrir hendi. Það má vekja athygli á því að mannfrekasta starfsgrein á Íslandi í dag eins og í nágrannaríkjum okkar er þjónusta. Hvar er nú þjónustan í framhaldsskóla okkar? Hún er ekki til, þjónustugreinar eru varla til.

Við tölum mikið um að efla beri fullvinnslu sjávarafla. Með hvaða hætti ætlum við að gera það? Í hverju felst fullvinnsla sjávarafla? Hún felst m.a. í því að nota mannauðinn og mannvitið. En við sjáum það ekki í skólakerfi okkar. Sennilega er eymdin í menntakerfinu hvað mest þegar kemur að fiskvinnslunni. Við sjáum hvernig Fiskvinnsluskólinn er, hann er í nokkurs konar gjörgæslu, tilraun til að bjarga honum frá aldauða. Á örfáum stöðum hafa menn verið að reyna en fyrst og síðast hefur fiskvinnslan verið notuð sem hin mikla grýla í skólakerfinu og af foreldrum. Ef þú nennir ekki að læra, ef þú stendur þig ekki í skóla þá ferðu bara í fiskinn, með þeim afleiðingum að þjóðin sem ætlar að auka fullvinnslu á sjávarafla er orðin svo merkileg með sig að hún getur ekki og vill ekki vinna í fiski og við þurfum að flytja inn í hundraða tali útlendinga til að ganga í þau störf fyrir okkur. Ég vek athygli á, í sumum tilvikum mjög vel menntaða útlendinga.

Í nýlegri skýrslu OECD um leiðir til að auka efnahagsvöxt og framleiðni í ríkjum OECD er bent á að lykilatriðið í aukinni framleiðni fyrirtækja sem undirstaða bætts efnahagslífs sé aukin og bætt starfsmenntun. Það má benda á að aðilar úr bókagerðariðnaðinum, bæði launþegar og atvinnurekendur héldu til Hollands og Belgíu síðasta sumar til að skoða hvernig bókagerðariðnaður þeirra væri í samanburði við það sem er hjá okkur. Niðurstaða þeirra var sú að þar væri umhverfið að flestu leyti það sama, kostnaður við tæki, rekstrarlegt umhverfi, skattar o.s.frv. væri allt mjög sambærilegt, en það væri einn reginmunur á og það væri hvað framlegðin og framleiðnin væri til muna lægri hér á landi. Með öðrum orðum að launakostnaðurinn væri hærri hér sem hugsanlega má rekja til þess --- það skyldi þó ekki vera --- að skortur á þessari mikilvægu millimenntun í skólakerfi okkar, sem er líklega undirstaða í bættu efnahagslífi, sé að hluta til skýringin á lágum launum.

Ég þekki nokkur dæmi þess að tilraunir einstakra skóla á síðustu árum til að rífa sig út úr þessum fjötrum vanans hefur verið stöðvað. Það hefur m.a. verið stöðvað af embættismönnum í menntmrn. með þeim rökum að lagaforsendur skorti til að fara nýjar leiðir. Það hefur verið stöðvað af ýmsum hagsmunaaðilum atvinnulífsins. Allt ber þetta að sama brunni, stefnumörkun hefur vantað á þessu sviði. Það hefur fyrir vikið m.a. myndast djúp gjá á milli skóla annars vegar og atvinnulífs hins vegar og mjög hættulegur og varasamur rígur. Af sömu ástæðu hefur um árabil legið niðri námskrárvinna af hálfu menntmrn. af eðlilegum ástæðum þar sem í bígerð hefur verið að fjalla um og fara fram með frv. til laga um framhaldsskóla með breytingum á gildandi lögum. En það er afskaplega varasamt að námskrárvinna skuli liggja niðri jafnlengi og raun ber vitni. Af öllu þessu má ljóst vera að málið þolir afskaplega litla bið.

Frv. hefur verið nokkuð lengi í fæðingu eins og fram kom í máli hæstv. menntmrh. en ég tel að með þeim breytingum sem orðið hafa geti náðst þverpólitísk sátt um þetta mikilvæga frv. Vitaskuld munu verða gerðar einhverjar breytingar á stöku atriðum í afgreiðslu þingsins en í meginatriðum tel ég að það eigi að geta náðst þverpólitísk samstaða um þetta mikilvæga mál.

Hér er í sjálfu sér ekki um neina stórbyltingu að ræða frá gildandi lögum um framhaldsskóla heldur fyrst og fremst stefnumörkun þar sem stefnan er tekin á starfsmenntun með mun ákveðnari hætti en í gildandi lögum. Ég fagna enn og aftur þeirri yfirlýsingu hæstv. menntmrh. að frumkvæðið geti og skuli koma frá einstökum skólum innan ramma námskrárinnar. Ég veit að nokkrir framhaldsskólar bíða eftir lagasetningunni til þess að geta hrint í framkvæmd þeim hugmyndum sem hafa verið þróaðar innan þessa skóla og þær hugmyndir lúta einmitt að verulega aukinni starfsmenntun. Það er mikilvægt að þátttaka atvinnulífsins sé bein í samstarfi skólanna við uppbyggingu starfsmenntunar. Það er mikilvægt að frumkvæðið komi frá skólunum og atvinnulífinu á hverjum stað, frá því baklandi sem hver skóli þjónar.

Eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir benti á virðist vera nokkuð flókið kerfi um starfsmenntun í frv. Ég vara við því að horfa á það kerfi frá menntmrh. og niður eins og hv. þm. orðaði það. Ég held að við eigum einmitt að horfa á þetta kerfi frá skólunum, byrja að neðan, hjá grasrótinni ef svo má til orðs taka því þaðan á frumkvæðið að koma og berast upp eftir píramítanum. Frumkvæðið á og mun koma, trúi ég, frá skólum og atvinnulífi. Það eru einmitt 16. og 17. gr. sem tákna þetta svigrúm, þær tákna sjálfstæði skólanna, frumkvæði heimamanna, skóla og atvinnulífs en ekki bara skólanna.

Ég vek einnig sérstaklega athygli á 35. gr. um fræðslumiðstöðvar heimamanna. Þar er stigið mjög mikilvægt og jákvætt skref þar sem segja má að felld séu saman í eina sæng atvinnulíf og skóli. Þar tel ég að sé verið á raunhæfan hátt að brúa hina illræmdu gjá á milli skóla og atvinnulífs. Það er þaðan, ekki bara í menntun fyrir framhaldsskólann, heldur ekki síður í hinni mikilvægu endurmenntun sem frumkvæðið að breytingum á að koma. Þetta er meginatriðið að mínu mati í þessu frv. Það er þessi stefnumörkun.

Mig langar aðeins í lokin að víkja að nokkrum atriðum sem hv. þm. hafa nefnt. Ég vil í fyrsta lagi segja það um samræmdu prófin að ég skil ugg hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmd samræmdra prófa. Í mínum huga er ekki verið að ræða um samræmd próf með sama hætti og við þekkjum í grunnskólanum í dag þar sem þau eru beinlínis bundin við brautskráningu. Samræmd próf geta verið með ýmsum hætti og eru nauðsynleg. Í mínum huga eru enn mikilvægari samræmd könnunarpróf sem lögð eru fyrir alla skóla þannig að þeir fái svo til baka niðurstöður miðaðar við landsmeðaltal og geta notað þær niðurstöður í sjálfsgagnrýni sína og í matinu á skólastarfi. Varðandi fornámið tel ég ekki nokkurn vafa miðað við þá reynslu sem gefist hefur í nokkrum skólum, t.d. Menntaskólanum í Kópavogi og Fjölbrautaskóla Suðurnesja, að fornámsnemendur eigi að fylgja jafnöldrum sínum í stað þess að sitja enn eitt ár í grunnskóla, í þeim sama grunnskóla og þeim hefur vegnað illa. Það er þá ástæðan fyrir því að þeir eru skilgreindir fornámsnemendur. Það er mikilvægt fyrir þessa nemendur að geta fylgt félagsskapnum og geta skipt um umhverfi og rifið sig frá því umhverfi sem þeim hefur ekki vegnað vel í og tekist á við vel skipulagt heilsársfornám með jafnöldrum sínum. Ég óttast ekki, miðað við reynslu úr fjölbrautaskólum þar sem nemendur eru á ólíkum brautum, að þessir nemendur muni verða fyrir aðkasti, þeir munu einfaldlega falla inn í hið fjölbreytta úrval sem er innan fjölbrautaskóla. Ég vil jafnframt vara við því að tala um hið dýra starfsnám. Ef við tölum um að starfsnám sé endilega svo dýrt þá byggir það á þessari föstu gömlu hugmynd okkar að starfsnám sé hið gamla iðnnám. Þá erum við að hugsa í rennibekkjum og dýrum tækjum af þeim toga. Við erum núna að tala um starfsnám á öllum sviðum. Ég nefndi fyrr í námi mínu að þjónusta væri fjárfrekasta atvinnugrein á Íslandi og í þeirri undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið í nokkrum skólum er einmitt gert ráð fyrir að starfsnámið sé eðlilegur þáttur og þar er ekki verið að tala um dýra fjárfestingu í tækjum. Ég minni jafnframt á það sem stendur hér í frv.: ,,samspil skóla og atvinnulífs um starfsþjálfun``. En það er líka mjög dýrt að 35--40% nemenda í dag skuli gefast upp í námi. Það er líka mjög dýrt.

Varðandi skólanefndirnar er ég þeirrar skoðunar að skólum, sjálfstæðum skólum eins og öðrum fyrirtækjum, sé nauðsynlegt að hafa stjórn. Ég vara við því að lítið sé gert úr áhrifum kennara og nemenda. Það kemur fram í þessu frv. svipað og er í dag um að öll innri mál um þróun innra starfs skólans koma kennarar að með mjög markvissum og áhrifamiklum hætti þar sem eru skólaráðin. Hins vegar er eðlilegt að mínu mati að yfirstjórn skólanna, skipuð fulltrúum sveitarfélaga og atvinnulífs, sé ekki úr röðum skólamanna sjálfra, þeirra sem starfa. En áhrif skólamanna eru veruleg innan skólanna og bendi ég jafnframt á eins og tíðkaðist áður að kennarar og nemendur sátu skólanefndarfundi með málfrelsi og tillögurétt og höfðu mikið til mála að leggja og á þeim var gjarnan mikið mark tekið.

Að lokum, herra forseti, vil ég hvetja til þess og trúi því að um þetta frv. náist þverpólitísk samstaða. Ég tel að málið þoli ekki mikla bið. Ég óska þess mjög að það komist hratt í gegnum þingið. Hér hefur verið mörkuð stefna í átt til aukinnar starfsmenntunar. Námskrárvinnan er öll eftir. Hún fer væntanlega ekki af stað fyrr en frv. hefur orðið að lögum og ég segi enn og aftur: Frumkvæðið á og mun samkvæmt frv. koma frá skólunum í samstarfi við atvinnulífið þar sem skóli og atvinnulíf fara saman hönd í hönd. Þaðan kemur frumkvæðið, það er það sem atvinnulíf okkar og efnahagur þurfa á að halda.