Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 14:17:45 (653)

1995-11-02 14:17:45# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[14:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þær málefnalegu umræður sem hér hafa farið fram um þetta mikilvæga frv. Ég er sammála þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið að æskilegt er að ná sem víðtækastri samstöðu um afgreiðslu málsins. Ég er einnig þeirrar skoðunar og tek undir það með hv. þm. Hjálmari Árnasyni að þetta mál þolir varla lengri bið. Þetta er þriðja þingið sem það er lagt fram á. Frv. hefur fengið góða meðferð utan þings. Komið hafa fram umsagnir og athugasemdir og það hefur fengið skoðun á milli þinga og það hefur verið tekið tillit til margra sjónarmiða sem fram hafa komið og tekið mið af þeim við lokagerð frv.

Að sjálfsögðu, eins og hér hefur komið fram í þessum málefnalegu umræðum, eru atriði sem hv. menntmn. mun líta til í afgreiðslu sinni og ég efast ekki um að unnt verður að komast að niðurstöðu. Að sjálfsögðu er aldrei hægt að tryggja hér á þessum stað að menn verði sammála um allt en ég held að menn ættu að geta verið sammála um það, eins og þessar umræður hafa hnigið, að brýnt er að koma á nýrri skipan á framhaldsskólastiginu. Í raun og veru liggja ekki fyrir aðrar betri tillögur en þær sem koma fram í þessu frv. og sú meginstefna sem þar er mótuð.

Nokkrar spurningar hafa komið til mín vegna frv., m.a. frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttir, þar sem hún ræddi um hvað fælist í aðalnámskrá, hvað það væri sem aðalnámskráin ætti að taka af skarið um. Það kemur fram í 21. gr. frv. þar sem segir að aðalnámskráin sé meginviðmiðun skólastarfs. Þar segir einnig: ,,Í henni eru útfærð markmið framhaldsskóla og skilgreind markmið einstakra námsbrauta og námsgreina, svo og námslok. Í aðalnámskrá skulu vera almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda.

Í aðalnámskrá skal kveðið á um uppbyggingu einstakra námsbrauta, samhengi í námi og meðallengd námstíma á hverri braut. Þar er ákveðinn lágmarksfjöldi kennslustunda í einstökum námsgreinum og inntak í megindráttum.``

Þar skal einnig mælt fyrir um námsmat og próf og annað slíkt eins og rakið er í greininni og síðan einnig ítarlega í greinargerð um þessa grein. Ég vitna einnig í greinargerðina á bls. 18, þar sem segir, með leyfi herra forseta:

,,Þar eru ákvæði um aðalnámskrá framhaldsskóla sem skólastarf á framhaldsskólastigi byggist á. (21. gr.) Í henni skal skilgreint allt nám sem í boði er í hinu opinbera framhaldsskólakerfi og markmið einstakra námsbrauta og uppbygging þeirra, svo og markmið einstakra námsgreina og námsþátta.``

Ég held að þetta sé mikilvægt stjórntæki sem þurfi að vera virkt og þannig fram sett að ekki sé um nein vafaatriði að ræða, m.a. vegna samþættingar í námi og til þess að það myndist engar blindgötur á þessu skólastigi. Það er eitt af vandamálunum sem við stöndum frammi fyrir núna. Eins og vikið var að í máli hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, hefur þetta skólastig þróast með næsta sérkennilegum hætti á undanförnum 20 árum eða svo og það þarf að koma böndum á það, ef ég má orða það svo.

Sumir tala um að í þessu frv. felist of mikil miðstýring. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvað í því orði felst en ég held að í frv. felist fyrst og framst viðleitni til þess að ná utan um skólastigið, setja því ákveðnar starfsreglur og ákveðinn ramma og þar er aðalnámskráin afar mikilvæg. Reynt er að koma í veg fyrir að á þessu skólastigi sé um blindgötur að ræða sem nemendur komist ekki út úr og þurfi kannski að fara til baka og byrja upp á nýtt ef þeir hafa farið inn á vitlausar brautir. Það er slík viðleitni sem felst í ákvæðinu um aðalnámskrána og því sem hún á að gegna. Þar á ekki að mæla fyrir í smáatriðum um innra starf skóla eða setja því of þröngar skorður því eins og fram hefur komið er það skynsamlegt viðhorf að frumkvæði komi ekki síður frá skólanum en frá yfirvöldum menntamála og að skólarnir viti að þeir hafi svigrúm þó þeir þurfi auðvitað að fara eftir ákveðnum ramma. M.a. með hliðsjón af því að skólastarfið falli að lokum í eina mósaikmynd, ef ég má nota það hugtak, og menn séu ekki að fara í ólíkar áttir heldur viti hvar farvegurinn er og hvernig hann á að vera. Til þess er aðalnámskráin.

Varðandi fornámið sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gerði að umtalsefni þá er í sjálfu sér í 18. gr. frv. ekki verið að tala um neina breytingu frá því sem er, að fornámið verði við framhaldsskólana. Það hafa verið uppi viðhorf um það hvort það eigi frekar að vera í grunnskólunum og gefa mönnum færi á að halda þar áfram til að búa sig betur undir þátttöku í framhaldsskólanum. En eins og fram kom, m.a. í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar, er talið af ýmsum ástæðum æskilegra að nemendurnir skipti um umhverfi, fari úr grunnskólanum og fari inn í nýtt umhverfi í framhaldsskólanum, samanber athugasemdir við 18. gr. á bls. 31, en þar er því nánar lýst hvað á bak við þessa grein býr. Ég get í sjálfu sér tekið undir með hv. þm. Hjálmari Árnasyni að þessi skipti kunna að vera nemendunum heppileg og kunna að auðvelda þeim framhaldið.

Hitt er augljóst, og það hafa komið til mín fulltrúar bæði foreldra og kennara grunnskólabarna og þeirra sem eru að ljúka grunnskólaprófi og eru að fara inn í framhaldsskólann, að fyrir marga nemendur sem eiga erfitt með nám er skólakerfið næsta --- ja ekki vil ég segja fjandsamlegt --- en erfitt eins og nú er komið málum. Og eftir að þrengdist um á atvinnumarkaði eiga margir nemendur, sem hefðu áður e.t.v. farið út á vinnumarkaðinn beint eftir grunnskólann, þess ekki lengur kost. En framhaldsskólinn er ekki með neinar stórar dyr sem taka við þessu fólki. Það er vandamál sem við þurfum að fjalla um og taka á. Það er hér starfandi við Iðnskólann í Reykjavík deild sem tekur við nokkrum nemendum. En fjöldinn er meiri og það er m.a. verið að fjalla um það varðandi skipulag á Borgarholtsskóla, nýjum framhaldsskóla hér á Reykjavíkursvæðinu, að hann taki að sér verkefni á þessu sviði. Það er nauðsynlegt að huga að þessum fjölda nemenda. Það er talið að hér á Reykjavíkursvæðinu sé kannski um að ræða 70--100 manns sem þarf að sinna með þessum hætti og hafa í huga við umræður um fornám. En við þurfum einnig að skapa þessu fólki leið í framhaldsskólakerfinu sem getur búið það undir störf við þess hæfi. Og það snertir m.a. þær umræður sem hér hafa verið um fjölbreytt framboð á störfum og starfsnámi í skólanum.

Þetta vildi ég segja um fornámið og það vakti mig til umhugsunar um þennan hóp nema sem við þurfum að hafa í huga og hægt er að gera betur við en við núverandi kerfi. Ég tel að samþykkt þessa frv. muni auðvelda okkur að takast á við þann vanda sem er töluverður og mjög alvarlegur fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um skólanefndirnar og skipan þeirra. Ég tel að sterk rök hafi komið hér fram í umræðunum um það að sú skipan sem mælt er fyrir um í frv. sé skynsamleg og ætla í sjálfu sér ekki að eyða mörgum orðum um það efni. Menn geta haft mismunandi sjónarmið og grundvallarviðhorf í þessu máli. Ég hallast að því viðhorfi sem kemur fram í 6. gr. og tel að það sé skynsamlegt að stíga það skref sem þar er mælt fyrir um. Ég minni á að hér hefur einnig komið fram að í umfjöllun um skólaráð í 8. gr., er komið til móts við margt af því sem menn hafa rætt um nauðsyn þess að nemendur og kennarar komi að stjórn skóla og stefnumótun í skólastarfinu.

Um samræmdu prófin hafa menn töluvert rætt og það er um þau fjallað í 24. gr. Þar segir að lokapróf skuli vera samræmd í tilteknum greinum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Síðan er í gildistökugreininni sagt að þessi grein eigi að koma til framkvæmda að fullu ekki fyrr en skólaárið 2000--2001. Hér er um mál að ræða sem hægt er að útfæra með ýmsum hætti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að samræmd könnunarpróf koma að sjálfsögðu til álita og er sjálfsagt að undirbúa þetta skref eins og frv. gerir ráð fyrir. Menn ættu að gefa sér góðan tíma til að framkvæma þetta. Ég held sjálfur að það sé nauðsynlegt að koma á samræmdum prófum í okkar framhaldsskólum. Það er ekkert nýmæli hér. Áður fyrr voru stúdentsprófin samræmd og í sjálfu sér er það ekki byltingarkennt að vekja máls á því aftur. Hvernig að þessu verður staðið í framkvæmd ætla ég ekki að fullyrða um á þessu stigi því að mér finnst sjálfsagt að heyra m.a. þau viðhorf sem fram koma í störfum menntmn. um þetta mál. En ég hvet til þess að menn hrófli ekki við því að samræmd próf skuli vera í tilteknum greinum í framhaldsskólanum. Það er nauðsynlegt ekki síst til þess að menn hafi einhverja almenna mælistiku til að geta beitt þegar þeir leggja mat á starfsemi framhaldsskólanna. Og það er til marks um þá sundurleitu krafta sem verið hafa innan skólakerfisins að slíkt skuli ekki vera í gildi nú þegar, að menn hafi slíkar samræmdar mælistikur. Með þessu yrði henni komið á hvernig sem við mótum hana og hrindum henni í framkvæmd.

Varðandi framhaldsdeildir grunnskólanna sem hv. þm. vakti máls á er ætlunin að leggja þær niður en framhaldsskólarnir geta hins vegar skipst upp innan ákveðinna svæða eins og við vitum. Fjölbrautaskólanum á Akranesi er t.d. skipt upp í nokkrar deildir, m.a. deild sem starfrækt er í Reykholti.

Varðandi það sem fram kom hjá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um skiptingu landsins í skólasvæði langar mig aðeins til að nefna að ég lít þannig á að eins og þetta frv. er úr garði gert verði ekki um slíka skiptingu að ræða. Ég lít líka þannig á að það verði ekki unnt að beita landfræðilegum rökum við útilokun nemenda frá framhaldsskólum eins og gert hefur verið og hafa þær reglur sem hafa verið í gildi um það efni valdið deilum og ágreiningi þannig að þarna er verið að fara inn á nýjar brautir. 15. gr. mælir fyrir um inntökuskilyrðin og hún hefur verið hér til umræðu og ég þarf ekki að rekja það. Því hefur verið lýst vel hvað í þeirri grein felst.

[14:30]

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði einmitt athugasemdir við 15. gr. Hann er á móti því að inntaka verði með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Ég tel hins vegar að það skref sem þarna er stigið og þessar reglur séu mjög til bóta og auki skilvirkni í skólastarfinu og sé til þess fallið að skólarnir veiti betri þjónustu en þeir geta gert núna og nemendur viti betur um eigin stöðu en nú er og að það felist ekki neitt ranglæti í þessum ákvæðum, þvert á móti sé þarna mælt fyrir um skynsamlegar aðferðir við inntöku manna í skóla.

Varðandi 41. gr. um einkaskólana, sem hann gerði einnig athugasemdir við, er þar ekki verið að skipta mönnum með neinum hætti með því að veita þessar heimildir. Þvert á móti er verið að gera mönnum, sem starfrækja núna skóla, annars vegar kleift að fá viðurkenningu menntmrh. á því starfi ef þeir óska eftir því og það ætti að styrkja þessa skóla í sessi. Aðrir sem óska eftir styrk af almannafé verða að uppfylla önnur skilyrði og það er Alþingis að ákveða slíkt þannig að það verður ekki þar um neina sjálftöku að ræða, þvert á móti er undir ákvörðun Alþingis komið hvernig að þeim málum verður staðið.

Ég tel að gildistökuákvæðin séu ekki óeðlileg í þessu lagafrv. Það er mælt fyrir um að gildistakan sé frá 1. ágúst 1996 og síðan er gefið svigrúm til þess í tíma að hrinda einstökum ákvæðum laganna í framkvæmd sem ég tel skynsamlegt í jafnviðamiklu máli og þetta er til þess að unnt sé að hafa eðlilegt samráð og standa þannig að málum að ekki sé rasað um ráð fram og að undirbúningur allur sé með þeim hætti að óeðlileg tímamörk ýti ekki á eftir mönnum heldur gefist tóm til að standa vel að þessum undirbúningi.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um frv. til laga um háskólastigið er það að segja að nú eru starfandi 13 skólar sem teljast á háskólastigi og hafa m.a. verið gerð drög að því frv. um háskólastigið sem verið er að vinna að og ætlunin er að leggja fram. Ég vona að það verði unnt að leggja það fram hér á þessu þingi sem nú er eins og boðað var í plaggi með stefnuræðu forsrh.

Herra forseti. Tíminn leyfir ekki að ég svari öllum þeim fyrirspurnum sem ég hef fengið þannig að ég verð að ljúka máli mínu til að lúta reglum þingskapa.