Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 17:10:24 (675)

1995-11-02 17:10:24# 120. lþ. 25.5 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[17:10]

Frsm. minni hluta (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 122 og nefndaráliti á þskj. 121 sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, en það hljóðar svo:

,,Á vorþinginu, þegar frumvarp um þingfararkaup og þingfararkostnað var til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd, skilaði fulltrúi Þjóðvaka í nefndinni séráliti þar sem m.a. kom fram eftirfarandi:

,,Það orkar mjög tvímælis að greiðslur ákveðnar af forsætisnefnd séu ekki skattskyldar og þar með óháðar skattalegu mati ríkisskattstjóra. Þingflokkur Þjóðvaka leggst eindregið gegn þessu ákvæði frumvarpsins.``

Í umfjöllun um málið var einnig varað við því að í frumvarpinu væru ákvæði sem væru til þess fallin að vekja upp tortryggni fólksins í landinu. Einkum var þar bent á hina óskilgreindu kostnaðargreiðslu og skattfrelsi sömu greiðslna.

Síðan Kjaradómur kvað upp sinn úrskurð og forsætisnefnd Alþingis birti sínar niðurstöður varðandi framkvæmd laganna hefur verið samfelld reiðialda í þjóðfélaginu. Skilaboðin eru skýr. Þjóðin telur að alþingismenn og ráðherrar eigi að falla undir sömu skattalög og aðrir.

Þær breytingartillögur, sem minni hluti nefndarinnar flytur, eru tvíþættar og með þeim er ítrekaður vilji þingmanna Þjóðvaka í þessu efni. Að mati þingmanna Þjóðvaka gengur frumvarpið of skammt. Enn standa eftir ákvæði sem lúta að sérstöku skattfrelsi á þingfararkostnaði. Þessar greiðslur voru áður háðar skattalegu mati ríkisskattstjóra.

Minni hlutinn flytur því breytingartillögu um að öll 16. gr. laganna, sem kveður á um skattalega meðferð á greiðslum þingfararkostnaðar, þar með talið skattfrelsi, falli brott. Þannig verði greiðslur húsnæðis-, dvalar- og ferðakostnaðar áfram háðar skattalegu mati ríkisskattstjóra.

Breytingartillögur minni hlutans taka einnig mið af réttmætri gagnrýni sem fram hefur komið á það atriði að ráðherrar geti fengið starfskostnað sinn greiddan frá Alþingi, jafnvel sem fasta fjárhæð, þótt venja sé að ráðuneytin greiði allan starfskostnað þeirra. Bent hefur verið á að einmitt þetta atriði hafi veikt mjög stöðu þingsins og orðið til þess að fólkið í landinu hafi alls ekki sannfærst um að hér væri um að ræða starfskostnaðargreiðslu til alþingismanna en ekki viðbótarlaunagreiðslu. Fyrsta breytingartillaga minni hlutans felur því í sér að heimildin til greiðslu starfskostnaðar ráðherra falli brott þar sem hann er greiddur af öðrum aðila, þ.e. ráðuneytunum. Nái sú tillaga ekki fram að ganga flytur minni hlutinn varatillögu um að greiðsla starfskostnaðar sem fastrar fjárhæðar í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum nái ekki til alþingismanna sem einnig eru ráðherrar.``

Þannig hljóðar þetta nefndarálit, virðulegi forseti, og eins og fram kemur beinist megingagnrýni minni hlutans að því að þrátt fyrir að greiðsla 40 þús. kr. sérstaks starfskostnaðar verði nú skattskyldar þá standa enn eftir sérlög um ákvæði sem lúta að sérstöku skattfrelsi á þingfararkostnaði sem voru áður háðar skattalegu mati ríkisskattstjóra. Við sjáum engin rök fyrir því að þingmenn ákveði sjálfir skattfrelsi þessara greiðslna en lúti ekki almennum reglum skattalaga um þessar greiðslur. Vissulega er það svo að skattstjóri hefur hingað til ákveðið að greiðslur varðandi húsnæðis-, dvalar- og ferðakostnað verði skattfrjálsar. Ríkisskattstjsóri sendi í júní 1989 bréf til allra skattstjóra þar sem undirstrikað er skattfrelsi þessara greiðslna þannig að færa megi þessar greiðslur til frádráttar á skattframtölum án þess að greinargerðar um þennan frádrátt sé krafist. Á því er vissulega grundvallarmunur hvort það séu skattyfirvöld sem ákveða skattfrelsi slíkra greiðslna eða hvort Alþingi gerir það sjálft með sérlögum eins og hér hefur verið gert.

Í greinargerð sem liggur fyrir frá 20. sept. sl. um skattalega meðferð starfskostnaðargreiðslna segir að í skattalögum gildi sú regla að í þeim tilvikum þar sem það liggur fyrir að greiðsla frá launagreiðanda til launamanns feli ekki í sér endurgjald fyrir vinnuframlag heldur sé um að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði í þágu launagreiðanda hafi ekki verið talið að um skattskyldar tekjur sé að ræða hjá launamanni. Í niðurlagi greinargerðar ríkisskattstjóra segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Telja verður að meginregla samkvæmt skattalögum sé að starfskostnaður til frádráttar skuli annaðhvort byggja á sannanlegum kostnaði samkvæmt reikningum eða fyrir fram útgefnu mati skattyfirvalda.``

Ég tel, virðulegi forseti, að þingmenn eigi að lúta þessari meginreglu skattalaga og því er sú brtt. flutt að 16. gr. um skattfrelsi þingfararkostnaðar falli öll út en ekki bara að hluta til. Það má ekki líta á þessa brtt. svo að ég telji endilega að þessar greiðslur eigi að skattleggja eða þær eigi að bera skatt, heldur hitt sem er grundvallaratriði að það sé skattstjóri sem ákveði hvernig skattalega skuli farið með þær greiðslur.

Sú breyting sem gerð er með þessu frv., að skattfrelsi sérstaks 40 þús. kr. starfskostnaðar fellur út, skiptir vissulega sköpum og því er ekki við því að amast að þingmenn hafi það val sem 9. gr. laga um þingfararkaup kveður á um og forsætisnefnd hefur með reglum sínum frá í ágúst fallist á að þeir hafi, þ.e. endurgreiðslur samkvæmt reikningum um allt að 40 þús. kr. eða föst mánaðarleg fjárhæð sem nú verður skattskyld sem er grundvallaratriði.

Varðandi þessa 40 þús. kr. greiðslu sem nú verður skattskyld er vert að fram komi að Snorri Olsen ríkisskattstjóri, sem mætti á fund efh.- og viðskn., upplýsti að sú staða gæti vissulega komið upp að skattyfirvöld viðurkenndu ekki reikninga sem þingið eða forsætisnefnd hefði samþykkt. Líklegt væri að endurgreiðsla á reikningum sem þingmenn legðu fyrir skattyfirvöld til að fá endurgreiddan að hluta eða öllu leyti skatt, sem af 40 þús. kr. greiðslunni var tekinn, yrði ekki endurgreiddur. Að auki kom fram að verði 16. gr. felld öll út eins og minni hlutinn leggur til vaknaði spurningin um skattskyldu húsnæðis- og dvalarkostnaðar á nýjan leik þótt skattyfirvöld hefðu áður úrskurðað slíkan kostnað skattfrjálsan.

Það er skoðun minni hlutans að þó það liggi fyrir að þessi spurning vakni hjá skattyfirvöldum og eins líklegt að þessar greiðslur verði skattlagðar eigi þingmenn að lúta því að mat á því hvort þessar greiðslur verði skattlagðar eða ekki verði framkvæmt af skattyfirvöldum en ekki af Alþingi með sérstökum lögum. Á þá breytingartillögu legg ég því sérstaka áherslu, að 16. gr. falli alveg brott en með því væri eytt allri tortryggni sem verið hefur um sérstök skattalög fyrir þingmenn og ráðherra.

[17:15]

Í annan stað eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans er lagt til, og við leggjum áherslu á það, að ráðherrar, sem fá starfskostnað sinn að verulegu leyti greiddan af ráðuneytum sínum, fái ekki þessa sérstöku greiðslu af starfskostnaði hvorki í formi fastrar fjárhæðar né samkvæmt reikningum með þeim augljósu rökum að hann er greiddur af ráðuneytunum enda liggur það fyrir frá skrifstofu Alþingis að enginn ráðherra hefur nokkru sinni fengið greiðslu fyrir útlögðum starfskostnaði sem þessar 40 þús. kr. standa fyrir. Falli sú tillaga er lögð fram varatillaga þess efnis að greiðsla starfskostnaðar sem fastrar fjárhæðar í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum nái ekki til ráðherra. Starfskostnaður ráðherra sem þeir kynnu að láta Alþingi greiða fremur en ráðuneyti yrði þá aðeins samkvæmt reikningi.

Virðulegi forseti. Ég hef lýst þeim breytingartillögum sem ég flyt og rökin að baki þeim en vil rétt í lokin bæta við örfáum orðum sem þessu máli tengjast en vil þó áður en ég vík frá efni frv. spyrjast fyrir um það hvort fyrir liggi greinargerð eða leiðbeiningarreglur frá forsn. um það hvað getur talist til starfskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningum. Ég tel mikilvægt að slíkt mat forsn. liggi fyrir fyrir þá sem velja að taka greiðslu samkvæmt reikningum í stað fastrar skattlagðrar fjárhæðar. Sé hún ekki þegar tilbúin eða þær reglur spyr ég um hvenær slíkrar greinargerðar eða leiðbeiningarreglna á starfskostnaði sé að vænta frá forsn.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar ASÍ og Verkamannasambandsins. Það var ljóst af máli þeirra sem allir vissu að þó að sérstakur 40 þús. kr. starfskostnaður yrði skattskyldur samkvæmt frv. er það ekki nema einn liður þess að leysa þann hnút sem kominn er á kjaramálin á vinnumarkaðnum. Á það var einnig bent að ekki færi vel á því að launakjör þingmanna væru bæði hjá Kjaradómi og að hluta líka í lögum um þingfararkaup eins og sérstakar greiðslur til forsn., nefndarálag til formanna nefnda og sérstakt álag til formanna þingflokka. Var m.a. rifjað upp að ástæða þess að ráðherrum var úrskurðuð 20% launahækkun hjá Kjaradómi væru þessar sérstöku greiðslur um nefndarálag til formanna nefnda, greiðslur til forsætisnefndar og formanna þingflokka. Sú spurning vaknaði líka hjá einum fulltrúa ASÍ hvort úrskurður Kjaradóms hefði orðið með öðrum hætti ef að dómurinn hefði vitað um þessar 40 þús. kr. greiðslur til þingmanna og ráðherra. Af sjálfu leiddi að miklar umræður urðu í efh.- og viðskn. um stöðuna í kjaramálum á vinnumarkaði og úrskurð Kjaradóms. Fulltrúar ASÍ lögðu megináherslu á að forsendur Kjaradóms yrðu birtar opinberlega sem nú hefur verið gert. Ljóst er að ASÍ telur þá greinargerð sem Kjaradómur hefur birt hvergi nægjanlega skýra og undir það get ég tekið. Margir hafa réttilega haldið því fram að inntak kjarasamninganna í febrúar væru krónutölusamningur en ekki prósentuhækkun. Það tóku forustumenn ASÍ í nefndinni undir og sögðu að væri grundvallaratriði í málinu. Í reynd má segja að fleiri hafi tekið undir það, eins og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar á þeim tíma þegar febrúarsamningarnir voru gerðir, sem töldu þá að febrúarsamningarnir væru algjörlega fordæmisskapandi fyrir aðra, með öðrum orðum krónutöluhækkun en ekki prósentuhækkun launa.

Það vekur því nokkra undrun að Kjaradómur, sem á að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðinum en ekki að móta hana, notar það sem helstu vörn í sínu máli í framlagðri greinargerð, að nokkrir aðilar í þjóðfélaginu hafi fengið prósentuhækkun en ekki krónutöluhækkun og virðist dómurinn algjörlega hafa litið fram hjá hinni almennu launastefnu í landinu sem var krónutöluhækkun en ekki prósentuhækkun.

Í greinargerð Kjaradóms er heldur engin tilraun gerð til að rökstyðja 9,5% til 20% hækkun til þeirra sem dómurinn ákveður laun fyrir. Það er líka athyglisvert að þegar Kjaradómur leitar að sambærilegum hópum og fyrir þá sem hann úrskurðar fyrir nefnir hann kjör bankastjóra, forstjóra, forstjóra fjárfestingarlánasjóða og fleiri aðila og segir orðrétt um þessa aðila að ekki sé vitað um neinar meginbreytingar á launakjörum þeirra frá 1992, þ.e. frá þeim tíma sem að ný lög um Kjaradóm tóku gildi sem dómurinn byggir úrskurð sinn á.

Þetta er sett fram til að sýna fram á að forsendur Kjaradóms byggja að mínu mati á mjög veikum grunni út frá þeirri kjarastefnu sem í gildi er á almennum vinnumarkaði og hefur ekkert með að gera að launakjör þingmanna eru langt frá því að vera réttlætanleg miðað við hæst launuðu embættismenn hjá hinu opinbera. Það er grundvallaratriði og ástæða fyrir allri ólgunni á vinnumarkaðinum að inntak kjarasamninganna frá í febrúar, að föst krónutöluhækkun skili mestu til láglaunahópanna en ekki prósentuhækkun sem færir hálaunafólki mest og sem Kjaradómur hefur byggt á, hefur ekki haldið. Inntakið í kjarasamningunum frá í febrúar var krónutöluhækkun sem átti að skila þeim lægst launuðu mest en ekki prósentuhækkun eins og Kjaradómur hefur byggt á. Þess vegna verður að líta svo á að Kjaradómur hafi raunverulega ekki farið eftir þeirri forskrift sem Alþingi gaf honum þar sem Kjaradómur átti að taka mið af almennri launastefnu í landinu en ekki móta hana.

Í 1. umr. um málið gerði ég að umtalsefni þær hækkanir sem hafa orðið frá í mars 1989 fram til 1. sept. 1995 og byggði raunar á 1. febr. 1989 þar sem fram kemur að þeir hópar sem Kjaradómur ákveður laun fyrir hafa hækkað verulega umfram lágmarkslaun í landinu og meðaltalslaun ASÍ og er það hvort sem litið er á prósentuhækkun eða krónutöluhækkun.

Miðað við 1. febr. 1989 til 1. sept. 1995 hækkuðu lágmarkslaun um 42%, meðaltal ASÍ um 32%, en laun þeirra sem Kjaradómur ákvað laun fyrir frá 47--60%. Ef litið er á krónutöluhækkunina þá hækkuðu lágmarkslaun um 13 þús. og 700 rúmar, meðaltalslaun ASÍ um 24 þús., meðallaun þau sem Kjaradómur ákveður laun fyrir hækkuðu frá 62 þús. upp í 130 þús. Hæstv. fjmrh. taldi ekki rétt að miða við þessa dagsetningu 1. febr. 1989 eins og ég gerði en þá hafði nýlega komið til launahækkun til kjaradóms fólks. Ég hef því skoðað þjóðarsáttartímann sérstaklega frá 1990 til september 1995 og þar virðist sama upp á teningnum að lágmarkslaunin og ASÍ-meðaltalið er miklu lægra í prósentum talið en hjá þeim sem Kjaradómur ákveður laun fyrir. Ef við skoðum þjóðarsáttartíma frá 1990 til 1995 hefur ASÍ-fólk að meðaltali hækkað um 18%, lágmarkslaunin um 23,5% og ef teknir eru þingmenn og ráðherrar hafa þingmenn á þessu tímabili, hækkað um 24,5% og ráðherrar um 35,4% og er þá ekki þessi 40 þús. kr. starfskostnaðargreiðsla meðtalin. Ég held að þetta sé mikilvægt innlegg inn í umræðuna nú þegar þessi ólga er á vinnumarkaðinum. Við getum náttúrulega verið í eilífri samanburðarfræði og mér finnst hún of mikið hafa snúist um það að þeir sem betur hafa það í þjóðfélaginu eru að bera sig saman um hvaða hálaunahópur sé hærri en hinn en mér finnst að inntakið eigi að snúast um það hvort þjóðarsáttarsamningarnir í febrúar hafi haldið eða ekki sem ég hef, eins og fram hefur komið í mínu máli, mjög dregið í efa.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta mál en vil þó aðeins leggja inn í umræðuna það sem fram hefur komið í skjölum um laun- og þingfararkostnað í nokkrum löndum sem sýnir alveg ótvírætt ef menn eru á annað borð að bera sig saman við laun þingmanna í öðrum löndum, sem mér finnst að vísu ekki passa inn í umræðuna, að þá eru laun þingmanna hér á landi miklu lægri en annars staðar. En það sem vekur sérstaklega athygli mína í þessum samanburði er að aftur á móti eru aðrar greiðslur hvort sem þær eru skattskyldar eða undanþegnar skatti, töluvert miklu hærri hér en gerist t.d. í Danmörku, Noregi og að hluta til í Svíþjóð og Finnlandi, þannig að starfskostnaðargreiðslur undanþegnar skatti eða skattskyldar virðast vera miklu hærri hér á landi en launin aftur á móti miklu lægri.

En í það heila tekið, virðulegi forseti, vil ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að þessar umræður sem verið hafa um kjaramálin nú á undanförnum vikum staðfesti svo ekki verður um villst að það þarf að taka á kjaramálunum og stokka allt launakerfið í landinu upp á nýjan leik. En ég hef, virðulegi forseti, gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem ég flyt við frv.