Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:19:45 (630)

1995-11-02 12:19:45# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:19]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns um ummæli mín varðandi starfsnámið nefndi ég einmitt það að óljóst væri hvað átt væri við í frv. með starfsnámi og ég varaði við því að menn horfðu á það í þröngum skilningi eins og mér hefur fundist vera gert í umræðum á undanförnum árum. Ég var ekki að segja að það væri í frv. Það er mjög opið í frv. og einmitt þess vegna spurði ég hvað væri átt við og hvað fælist í þessu. Ég fagna því ef þeir sem unnu þetta frv. á lokastigi hafa þennan breiða skilning vegna þess að það er virkilega þörf á því.

En ég spyr jafnframt hvað atvinnulífið vill. Hvað er atvinnulífið reiðubúið til þess að gera í þessum efnum? Ég minni á rannsókn Gerðar G. Óskarsdóttur þar sem hún spurði mjög marga atvinnurekendur og gerði könnun á viðhorfum atvinnurekenda og þar kom fram þessi sláandi niðurstaða að þeir virtust meta menntun ákaflega lítils. Það er vert að velta því fyrir sér hvaða afstaða er ríkjandi í atvinnulífinu. Hvernig stendur á því að atvinnulífið hefur ekki beitt sér miklu meira í þeim efnum að mennta vinnuaflið þegar menn vita það að betur menntað vinnuafl eykur framleiðni og bætir vinnuumhverfi? Bent hefur verið á að það sé kannski besta leiðin til þess að bæta efnahagsástand hér á landi og að auka afköstin í atvinnulífinu að mennta vinnuaflið. En ef skilninginn skortir hjá þeim sem stjórna atvinnulífinu, þá spyr ég bara: Ætlum við að fyrirskipa atvinnulífinu eða hvernig á þessi samvinna við atvinnulífið að fara fram? Það er mjög mikilvægt að átta sig á því. Hver er vilji þeirra sem reka fyrirtækin?