Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 15:24:38 (660)

1995-11-02 15:24:38# 120. lþ. 25.3 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[15:24]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Kannski væri réttara að taka aftur til máls en það er fyrst og fremst ein athugasemd sem ég vildi gera við mál hæstv. menntmrh. Ég vil fyrst taka undir það með honum að mér finnst orðið líkamsrækt ná yfir allt þetta svið sem við þurfum að horfa á. Við þurfum að tengja þetta allt saman. En varðandi hans orð um íþróttahreyfinguna og það að hún marki sína stefnu, þá finnst mér að ríkisvaldið geti gert ákveðnar kröfur til íþróttahreyfingarinnar. Það vill svo til að samkvæmt frv. til fjárlaga árið 1996 er liðurinn, Ýmis íþróttamál, upp á 72,2 millj. kr. Þannig að þótt íþróttahreyfingin telji sig reyndar alls ekki fá nóg, þá fær hún töluvert fé úr ríkissjóði. Og í framhaldi af því finnst mér við geta gert þá kröfu til hennar að hún sinni íþróttum kvenna og líkamsrækt kvenna til jafns við karla. Þess vegna finnst mér það ekki óeðlilegt að ríkisvaldið og sú nefnd, sem væntanlega verður skipuð í framhaldi af þessari tillögu, móti stefnu sem nær til íþróttahreyfingarinnar, að sjálfsögðu í samvinnu við þær hreyfingar.