Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 14:34:15 (654)

1995-11-02 14:34:15# 120. lþ. 25.3 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[14:34]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Till. sú til þál. sem ég mæli fyrir og fjallar um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna er flutt af þingkonum úr öllum flokkum sem nú sitja á þingi, auk mín þeim: Ástu R. Jóhannesdóttur, Kristínu Ástgeirsdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur, Láru Margréti Ragnarsdóttur og Siv Friðleifsdóttur.

Það segir nokkuð til um mikilvægi þessa máls og er vonandi til marks um samstöðu um málið á þingi þegar að afgreiðslu tillögunnar kemur.

Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna. Nefndin vinni í samráði við Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands að því að efla íþróttir stúlkna og kvenna og leitist við að koma í veg fyrir eða minnka hið mikla brotthvarf stúlkna úr íþróttum. Þá skoði nefndin sérstaklega umfjöllun fjölmiðla um íþróttir stúlkna og kvenna, hvaða fjármagn sé veitt til stúlkna- og kvennaíþrótta, skiptingu kynjanna í forustu íþróttahreyfingarinnar og aðra þá þætti sem geta haft áhrif á stöðu stúlkna- og kvennaíþrótta. Meðal annars verði litið til þess sem gert hefur verið erlendis í átt til umbóta í þessum efnum.``

Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni er málefnið ekki nýtt af nálinni. Svipuð tillaga var flutt á 115. löggjafarþingi og að henni stóðu allar konur sem sátu á þingi hvar í flokki sem þær voru. Samkvæmt ályktun þessari skyldi ríkisstjórnin beita sér fyrir því að átak yrði gert til að efla íþróttaiðkun kvenna, áhersla skyldi lögð á mikilvægi íþrótta í líkamlegu og félagslegu uppeldi og sem fyrirbyggjandi aðgerð til að bæta heilsu og vinnuþrek. Fjárframlög ríkisins til íþrótta skyldu veitt með það að markmiði að gera íþróttaiðkun kvenna og karla jafnhátt undir höfði.

Nú er það svo að þingið samþykkti þessa ályktun. Á 116. þingi var lögð fram fyrirspurn til menntamálaráðherra um það til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hefði gripið í framhaldi af samþykkt ályktunarinnar. Ráðherra varð fátt um svör um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafði haft í frammi. En hann vitnaði sérstaklega í væntanlegar niðurstöður könnunar sem Þórólfur Þórlindsson og fleiri gerðu um þátttöku ungmenna í íþróttum og samspil íþróttaiðkunar og annarra þátta í lífi ungmennanna. Taldi ráðherrann að rannsóknin mundi varpa ljósi á viðhorf, þátttöku og áhuga pilta og stúlkna í íþróttum og að nýta mætti niðurstöðurnar til eflingar íþróttaiðkun kvenna.

En nú eru niðurstöðurnar úr skýrslu Þórólfs og félaga komnar, þær voru birtar í ágúst á síðasta ári og þær gefa okkur fullt tilefni til aðgerða. Dr. Gunnar Valgeirsson, sem hefur sérstaklega rannsakað íþróttaiðkun kvenna, segir um könnun Þórólfs og félaga sem voru birtar í bókinni um gildi íþrótta fyrir íslensk ungmenni, með leyfi forseta:

,,Þátttaka pilta og stúlkna í íþróttum er ólík hvað nokkra þætti varðar. Nokkuð fleiri stúlkur stunda aldrei íþróttir og færri þeirra stunda íþróttir fimm sinnum í viku eða oftar. Þetta kemur skýrast fram í íþróttaþátttöku með íþróttafélögum þar sem þessi munur er mestur. Þessi munur eykst einnig með aldri.

Höfundar bókarinnar benda réttilega á að ástæður fyrir því að stúlkur byrji síður í íþróttum og hætti fyrr séu margslungnar. Vissulega eru hér á ferðinni samspil ýmissa félagsþátta svo sem stuðningur foreldra og þjálfara og fjölmiðlaumræða en mikilvægt væri að athuga frekar hvað það væri í rekstri íþróttafélaga sem hér hefur áhrif. Þeim sem vel þekkja til reksturs íþróttafélaga er nokkuð kunnugt um að stúlkur fá minni stuðning frá félögunum en piltar. Þær eru mun líklegri en piltar til að þurfa að fjármagna þátttöku sína alfarið með sjálfboðavinnu og þær fá venjulega mun verri tíma og æfingaaðstöðu. Í könnuninni kemur skýrt í ljós að brottfall stúlkna er hærra en pilta í íþróttum og hækkar með aldri.

Það væri verðugt verkefni fyrir íþróttahreyfinguna sjálfa að kanna þetta atriði mun nánar og reyna síðan að jafna hlut kvenna mun betur en hingað til hefur þegar verið gert,`` segir Dr. Gunnar Valgeirsson.

Gunnar hefur einnig bent á erlendar rannsóknir sem benda til þess að íþróttaiðkun hafi jákvæð áhrif á sjálfsvirðingu, líkamsmynd og andlega líðan og dregur úr þunglyndi og streitu. En hann bendir líka á að þessara þátta gæti enn meir hjá stúlkum en drengjum í könnun Þórólfs og félaga.

Auk könnunarinnar, sem birt var í ágúst 1994, hafa fleiri kannanir verið gerðar og sérstaklega hefur verið horft í átt til stúlkna- og kvennaíþrótta. Ber þar fyrst að nefna könnun sem gerð var af Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála að frumkvæði og í samvinnu við þróunarhóp umbótanefndar ÍSÍ um kvennaíþróttir á árinu 1994. Sú könnun sem gerð var í 8. bekk á meðal rúmlega 800 nemenda fjallaði um brottfall stúlkna úr íþróttum og fylgja tvær myndir úr henni með tillögunni sem hér er lögð fram. Fyrri myndin sýnir að samkvæmt könnuninni er marktækur munur á íþróttaiðkun pilta og stúlkna í þessum hópi og að mun fleiri piltar en stúlkur iðka íþróttir á hverjum degi. Þar er hlutfall drengja 39,9% en aðeins 12,6% stúlkna iðka íþróttir á hverjum degi. Ef við lítum hins vegar á þá sem iðka íþróttir aðeins einu sinni í viku eða sjaldnar snýst hlutfallið algjörlega við. Piltar eru þar 13,5% en stúlkur 34%.

Seinni myndin sem fylgir með tillögunni sýnir íþróttaiðkun nemenda í skóla fyrir utan skyldutíma í leikfimi. Þar má sjá að meira en helmingur stúlkna en tæplega 23% pilta hafa aldrei tekið þátt í slíkum íþróttum eða gera það ekki lengur. Hlutföllin snúast við þegar við komum að þeim sem stunda oft íþróttir utan skóla. Af þeim nemendum sem iðka slíkar íþróttir fjórum sinnum í viku eða oftar eru strákar 38% en stelpur 11,5%.

Í helstu niðurstöðum könnunarinnar segir að margt sé ólíkt með aðstæðum og viðhorfum pilta og stúlkna til íþrótta og af því megi ráða ýmislegt um ástæður þess að stúlkur stundi síður íþróttir en strákar. Það segir líka að í ljós hafi komið í könnuninni að hvatning skipti miklu máli og að foreldrar, afi og amma, vinir og íþróttakennarar hvetji stelpur að jafnaði minna til íþróttaþátttöku með íþróttafélögum. Segir í niðurlagsorðum könnunarinnar að hér sé um mjög alvarlegar niðurstöður að ræða og að líklega sé þar að finna verulegan þátt í ástæðum brottfalls stúlkna úr íþróttum.

Þá voru nýlega kynntar niðurstöður úr könnun sem umbótanefnd ÍSÍ lét gera í samvinnu við ÍM Gallup um kvennaíþróttir og fylgir útdráttur úr þeirri könnun með tillögunni. Í henni koma fram margar áhugaverðar niðurstöður. M.a. má af henni sjá að það er almenn skoðun að kvennaíþróttir fái of litla umfjöllun í fjölmiðlum. Þessar niðurstöður samrýmast ekki því sem gjarnan heyrist þegar sjónvarpsstöðvar og aðrir fjölmiðlar eru gagnrýndir fyrir að leggja ofuráherslu á meistaraflokk karla í umfjöllun sinni um íþróttir. Þá er því gjarnan svarað til að eftirspurn ráði, fólk nenni einfaldlega ekki að horfa á kvennabolta eða kvennaíþróttir. Það væri reyndar forvitnilegt að vita hver sé stefna ríkissjónvarpsins í þessum málum því að mínu mati hlýtur slíkur fjölmiðill að hafa einhverjar skyldur í þessum efnum umfram aðra fjölmiðla.

Hv. þingkona Kristín Ástgeirsdóttir lýsti í eldhúsdagsumræðum um daginn eftirminnilegum kynnum sínum af prinsinum af Svasílandi sem hún kynntist á hinni margumtöluðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna í Kína.

Ég var fulltrúi á ráðstefnu óháðra félagasamtaka sem fram fór á sama tíma og varð þar líka fyrir afrískum áhrifum. En á nokkurn annan hátt heldur en Kristín. Ég sat þar fund sem haldinn var af konum frá Simbabve og fjölluðu þær um aðgerðir þar í landi til að efla íþróttaiðkun stúlkna og kvenna. Það kom mér á óvart hvað þessar konur áttu margt sameiginlegt með okkur hér á norðurhjara veraldar í þessum málum. Þrátt fyrir erfiðara umhverfi hefur þarlendum konum orðið heilmikið ágengt í átt til framfara með samstarfi íþróttahreyfingarinnar og kvenna úr kvennahreyfingunni. Þær höfðu setið alþjóðlega ráðstefnu í Brighton á Englandi á síðasta ári þar sem samþykkt var sérstök yfirlýsing um konur í íþróttum og höfðu óspart nýtt sér það sem þeim lærðist þar. En Brighton-yfirlýsingin er einmitt vitni um að hér sé um alþjóðlegt vandamál að ræða, enn eitt birtingarform þess misréttis sem stúlkubörn og konur búa við víða um heim.

En þegar litið er til útlanda þá er Noregur kjörið dæmi um það hvernig hægt er að breyta málum í átt til framfara ef átakið er samstillt á milli íþróttahreyfingarinnar og stjórnvalda. Norðmenn hafa gert íþróttastefnu fyrir tíunda áraguginn og í henni er m.a. tekið sérstaklega á íþróttaiðkun stúlkna og kvenna. Árið 1987 var samþykkt í íþróttahreyfingunni að hafa kynjakvóta í öllum nefndum, ráðum og nefndum norska íþróttasambandsins og skyldi hann vera í hlutfalli við fjölda karla og kvenna í hreyfingunni, þó þannig að minnst væru tveir fulltrúar af hvoru kyni. Aðeins er heimilt að gera undantekningar í sérstökum tilvikum frá þessu. Þá samþykkti ríkisstjórnin sérstaka ályktun um konur og íþróttir þar sem hún lýsir því markmiði sínu að betrumbæta þá mynd sem komið hafði fram í fjölda kannana um þessi mál. Sérstöku fé var varið til þess að auka hlutfall kvenna í þjálfarastöðum.

Árangurinn af áhuga norskra stjórnvalda á íþróttamálum stúlkna og kvenna hefur ekki látið á sér standa. Norskar íþróttakonur eru hvarvetna í fremstu röð í heiminum og hafa stórbætt árangur sinn á síðustu árum. Þær eru heimsmeistarar kvenna í fótbolta, silfurhafar í handbolta og margfaldir meistarar í skíðaíþróttum og svo mætti lengi telja.

Herra forseti. Það er verkefni stjórnvalda að taka á því mikla brotthvarfi kvenna úr íþróttum eins og fjöldi kannana hefur sýnt fram á. Það er kominn tími til að gera eitthvað í málunum því fleiri kannana er varla þörf.

Hér hefur verið lögð fram tillaga til úrbóta í þessum efnum þar sem áhersla er lögð á samstarf íþróttahreyfingarinnar og stjórnvalda í því skyni að bæta þá slæmu mynd sem kannanir sína.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. menntmn.