Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 14:53:34 (656)

1995-11-02 14:53:34# 120. lþ. 25.3 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[14:53]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í þeirri umræðu sem átti sér stað fyrr á þessum degi um framhaldsskólafrv. kom hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason inn á það atriði hversu mikilvægt það væri að tengja líkamsrækt við markmið skóla. Mér finnst hugsun hans tengjast þeirri tillögu sem hér er á ferð því að íþróttir tengjast eins og fram er komið hjá þeim ræðumönnum sem tekið hafa til máls um þessa tillögu auðvitað góðri heilsu og vinnuþreki sem skiptir alla miklu máli í daglegu lífi.

Sú tillaga sem hér er til umræðu gengur út á að stefna verði mörkuð í íþróttum stúlkna og kvenna og þegar ég tala um íþróttir er það í víðustu merkingu, íþróttir fyrir alla, hvers konar íþróttir og líkamsrækt.

Sjúkraþjálfari einn sem ég þekki, sem hefur stundað töluverðar rannsóknir á því fólki sem til hans leitar og hefur sérstaklega fengist við íþróttir, heldur því fram, og vísar þar til samanburðar við Noreg, að íslenskar konur séu mun verr á sig komnar líkamlega en stallsystur þeirra í Noregi. Hann skýrir það með því að íþróttakennsla í skólum landsins sé ekki nægilega góð og þá sérstaklega ekki íþróttakennsla stúlkna og svo það sem fram kemur í greinargerð frv. og töflurnar sýna sem hér eru birtar að stúlkur hætta íþróttaiðkun miklu fyrr en strákar. Þess vegna er ekki síst mikilvægt að í þeirri stefnumörkun, sem á vonandi eftir að fara fram, felist tillögur um það hvernig hægt er að hvetja stúlkur til þess að halda áfram íþróttaiðkun og líkamsrækt. Þetta þarf að fara saman og ég tek alveg sérstaklega undir þau sjónarmið að íþróttaiðkun og almenn líkamsrækt er með því besta sem hægt er að gera til þess að bæta heilsu og draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Þetta er einmitt dæmi um þær breyttu áherslur sem þurfa að eiga sér stað.

Það sem tengist konum sérstaklega í þeim efnum er það að tölur sýna að konur leita til lækna í mun ríkara mæli en karlar. Ýmsir sjúkdómar herja fremur á konur en karla hér á landi svo sem hvers kyns álagssjúkdómar vegna mikillar og einhæfrar vinnu. Þetta hafa rannsóknir sjúkraþjálfara m.a. sýnt fram á.

Við vinnslu þessarar tillögu hafa flutningsmenn aflað sér ýmissa gagna og ég er hér m.a. með lítið rit sem heitir The European Women in Sport en það hefur átt sér stað töluvert samstarf milli íþróttasamtaka í Evrópu varðandi stefnumótun í íþróttum kvenna. Meðal helstu markmiða sem íþróttasamböndin hafa sett sér er í fyrsta lagi að auka þátttöku kvenna í íþróttum. Í öðru lagi er bent á nauðsyn þess að fjölga kvenþjálfurum, einkum í þeim íþróttagreinum sem stúlkur sækja sérstaklega, og jafnframt að auka hlut kvenna í stjórnum og ráðum íþróttafélaga og íþróttasamtaka. Í þriðja lagi er bent á nauðsyn þess að nýta þekkingu, reynslu og gildismat kvenna til að þróa íþróttir sem henta konum vegna þess að það er auðvitað svo að ekki henta allar íþróttagreinar konum jafn vel og körlum eða höfða til þeirra eða vekja áhuga þeirra. Síðan er í fjórða lagi bent á nauðsyn þess að auka rannsóknir og þekkingu á konum og íþróttum. Það er ákaflega mikilvægt að átta sig á því hvaða íþróttagreinar eru hættulegar eða valda of miklu líkamlegu álagi o.s.frv.

Þá vil ég líka benda á það í þessu samhengi að í kvennaumræðu í Bandaríkjunum hefur töluvert verið vikið að íþróttum sem uppeldistæki, tæki til þess að efla dirfsku, hugrekki, þrek og þor til þess að takast á við vanda mannlífsins. Það er líka bent á íþróttir sem tæki til þess að ala upp leiðtoga, þ.e. leið til þess að ala upp fólk sem þorir að ganga fram fyrir skjöldu og bjóða sig fram til hvers konar leiðtogahlutverka. Það hefur einmitt verið bent á að íþróttakennsla karlmanna hefur verið mjög markviss í skólum svo að öldum nemur, þ.e. hjá þeim karlmönnum sem hafa átt þess kost að sækja skóla og sú þjálfun sem þar fer fram á sinn þátt í að efla það karlveldi sem við búum við enn þann dag í dag.

Það er ákaflega mikilvægt við þessa stefnumörkun að horfa á það hvað þurfi að gera, á hvaða sviðum, um hvaða íþróttir við erum að tala en ég vil alveg sérstaklega undirstrika að það þarf að skoða hin mismunandi svið, taka skólana sérstaklega og síðan þarf að taka almenningsíþróttirnar sér. Þó að menn hafi bent á að þeim fjölgar stöðugt sem stunda líkamsrækt af einhverju tagi, þá eru þeir fjarskalega margir og allt of margir sem aldrei gera neitt, samanber það dæmi sem nefnt var við mig um það að á meðan 10 menn færu út að hlaupa sætu 100 fyrir framan sjónvarpstækin. Þetta er hlutfall sem við þurfum að breyta. Ég held að við þurfum líka að mörgu leyti að breyta hugarfari fólks til íþrótta, að leggja ekki jafnmikla áherslu og gert hefur verið á einstakar keppnisíþróttir, heldur fyrst og fremst að líta á íþróttir út frá því sjónarmiði að þær séu fyrir alla og það eigi allir að stunda líkamsrækt bæði til að bæta heilsu og vinnuþrek og auðga lífið vegna þess að líkamleg átök færa fólki ákveðna fullnægingu og gleði. Þar hallar mjög á konur og það er það sem við viljum bæta með þessari tillögu.